11.12.1937
Neðri deild: 47. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (522)

13. mál, sauðfjárbaðanir

Sigurður E Hlíðar; Þegar þetta frv. var til 1. umr., fór ég um það nokkrum orðum og sé ég nú, að hv. landbn. hefir tekið til greina meginaths. mína, þar sem ég óskaði eftir, að tekin væri upp heimild til undanþágu frá böðun, þar sem sjúkdómar væru í sauðfé, svo að vogun væri að framkvæma böðun. Ég get þess vegna fellt mig vel við frv., því að ég tel þetta ákvæði mjög mikils virði og bæta úr slæmum ágalla á l. Ég held, að hér sé stefnt í rétta átt og meiri hl. leggi það rétta til, þar sem hann vill, að frv. nái fram að ganga.

Hv. þm. A.-Húnv. gat þess, að minni hl. legði til, að núgildandi l. væru látin standa óhögguð. Mér skildist, að hann legði ekki mikið upp úr þessari útrýmingarböðun, en hér er ekki um það að ræða, því að l. frá 1935, sem fyrirskipa þá böðun, hafa ekki verið látin koma til framkvæmda, því að eins og allir vita, hefir stj. ekki séð sér fært að láta þau koma til framkvæmda vegna pestar í sauðfé. Hér er aðeins um þrifaböðun að ræða, en ekki útrýmingarböðun. Annars er orðið „útrýming“ svo stórt orð, að ég þori ekki að treysta því, að með henni takist að fullu að útrýma fjárkláðanum, en með góðri þrifaböðun á að vera hægt að halda honum í skefjum.

Mér finnst því gæta misskilnings hjá hv. minni hl. landbn., að hann skuli leggjast á móti þessu frv., af því að hann hafi ekki trú á útrýmingarböðun, því að hér er ekki um hana að ræða, heldur að lögskipa þrifaböðun, og með þeirri lagfæringu, sem nú hefir fengizt á frv., tel ég að þar sé farin heppilegasta leiðin til að ná góðum árangri.

Hv. frsm. meiri hl. svaraði fyrirspurn hæstv. fjmrh. um kostnaðarhliðina. Ég sé ekki, að frv. sjálft hafi í för með sér nein fjárútlát fyrir ríkissjóð. Þessar þrifabaðanir eru kostaðar af eigendunum sjálfum, en eftirlitsmennirnir eru launaðir af hreppssjóðum og sýslusjóðum. Kostnaður er því aðeins í sambandi við þessi bráðabirgðaákvæði, sem hv. frsm. gat um, að mundi hlaupa á 4–5 þús. kr.

Ég vil því mæla með því, að frv. nái fram að ganga, því að mér finnst það til bóta á gildandi l.