14.12.1937
Efri deild: 49. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

77. mál, bráðabirgðaverðtollur

*Magnús Jónsson:

Ég vil spyrja hv. iðnn. um, hvort hún hafi athugað, að það sé tryggt, að kassar hækki ekki í verði, ef þetta frv. verður að l. Ég þykist vita, að þótt hér sé fyrirtæki, sem getur unnið úr óunnu efni, þá getur það fyrirtæki á engan hátt keppt við erlendar verksmiðjur í að undirbúa efnið til kassagerðar hér á landi. Það er athugandi, að erlendar verksmiðjur vinna efnið í svo stórum stíl, að hér er ekkert fyrirtæki, sem kemur í hálfkvist við þær, sem undirbúa efni til kassagerðar um allan heim, og gæti verið gott, ef verksmiðjur hér gátu fengið efnið svo og svo mikið undirbúið fyrir líkt verð og óunnið timbur. Þegar slík 1. sem þessi eru sett, verður að atbuga vel, að enginn sé órétti beittur. Hér er margskonar iðnaður, sem það skiptir miklu máli fyrir, hvort kassar fáist ódýrir eða ekki, þar sem verksmiðjurnar nota mjög mikið af kössum til að senda vörur sínar í. En reynslan hefir venjulega orðið sú, að hafi verndartollar verið settir á einhverjar vörur, þá verður það til að hækka verð á innlendri vöru. Enda er ekki langt síðan hæstv. fjmrh. sagði, að allmikið af innlendum iðnaði ynni í skjóli þessara tolla. Þá missir ríkissjóður tolltekjurnar af innfluttum vörum jafnframt verðhækkuninni.

Ég segi þetta ekki af því, að ég sé á móti frv., heldur aðeins af því, að ég vildi spyrja hv. iðnn., hvort hún hefir kynnt sér, að þetta muni ekki leiða til verðhækkunar.