11.12.1937
Neðri deild: 47. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

13. mál, sauðfjárbaðanir

Þorbergur Þorleifsson:

Þetta frv. er í aðalatriðunum frv., sem víð hv. þm. Borgf. og hv. þm. N.-Þ. fluttum á þingi 1936. Það gekk þá greiðlega í gegnum þessa d. og var afgr. til Ed., og því er þess að vænta, þar sem þetta frv. hefir verið tekið upp í Ed., að það fái greiða afgreiðslu í þessari d. eins og þá.

Hv. þm. A.-Hún. reyndi þá að tefja fyrir framgangi þessa máls, eins og hann reynir enn með því að kljúfa n. og hindra, að þetta mál gangi fram. Þau rök, sem hann færði fram gegn frv., var, að ef það yrði að l., mundu þau draga úr því, að þau l., sem hafa verið samþ. um útrýmingu fjárkláðans, yrðu framkvæmd. En við. sem fluttum frv. í Nd., héldum fram, að ef svona l. yrðu samþ., þá yrði það einmitt til þess að draga úr fjárkláðanum, og ef til vill til að útrýma honum með öllu. Þess vegna er það undarlegt með þá, sem eiga heima þar, sem fjárkláðinn er, eins og í héraði hv. þm. A.-Hún., að þeir skuli beita sér gegn því, að svona löggjöf verði samþ. Það hefir ekki þótt fært, að þessi l. kæmu til framkvæmda, og útlit fyrir, að það muni geta dregizt í nokkur ár, að l. um útrýmingu fjárkláðans verði framkvæmd. Og hvers vegna þá ekki að leyfa þessari löggjöf að sýna sig og vita, hvort þetta strangara eftirlit með þrifaböðunum gæti ekki orðið til þess að draga úr eða útrýma fjárkláðanum, því að um það er engum blöðum að fletta, að í þeim héruðum, þar sem hann hefir magnazt, þá stafar það af því að miklu leyti, að þrifaböðun á sauðfé hefir verið vanrækt.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta hér, en ég vænti, að eins og d. sýndi frv. okkar velvild á þingi 1936, þá taki hún þessu frv. vel og afgr. það héðan nú.