15.12.1937
Efri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

107. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Bjarni Snæbjörnsson:

Ég tók ekki til máls við 2. umr. málsins, því að ég bjóst við, að málinu væri ætlað að ganga fram, hvað sem hver segði. En upp á síðkastið hafa komið fram svo einkennilegar skoðanir hjá jafnaðarmönnum hér í d., að mér finnst ég verða að segja álit milt, áður en málið fer úr þessari hv. d.

Hér hefir aðallega verið um það deilt, hvort meira aðkallandi væri nú að hjálpa togaraútgerðinni í heild eða að hjálpa sjávarútveginum á þann hátt að kaupa tilraunatogara, til að reyna, hvort hægt væri að reka nýtízku togara með góðum árangri.

Ef tekið er fyrra atriðið, hvort ástæða sé til að hjálpa togaraflotanum, sem fyrir er, þá virðist mér sumir menn hér vera þeirrar skoðunar, að þess þurfi ekki með, því að áætlanir togaraútgerðarmanna fyrir 1938 geti ekki staðizt, en í öðru lagi sé fiskverð nú að hækka, svo að afkoman hljóti að verða góð á næsta ári. Það getur verið, að kostnaðaráætlanir fyrir 1938 hafi í nokkrum atriðum verið of háar. En um tapið á togaraútgerð undanfarin ár verður ekki deilt. Ég er nokkuð kunnugur bæjarútgerðinni í Hafnarfirði. Þar gera sósíalistar út, svo að ætla mætti, að sú útgerð hefði farið vel úr hendi. Frá því sú útgerð hófst, hefir öll árin orðið tap á henni, nema eitt árið. Í tapi þessarar útgerðar er fiskverkunarstöð innifalin, og hefir þó venjulega verið gróði af slíku fyrirtæki. Og þegar þess er gætt, að þessi útgerð hefir ekki greitt útsvar, sjá allir, að skýrsla togaraútgerðarmanna muni vera á rökum reist, því að það tap, sem hún gefur upp, er ekki einu sinni meðaltal af tapi skipa í Hafnarfirði.

Þegar slíkt tap hefir orðið á útgerðinni, er ekki hægt að segja, að nú á næsta ári sé útlitið svo gott, að líkur séu til að afkoman verði sæmileg. Það er gefið, að eins og útlitið er nú og svo gömul sem skipin eru orðin og frek til viðgerða, getur togaraflotinn ekki borið sig. Stjórnarsinnar segja, að nú sé verið að gera svo og svo mikið fyrir útgerðina, afnema útflutningsgjöld og létta af henni sköttum. Hér hefir komið fram frv. um skattauka. Hann var felldur niður og annað ekki.

Einnig hefir verið minnzt á, að hjálpa ætti útgerðinni með því að létta skatta hennar þar, sem hún er rekin, lækka hafnargjöld og fleira þess háttar. Það þýðir, að verið er að skylda bæjarfélögin, sem hafa mjög þröngan fjárhag, til að hjálpa útgerðinni, en hv. Alþ. eða stjórnarflokkarnir ætla ekkert annað að gera en að hætta við að leggja á hana nýja skatta. En um leið og þeir segjast hafa létt sköttum af útgerðinni eru öll veiðarfæri, hvaða nafni sem nefnast, skattlögð með þessari 2% skatthækkun, sem geymist í þessu frv. Nei, Alþ. hefir ekkert gert til að útgerðin geti borið sig, og þar með, að afkoma sjómanna og verkamanna, sem þessir menn bera sérstaklega fyrir brjóstinu, geti orðið sæmileg. Það er öllum vitanlegt, að þótt keyptur verði einn nýtízku togari sem tilraunaskip, þá bjargar hann ekki fólkinu í þessu landi. Hann gerir ekki það að verkum, að togarar í Reykjavík eða Hafnarfirði geti farið á veiðar þrátt fyrir þau stórkostlegu töp, sem hér hefir verið gefið í skyn, að þeir hafi orðið fyrir, og hægt er að sanna, að séu rétt reiknuð. En hvað verður þá, ef togararnir, sem til eru, komast ekki á veiðar? Hvað ætlar stjórnarliðið þá að gera? Ætla þeir að hafa þá aðferð, sem virðist vera gefin í skyn með þessu frv., að þvo sínar hendur af aðgerðarleysi Alþ. með því að segja, að það sé ekkert hægt að gera vegna sjálfstæðismanna á Alþ. Ætla þeir að hafa sömu aðferð og þá, sem höfð er í blöðum þeirra, að segja að skipin liggi bundin vegna þess að sjálfstæðismenn vilji ekki gera þau út?

En þessu trúir fólkið ekki, a. m. k. ekki sjómenn og verkamenn, sem þetta mái snertir mest. Þá kem ég að hinu atriðinu með þetta tilraunaskip. Þó að ég fagni því, að hingað komi skip til að gera þessa tilraun um, hvort hægt er að láta útveginn bera sig með nýtízku tækjum, vinnsluvélum og stórum skipum, sem geta sótt aflann alla leið til Grænlands og Spitzbergen, þá er það ein spurning, sem mér finnst, að menn ættu líka að hafa hugfasta í þessu sambandi; það er, hvort réttara sé að styrkja þá útgerð, sem nú er, með fjárframlögum, sem svara þeirri upphæð, sem verja á til kanpa þessa nýtízku togara, á þessum tímum., þegar líkindi eru til, að hann mundi kosta margfalt meira fé en næstu 2 eða 3 árin. Það er vitanlegt, að frá í fyrra um þetta leyti og til þessa tíma hefir smíði á nýtízku togurum hækkað um ca. 7 þús. £, sem er um 150–160 þús. ísl. kr., eða allt að þessu 25% framlagi fiskiveiðasjóðs, sem hann á að leggja fram. Á þessum tímum, þegar allt logar í ófriði og verkstæði hafa öll yfirfullt að gera og stál hækkar í verði, væri ólíkt skynsamlegra að reyna að hjálpa þeirri útgerð, sem nú er til, með þessu fjárframlagi, en að leggja það í þessi kaup meðan veiðlag er eins hátt og nú er.

Ég vil í þessu sambandi minnast á það, sem deilt hefir verið á hv. þm. Vestm., án þess hann hafi gefið þar mikið tilefni til; um það, hvort betra væri að reka togara eða mótorbáta. Ég ætla að láta þessa deilu hlutlausa, en ég tel, að það sé mikið undir staðháttum komið, hvað heppilegast er á hverjum stað. T. d. álít ég heppilegra fyrir Vestmannaeyjar að hafa mótorbáta heldur en Hafnarfjörð, en svo aftur heppilegra fyrir Hafnarfjörð að hafa togara heldur en Vestmannaeyjar. En flokksmenn hv. 3. landsk. og hann hafa hamrað á því, að bæjarstj. í Hafnarfirði ætti að ganga í ábyrgð til að hægt væri að koma þar upp mótorbátaútgerð. Seinast þegar þing var komið saman, kom áskorun til mín, sem mér var sagt, að hefði líka verið send hv. 3. landsk., um að ég hlutaðist til um, að Alþ. veitti Hafnarfjarðarbæ og verkamannafélaginu Hlíf þar ábyrgð til að koma upp mótorbátum og setja upp frystihús í Hafnarfirði. Þó undarlegt megi virðast, hafa ýmsir, þar á meðal flokksmenn hv. 3. landsk., haldið því fram, að mótorbátaútgerð mundi bera sig betur en togaraútgerð í Hafnarfirði.

Þá vil ég minnast á það, sem hv. 3. landsk. minntist á, að sjómenn og verkamenn ættu að bera allan þungann af útgerðinni. Nú er langt frá, að ég hafi á móti því, að sjómenn og verkamenn eigi erfitt með að framfleyta sér og sínum á þessum erfiðu tímum, og ég vildi gjarnan, að þeir gætu átt við sæmileg kjör að búa. En á þessum erfiðu tímum verða allir, sem hlut eiga að máli, að slá heldur af sínum kröfum heldur en að auka þær. Ég hefði ekkert á móti því, að sjómenn og verkamenn fengju þessar 21 þús. kr. sem leggja á á hvern togara, en þá yrði að vera hægt að létta einhverjum öðrum tilsvarandi sköttum af útgerðinni. Það er vitanlegt, að tilgangur hv. 3. landsk. með því að slá því fram í hv. deild, að átgerðarmenn ætluðust til, að sjómenn og verkamenn ynnu kauplaust á togurunum, hefir ekki verið annar en að reyna að blekkja menn. Til þess ætlast enginn.

Það hefir verið minnzt á fiskimálan. öðrum þræði í sambandi við þetta. Hv. 3. landsk. sagði, að það væri ekki eins mikill skrifstofukostnaður við hana eins og Sölusamband ísl. fiskframleiðenda, en þó hefir hann hækkað úr 38 upp í 65 þús. á einn ári. Enda virðist ríkisstj. vera orðinn þessi kostnaður þyrnir í augum, því í frv. þessu er tekið fram, að ríkissjóður eigi ekki að borga hann. Ríkissjóður er orðinn hræddur við þennan mikla bagga og vill láta sjómenn og útgerðarmenn borga hann, enda má gera ráð fyrir eftir því, sem á undan er gengið, að skrifstofukostnaðurinn hækki upp í ca. 100 þús. á næsta ári.

Þá hefir og mikið verið talað um það mikla gagn, sem fiskimálanefnd hafi gert. Útgerðarmenn hafi t. d. verið ófáanlegir til þess í fyrstu að herða fisk eða setja vörpu í sjóinn til að veiða karfa, eins og hv. 9. landsk. orðaði það. Skilur ekki hv. 9. landsk. og aðrir, að ekki er eðlilegt, að menn herði fisk, þegar sæmilegt verð fæst fyrir hann saltaðan? Þegar fiskimálanefnd kemur til sögunnar, eru farnir að verða erfiðleikar á sölu saltfiskjar, og þess vegna fara menn að herða fisk. Það er eðlileg afleiðing af því, að markaðurinn brást, og hefði verið gert jafnt hvort Héðinn Valdimarsson hefði stjórnað þessu fyrirtæki eða sölusamband ísl. fiskframleiðenda hefði haft forustu í því. Um karfaveiðarnar vita þeir efalaust, hv. 9. landsk. og hv. 3. landsk., að þær fengu fyrst skrið þegar fiskifræðingurinn Þórður Þorbjarnarson kom upp með allt vítamínið, sem væri í karfalýsi og karfamjöli. Það var hann, sem kom karfaveiðunum af stað, en fiskimálanefnd kom ekki til skjalanna fyrr en eftir að útgerðarmenn voru byrjaðir á þeim. Þetta eru því rök, sem ekki sæmir að bera fram á Alþ.

Að lokum vil ég gera fyrirspurn til hv. jafnaðarmanna hér t hv. deild og hæstv. atvmrh. Það er um það, hvernig fer með þennan nýtízku togara, þegar hann kemur. Nú segir einn, að það verði einn togari, sem komi, 3. landsk. segir, að það verði tveir. Þetta má til sanns vegar færa á þann hátt, að fyrsta árið komi einn og næsta ár komi annar í viðbót, ef þannig á að endurnýja togaraflotann. Raunar býst ég við, að ef það á að gerast, verði að koma fleiri en einn eða tveir togarar. En ef nú kemur aðeins einn togari, — hvert á hann þá að fara og hverjir eiga að fá hann? Ef nú Hafnfirðingar, Reykvíkingar og Keflvíkingar vilja fá hann, hvað á þá að ráða úrslitum? Á að hugsa um, hvar þörfin er mest, eða eiga einhverjir vildarvinir fiskimálanefndar að fá hann?

Í frv. er svo fyrir mælt, að fiskiveiðasjóður leggi fram 25% af kaupverði togarans, verkamenn og sjómenn, eða aðrir, sem áhuga hafa fyrir þessu, 15–20%. Þarna eru komin 40–45%. Nú vildi ég spyrja, hvaðan á hinn hlutinn að koma? Hvar á að fá lán til þessa? Frá áreiðanlegum heimildum hefi ég þær upplýsingar, að t. d. í Englandi láni skipasmíðastöðvarnar aldrei meira en 50% af skipsverðinu.

Ég efast ekki um, að þeir hv. 3. og 9. landsk. og hæstv. ríkisstj. muni geta svarað þessu, og langar mig til að fá það upplýst.