15.12.1937
Efri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

107. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Bjarni Snæbjörnsson:

Ég get verið stuttorður Það voru aðeins örfá atriði, sem ég vildi ekki láta ósvarað hv. 3. landsk.

Það er þá fyrst það atriði, að bæjarsjóður Hafnarfjarðar væri miklu fátækari, ef togararnir hefðu ekki verið þar, sem ég vil segja, að ekki sé rétt. Að vísu hafa þeir skaffað atvinnu í bæinn, en samtímis hefir líka aðstreymi fólksins aukizt þangað mjög, svo að það voru ekki einungis bæjarbúar einir, sem nutu góðs af. En nú vil ég skýra hv. þm. frá því, að tap bæjarútgerðarinnar á þessu ári er komið yfir ½ millj. kr., og fátækt bæjarfélag, eins og Hafnarfjörður, hlýtur þó að vera miklu verr sett en áður, ef það fær í viðbót við það, sem fyrir er, ½ millj. kr. skuldabagga. Þetta er því eins og hver önnur firra hjá hv. þm., sem ekki er hægt að láta ómótmælt.

Hv. 3. landsk. minntist líka á það, að margir hefðu verið á móti þessum togarakaupum, þ. e. a. s. þeim síðari. En ég get upplýst hann um, að það voru einangis sjálfstæðismenn. Hinir allir álita þetta hið mesta happ fyrir bæjarfélagið, þrátt fyrir það, hvernig allt var í pottinn búið.

Þá sagði hv. þm., að verðfallið hefði komið 1935 — sem er rétt og það eina rétta af því, sem hann sagði — og að Alþ. hefði séð, að hverju stefndi, en útgerðarmenn hefðu ekki séð það. Samt sem áður er margbúið að taka það fram við hv. þm., að það hafi einmitt verið sjálfstæðismenn, sem báru það fram á þingi að stofna nefnd, sem færi í sömu átt og fiskimálanefnd. En það er alveg sama, hvað sagt er við þennan hv. þm., hana ber bara höfðinu við steininn og segir, að svona hafi það verið og öðruvísi ekki.

Þá vil ég að lokum minnast á karfaveiðarnar. Hv. 3. landsk. játaði, að ég hefði farið þar rétt með, en hamraði á því, að útgerðarmenn hefðu verið tregir til að gera út á karfaveiðar, og ekki fengizt til þess nema örfáir með styrk frá fiskimálanefnd. En þó að hv. þm. geti bent á eitt útgerðarfélag fyrir vestan, sem máske hafi borið sig við karfaveiðarnar, þó var það nú svo, að togarar, sem styrktir voru í þessu skyni af fiskimálanefnd, urðu gjaldþrota, en svo hefði varla farið, ef uppgripaafli hefði verið af ufsanum.