14.12.1937
Efri deild: 49. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (579)

119. mál, tollheimta og tolleftirlit

*Frsm. (Jón Baldvinsson) :

Þetta frv. er, eins og hv. dm. sjá, mikill lagabálkur í 52 gr. og 6 köflum. Málið er um tollheimtu og tolleftirlit, hvernig því skuli haga. Þetta frv. er undirbúið af embættismönnum ríkisstj. og hefir áður legið fyrir þinginu, en þá voru fundnir á því ýmsir agnúar, svo ekki þótti fært að samþ. það með þeim á. Nú hafa þeir verið sniðnir af; m. a. hefir frv. verið sýnt Eimskipafélagi Íslands, sem hefir mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við tolleftirlit o. fl., sem í frv. er, og munu að endingu hafa verið tekin upp ákvæði þau, sem Eimskipafélagið taldi sig geta unað við. En þetta er meiri bálkur en svo, að n. hafi getað sett sig inn í hvert einasta atriði þess, enda þetta mál svo „tekniskt“, að það er þeirra manna, sem vel eru inni í tolleftirliti og tollheimtu, að fjalla um það. Hefir tollstjórinn í Reykjavík, Jón Hermannsson, tjáð mér, að hann hafi lagt mikla vinnu í að gera það samrýmanlegt og sambærilegt við hliðstæða löggjöf erlendis. Í íslenzkri löggjöf eru ekki til svo ýtarleg ákvæði um þetta efni, sem þurfa þykir, og er þeim, sem til eru, öllum komið hér saman í eina heild, og er ætlazt til, að þessi lagabálkur innifeli í sér öll gildandi l. með viðbótum og breytingum, sem taldar eru nauðsynlegar og greiða fyrir tolleftirliti og tollheimtu. Er mikill áhugi meðal þeirra manna, sem við slíkt fást, að þetta frv. fáist í gegn.

Slíkum l. má finna til foráttu, að þeir, sem tollinn eiga að greiða, kunna þeim illa fyrst um sinn, en þau standa til bóta, þegar reynslan sýnir, hverju breyta þarf.

Vera má, að einhver smáatriði frv. hefðu mátt betur fara, en til að gagnrýna frv. þyrfti að þrautlesa það og kynna sér mjög vel, hvað n. hefir ekki unnizt tími til.

Það er því till. n., að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.

Eins og ég sagði áðan er þetta embættismál og ekki eitt þeirra mála, sem flokkarnir beita sér fyrir, svo um það ætti ekki að þurfa að verða neinn ágreiningur. Legg ég því til fyrir hönd n., að frv. nái samþykki hv. Ed. Þar sem það hefir gengið í gegnum umr. í Nd. og aðeins eru eftir 2 umr. í þessari hv. deild til að það verði að l., ætti það að geta gengið greiðlega.