15.12.1937
Efri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

107. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Árni Jónsson:

Mér þykir skiljanlegt, að hæstv. forseti reki á eftir mönnum nú undir þinglok, og má segja, að mjög er nú setið, og getur það sama átt við um okkur og sagt var um einn ráðh., að hann væri mjög sitjandi. Er þar ekki heldur leiðum að líkjast. En þar sem ég hefi ekki reynt mjög á þolinmæði hæstv. forseta það sem af er þingi, þá vona ég, að það sé átölulaust af hans hálfu, þótt ég segi nokkur orð.

Að ég stóð upp, orsakaðist af því, að við upphaf ræðu hv. 3. landsk. beindi hann nokkrum orðum til hv. þm. Vestm., sem þá var ekki viðstaddur. Var þá rætt um aukið starf fiskimálanefndar og látið mikið af störfum hennar, enda var ræða hv. 3. landsk. að mestu leyti gum af þessu ástfóstri þeirra stjórnarflokkanna. Það er líkt á komið með þetta ástfóstur stjórnarflokkanna og börn sumra mæðra; þeim þykir ekki alltaf vænzt um efnilegustu börnin, heldur þvert á móti. Mæðurnar láta sér oft annast um þau börnin, sem öðrum þykir mestu leiðindakrógar. Þannig hefir þetta farið með fiskimálanefnd hjá stjórnarflokkunum. Þótt þeir gumi endalaust af henni, hefir öðrum þótt hún mesti leiðindakrógi.

Hv. 3. landsk. hóf ræðu sína á því að mótmæla ummælum hv. þm. Vestm. um, að fiskimálanefnd væri óþörf, og færði fram sem sönnun fyrir því, að Alþ. hefði ekki fundið ástæðu til að afnema hana, heldur ætlaði það nú að veita henni meiri völd en verið hefði. Þetta verð ég að segja, að eru léleg rök. Ég hefi setið fundi þeirra manna, sem fyrst og fremst eiga hagsmuna að gæta á því sviði, sem fiskimálanefnd er sett yfir, sölusamband ísl. fiskframleiðenda. Hygg ég, að réttasta dóm á ágæti þessarar n. megi fá hjá þeim mönnum, sem mest eiga undir því, að vel sé gengið fram um sölu þeirra vara, sem fiskimálanefnd er sett til að sjá um, en ekki hjá Alþ. Á fundum þessa sambands hefir verið mikið um fiskimálan. rælt síðan hún var stofnuð, og hún hefir haft þar fulltrúa sína og velunnara. En í apríl 1936 var þess krafizt einróma af fundarmönnum, að fiskimálanefnd væri lögð niður, og var ástæðan fyrir því sú, að þá hafði hún nýlega ráðizt í að senda hinn margumrædda Steady-farm til Ameríku. Fiskeigendur höfðu ekki meiri trú á ráðstöfunum n. en þetta.

Ég ætla ekki að fara að ræða hér Póllandsfiskinn, sem hv. 3. landsk. sagði, að hv. þm. Vestm. hefði átt svo mikinn þátt í að senda. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. Vestm. muni sjálfur upplýsa, hvern þátt hann átti í því máli, og geta menn þá séð, hvort honum ber að þakka eða skella skuld á hann fyrir það, sem þar gerðist.

Mér þykir furðulegt, þegar hv. 3. landsk. ber saman ísfisksölu fiskimálanefndar og saltfisksölu sölusambandsins. Sem kunnugt er hefir sambandið annazt alla saltfisksölu landsmanna, og jafnvel þeir, sem eitthvað hafa haft við einstaka framkvæmdir þess að athuga, eru á einu máli um það, að ef sú stofnun hefði ekki komið til, væru útgerðarmenn milljónum fátækari og útgerð þeirra ennþá verr komin. Til dæmis um það, hvernig þessar tvær stofnanir starfa, skal ég nefna það, að þegar sölusambandið flytur út fisk, er alltaf reiknað í tonnum, en þegar fiskimálanefnd flytur út fisk, er reiknað í kílóum og pundum.

Nú er eðlilegt að kostnaður við fyrirtæki eins og sölusambandið sé alltaf meiri en við fiskimálanefnd. En þó er það ekki sá gífurlegi kostnaður, sem við nefndina er, sem menn telja mest eftir, heldur er það það tap, sem hún bakar landsmönnum.

Þegar verið er að veita fiskimálanefnd aukið starfssvið, er reynt að réttlæta stofnun hennar og tilveru með því, að einkafyrirtæki hafi ekki fengizt til að taka upp nýbreytni í verkunaraðferðum og hagnýtingu fiskjar viðvíkjandi markaði í Suðurlöndum. Það er bezt að minna hv. þm. á, hvernig fiskimálanefnd er til komin. Hugmyndin um fiskiráð er ekki komin frá stjórnarflokkunum, heldur frá sjálfstæðismönnum. Þeir báru fram frv. um fiskiráð hér á Alþ., og í því frv. er gert ráð fyrir flestöllum þeim hlutverkum, sem fiskimálanefnd hafa verið fengin. Þar er gert ráð fyrir harðfiskverkun, hraðfrystingu og markaðsöflun bæði í Suður- og Norður-Ameríku. Það eru sjálfstæðismenn, sem eiga hugmyndina að öllu þessu, og ef þeir hefðu haft framkvæmd hennar, hefði hún orðið allt önnur en nú er. Hugmyndin er góð, en framkvæmdin hefir í mörgum tilfellum verið sú, að í augum fiskeigenda hefir fiskimálan. algerlega fyrirgert tilverurétti sínum. Annars er það svo, að þessi söngur hv. 3. landsk. og fleiri um, að fiskeigendur hafi ekki fylgzt með, þeir hafi verið ófúsir til að taka upp nýjar verkunaraðferðir og afla nýrra markaða, ekki nýr, þetta eru gamlar flugur, sem bornar voru á borð á þeim tíma, þegar verið var að undirbúa stofnun fiskimálanefndar. Ég man eftir því í útvarpsræðu hjá hæstv. atvmrh. 1935, að hann hélt því fram, að þeir, sem önnuðust fisksöluna, væru tómlátir um allt nýtt og hjá þeim færi allt í handaskolum, en sannleikurinn er sá, þrátt fyrir þetta tal, að allt fram að þeim tíma, er saltfisksmarkaðurinn rýrnaði, vorum við alltaf að vinna á í Suðurlöndum á kostnað keppinautanna. Okkar skæðustu keppinautar, Norðmenn, voru stöðugt að hopa úr hverju landinu eftir annað. Þeir hefðu heldur viljað sitja að saltfiskmarkaðinum einir, en þeir urðu að hopa, og við sátum að bezta mörkuðunum. Þetta var nú allt tómlætið. Hitt er annað mál, að þegar þessi markaður lokaðist, þá þurfti að finna nýjar leiðir, en þá urðu útgerðarmenn fyrstir til að benda á herðingu, hraðfrystingu o. s. frv. Þess vegna er það, þegar verið er að saka útgerðarmenn um það, að þeir hafi ekki viljað aðrar verkunaraðferðir eða annan markað en fyrir saltfiskinn, samskonar ásökun eins og ef bóndinn væri ásakaður fyrir að fara ekki með sitt fólk í útsköfurnar meðan ræktaða landið er enn óslegið. En eins og bóndinn neyðist til að fara á útsköfurnar, þegar allt betra slægjuland er búið, eins neyddumst við til að taka upp nýjar aðferðir og leita nýrra markaða, er bezti markaðurinn lokaðist.

Sannleikurinn er sá, að starfsemi fiskimálan., hefir gengið hörmulega illa. Ég held, að ennþá sé rétt að telja harðfisksöluna í pundum. Það má benda á það, að síðan markaðurinn lokaðist í Suðurlöndum hefir verið leitað nýrra markaða annarsstaðar. Tveir framkvæmdastjórar Sambands ísl. fiskframleiðenda fóru til Ameríku og komu aftur með bezta árangur. Þeir opnuðu markaði í Brazilíu, Argentínu, Uruguy, Cuba og víðar. Þó þeir markaðir væru ekki sambærilegir við markaðina í Suðurlöndum, þá voru þeir mikil hjálp út úr þrengingunum. Nei, ég álít það næsta eðlilegt, að einmitt hv. þm. Vestm., sem sjálfur er útgerðarmaður og fulltrúi fyrir útgerðarmenn, sem eiga sína hagsmuni að allmiklu leyti undir fiskimálanefnd, þó þessi maður vilji ekki stækka starfssvið fiskimálanefndar frá því, sem verið hefir, því sannleikurinn er sá, að hún hefir brugðizt vonum manna meira en flest önnur fyrirtæki, sem stofnuð hafa verið á síðari árum.