15.12.1937
Efri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

107. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Þegar þetta mál var borið fram í hv. Nd., fylgdi því grg. frá flm., þar sem m. a. svo var tekið til orða: „Saltfiskur var um mörg undanfarin ár aðalútflutningsvara vor Íslendinga, en nú hefir útflutningur á honum minnkað svo mjög, að á s. l. ári nam verðmæti hans aðeins um 14,5 milljónum króna, og á þessu ári mun útflutningur verða svipaður. Árið 1930 nam útflutningur þessarar vöru hinsvegar um 36 millj. króna, og á árinu 1933 nær 31 millj. króna. Útflutningsverðmæti þessarar vörutegundar hefir þannig minnkað síðan 1930 um 22 millj. króna“ — Þetta er sjálfsagt rétt tekið upp eftir útflutningsskýrslum, og þess vegna virðist mér það dálítið undarlegt, að þegar á þessum forsendum er byggt, þá skuli ætlazt til, að mestur hluti þess fjármagns, sem hér á að veita úr ríkissjóði, eigi að renna til saltfisksframleiðslunnar.

Samvæmt 3. lið 5. gr. þessa frv., sem hér liggur fyrir, á að veita félögum sjómanna, verkamanna eða annara styrk til að kaupa togara með nýtízku vinnslutækjum, og má styrkurinn nema allt að 25% af kostnaðarverði. Hin önnur verkefni fiskimálasjóðs eru talin upp í sömu gr., og eru þau ekki neitt smáræði. Samkv. 1. gr. á að koma á fót niðursuðuverksmiðjum eða styrkja þær verksmiðjur, sem fyrir eru. Þær eru nú vitanlega fáar, svo að höfuðverkefnið yrði því að reisa nýjar niðursuðuverksmiðjur. Þá á samkv. 2. lið gr. að veita lán til að kaupa hraðfrystitæki í þau frystihús, sem vel eru sett og hæf eru til þess að frysta fisk til útflutnings, þó ekki yfir 15000 kr. á hvert frystihús. Ennfremur til að reisa hraðfrystihús fyrir fisk á þeim stöðum, þar sem mest nauðsyn er fyrir hendi, allt að 1/4 kostnaðar, þó ekki yfir 25000 kr. á hvert hraðfrystihús.

Þegar þess er gætt, hvaða peningamagn er ætlazt til að hér sé fyrir hendi, þá finnst mér satt að segja verkefnin vera nokkuð stór, þ. e. a. s., ef meiningin er sú, að þessar ráðstafanir eigi að koma sjávarútveginum að verulegu gagni, hvað manni hefir skilizt á hv. stjfl.

Ég skal nú fyrst víkja að því, að sjávarútvegurinn þarf mjög öflugs stuðnings við, og það miklu öflugri heldur en hér er lagt til í þessu frv., og að ég hygg nokkuð á annan veg.

Nefndir bátaútvegsmanna og togaraeigenda, í samstarfi við stjórn fisksölusamlagsins, hafa lagt fyrir ríkisstj. niðurstöður af rannsóknum, sem sýna það, að með því fjárhagsástandi, sem nú er, og þeim afkomuhorfum, sem framundan eru, verður saltfisksframleiðslunni ekki haldið áfram nema með stórkostlegu hruni á þessum atvinnuvegi. Þetta álit er staðfest í bréfi, sem stjórn Sölusambands ísl. fiskframleiðenda hefir undirritað og sent ríkisstj., og þar var enginn stjórnarnefndarmaður undanskilinn. Það eru nú að ég hygg liðnar tvær vikur síðan þessar niðurstöður voru lagðar fyrir ríkisstj. og síðan fundur var haldinn í stjórnarráðinu að viðstöddum öllum ráðherrunum og formönnum stjórnmálaflokkanna hér á Alþ., og er nú beðið eftir því, að ríkisstj. láti eitthvað til sín heyra um það, hvaða ráð hún sjái til þess að létta svo undir með þeim, sem stunda saltfisksframleiðslu, að það geti forðað því hruni, sem að áliti hinna kunnugustu manna, er fram undan, ef ekkert er að gert.

Þegar þessar niðurstöður fengust af þeim aðiljum, sem ég hefi nefnt, var það þegar vitað, að útflutningsgjald af saltfiski yrði afnumið. Ég vil taka þetta fram til þess, að enginn gangi þess dulinn, að að áliti stjórnar sölusambandsins og þeirra nefnda, sem störfuðu bæði fyrir smáútveginn og stórútveginn, er niðurfelling útflutningsgjaldsins af saltfiski ein út af fyrir sig — þó að vísu hún sé réttmæt og þakkarverð, það sem hún nær — engan veginn næg ráðstöfun til þess að létta svo að um muni þá erfiðleika, sem þessi atvinnuvegur á, við að búa. — Nú er liðið svo mjög á þingtímann, að aðeins nokkrir dagar eru eftir, og verð ég því við þetta tækifæri að láta í ljós vonbrigði mín yfir því, að ríkisstj. hefir ekki ennþá, eins og hún lofaði, kvatt þessa aðilja aftur til viðræðu um þetta mál, eða yfirleitt látið nokkuð frá sér heyrast um það, hvaða ráðstafanir hún gæti gert. Og ég verð einnig að segja það, að ég hefði kosið, að einhver ráðh. hefði séð sér fært að vera hér viðstaddur, því að það væri full ástæða til, að inn í umr. um þetta frv. drægjust umr. um hinar almennu ráðstafanir, sem við útvegsmenn höfum farið fram á, að gerðar væru.

Ég skal þá aftur víkja að sjálfu frv. og þeim ráðstöfunum, sem samkv. því á að gera og svo mjög hefir verið gumað af í stjórnarblöðunum, að væru til viðreisnar sjávarútveginum. — Ég hefir þegar lýst því, hvað eigi að gera samkv. 1. og 2. lið 5. gr. þessa frv., og einnig samkv. 3. lið, sem ég legg til, að verði felldur niður, af þeirri ástæðu, að reyndin hefir orðið sú að undanförnu, að þrátt fyrir það, þó að útvegsmenn hafi verið skattlagðir um ½% af öllum sjávarafurðum handa fiskimálanefnd, og hún þannig sennilega fengið um 100 þús. kr. á ári, þá hefir lítið verið gert, sem hægt sé að segja, að miði til verulegra hagsbóta fyrir sjávarútveginn almennt. Það hafa að vísu verið styrkt nokkur hraðfrystihús og keyptir staurar til landsins til þess að hengja á fisk til herðingar, en til þess hefði ekki þurft neitt rándýrt nefndárbákn eins og fiskimálanefnd. Þessar styrkveitingar, staurakaup og þ. u. l. hefði verið innan handar fyrir afvinnumálaráðuneytið sjálft að framkvæma. Hinsvegar hefir þétta undirráðuneyti, sem ég nefni fiskimálanefnd, fengizt við ýmiskonar tilraunir, sem meira og minna hafa misheppnazt, eins og vitað er, þannig að samkv. þeirri reynslu, sem fengin er í þessum efnum á undanförnum árum, er ekki hægt að draga þá ályktun, að skattgjald það á útvegsmenn, sem með þessu frv. á enn að nýju að lögfesta, beri nokkurn verulegan ávöxt í auknum framkvæmdum eða fyrirtækjum, heldur muni það að mestu leyti fara, eins og áður, í tilraunastarfsemi og rándýran nefndarkostnað. — Og hvað viðvíkur þessum 400 þús. kr., sem eiga að standa nær einar undir þeim framkvæmdum, sem taldar eru upp í 1., 2. og 3. lið 5. gr., þá gefur að skilja, að það verður harla litið eftir af þessu fjármagni til þess að koma upp niðursuðuverksmiðjum, til þess að kaupa hraðfrystitæki og reisa ný hraðfrystihús, þegar búið er að leggja fram til þessara tveggja nýju togara, þó að það sé ekki beinlínis tekið fram í frv., að þeir eigi að vera tveir, vegna þess að ég hefi séð það þannig útlagt í blöðum stj., að það eigi að kaupa tvo togara. Ennfremur hafa þeir, sem að þessum málum standa, gert þá áætlun, að tveir togarar, búnir nýtízku tækjum, muni kosta um 700 þús. kr. hvor fyrir sig, og ætla ég það sízt of hátt áætlað. Kaupverð þessara togara mun því verða samanlagt minnst 1400 þús. kr., og 25% af því er 350 þús. kr. Og er þá kúfurinn farinn að fara af þessum 400 þús., sem ætlað er að verja til hinna margvíslegu annara hluta. Þá yrðu eftir um 50 þús. kr., og sé það nú virkilega alvara að gera gangskör að því að breyta fiskiðnaðinum að miklu leyti í niðursuðu og hraðfrystingu, þá sjá það allir, að þessi fjárhæð nær mjög svo skammt til þess að koma því í framkvæmd.

Ég tel þetta mál tekið vettlingatökum, er aðeins nokkur hluti peninganna á að renna til þessara lítilfjörlegu umbóta, en mestur hlutinn til kaupa á togurum, eða ef til vill allt, því að skipin þyrftu ekki að vera nema litlu dýrari en 700 þús. kr. hvort, til að gleypa alveg þessar 400 þúsundir.

Hv. dm. spyrja ef til vill, hvort ég telji ekki þörf á því að kaupa togara og endurbyggja flotann. Því svara ég þannig, að ég er þeirrar skoðunar, að þessa sé þörf. (SÁÓ: Mikið var!) Hv. framítakandi hefir undanfarin 7 ár, eða allan sinn þingsetutíma, ef ég man rétt, verið vitni að því, að við sjálfstæðismenn höfum flutt frv. um að efla fiskveiðasjóð, svo að hann yrði þess megnugur að stuðla að endurbyggingu flotans. En þó að ég telji þetta sjálfsagt, tel ég líka þörf að stuðla að eflingu vélbátaflotans og línuskipaflotans. Við viljum ekki einskorða okkur við togarana. En hér er stefnt að því að verja þessu mikla fé einungis til togarakaupa.

Af þessum ástæðum, af því að ég vil ekki fórna öllu fyrir kaup á tveim togurum, legg ég til, að 3. liður sé niður felldur. Það myndi þýða, að þessar 400 þús. kr. mætti nota til að ýta af stað mjög myndarlegum framkvæmdum í niðursuðu og hraðfrystingu víðsvegar um land, og væri það ekki aðeins hagur fárra manna, sem stunduðu atvinnu á tveim togurum, heldur til hagsbóta mörgum þúsundum manna, sem standa að vélbátaútvegi landsins.

Ef þetta mikla fé á að leggja í togara, geta hin verkefnin, sem talin eru í frv., ekki verið framfærð nema til málamynda. Það yrðu varla mikil tilþrif, þó að niðursuða og hraðfrysting væru styrktar með 50 þús. kr. framlagi, sem afgangs myndi verða, ef togararnir yrðu ekki dýrari en ráð er fyrir gert, sem ég leyfi mér að efast stórlega um, að reynast myndi.

Ég endurtek það, sem ég hefi áður sagt, af því að hæstv. atvmrh. er hér staddur, að við útvegsmenn höfum fyrir 2 vikum lagt fyrir hæstv. stj. vel rökstudd gögn fyrir því, að saltfisksframleiðslan geti ekki haldið áfram, nema henni sé veittur stuðningur, og ég sakna þess, að við höfum ekki fengið svör við þessu frá hæstv. stj., eins og lofað var á fundinum í stjórnarráðinu. En við því var búizt, að þau svör kæmu fyrir lok þessa þings.

Ég hefi nú gert grein fyrir ástæðunum fyrir því, að ég legg til, að 3. liður verði felldur, en aðalástæðan er sú, að ég vil vinna að því, að hin atriðin, sem talin eru í 1. og 2. lið, geti orðið til gagns, en þau væru að öðrum kosti ekkert annað en þýðingarlaus gylling á frv.