02.12.1937
Neðri deild: 40. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

122. mál, tunnuefni og hampur

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti! Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta frv. Það er í rauninni ekki annað en framlenging á þessari tollundanþágu, sem gilt hefir síðustu 3 ár, til ársloka 1937. Það er farið fram á, að undanþágan verði framlengd til ársloka 1940, og þarf ekki annað en að vísa til raka, sem lágu fyrir þeirri breyt., sem gerð var í því efni fyrir 3 árum síðan. Það þótti sanngirnismál að veita þessa tollundanþágu á tunnuefni og hampi til veiðarfæragerðar. Eins og hv. þdm. er kunnugt, er kominn talsverður vísir að tunnugerð hér á landi, sérstaklega síldartunnugerð, og er það aðallega á tveim stöðum hér á landi, Akureyri og Siglufirði, sem tunnusmíði hefir verið rekin undanfarin ár og gefizt vel að vonum, má segja. Þessi iðn. hefir í rauninni verið rekin sem atvinnubótavinna á þessum stöðum, sérstaklega á Akureyri, þar sem bæjarfélagið sjálft hefir rekið þessa tunnugerð og á verksmiðjuna til þeirra hluta, en á Siglufirði er félagsskapur um þetta. Mér er kunnugt um það í mín eigin heimkynni, hvernig þessi rekstur hefir verið, og það má segja, að tunnusmíðin hafi staðið undir sér sjálf. Það hefir verið séð um, að ekki yrði hagnaður af henni, enda var það ekki meiningin, þar sem þetta er atvinnubótavinna, en það hefir veitt mikla atvinnu og ég veit varla, hvernig bærinn gæti haldið uppi nauðsynlegri atvinnu framvegis, ef hann nyti ekki þessarar tunnusmíði. Það hefir verið reynt að færa þessa tunnusmíði í aukana, og nú á þessum vetri er t. d. gert ráð fyrir að smíða um 60000 tunnur, eða rösklega það, í þessari tunnuverksmiðju okkar.

Mér er kunnugt um, að á Siglufirði er sömuleiðis talsverður hugur í mönnum um að koma upp allverulegri tunnusmiði. Ég geri ráð fyrir, að þar verði smíðaðar nálægt 20000 tunnur, ef allt gengur vel. Það er tekið fram í grg. þessa frv., að tunnuþörfin muni vera nálægt 200000 tunnur, svo að það er ekki mikill hluti af þeirri tunnutölu, sem við getum sjálfir framleitt, eins og sakir standa, en það væri æskilegt, að við gætum aukið hana svo að við gætum orðið sjálfum okkur nógir, þó að við kaupum efni að. En það er samkeppni í þessari iðngrein, því að Norðmenn og einnig fleiri þjóðir framleiða mjög mikið af tunnum og geta selt þær við sæmilega lágu verði, svo að það er örðugt fyrir okkur að geta aðstaðið þetta, ef við hljótum ekki neinar ívilnanir. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að framlengja þessa tollundanþágu, og það er sannfæring mín, að ríkissjóð muni ekki svo um þá upphæð, sem hér er gert ráð fyrir, að það komi þjóðinni sjálfri ekki að meira gagni, að tollundanþágan fengist, svo að þessi iðnrekstur gæti haldið áfram og mætti aukast og dafna. Ég vil taka það fram, að þetta frv. er borið fram með einróma samþykki iðnn. Ég hefi aðeins tekið að mér að mæla nokkur orð fyrir frv. fyrir hönd n. Ég þarf svo ekki að orðlengja um þetta frekar, en iðnn. leggur eindregið til, að frv. nái fram að ganga og veitt verði tollundanþága bæði fyrir tunnuefni og hampi til veiðarfæragerðar.

Ég legg svo til, að málinu verði vísað til 2. umr.