22.11.1937
Neðri deild: 32. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (584)

103. mál, verðlag á vörum

*Flm. (Gísli Guðmundsson):

Þetta frv. er flutt eftir tilmælum ríkisstj. og er að verulegu leyti sama eðlis og frv., sem flutt var í þinginu í fyrra.

Aðalefni frv. er að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir óeðlilega hátt verð eða álagningu á almennum nauðsynjavörum.

Það fyrirkomulag, sem gert er ráð fyrir, að notað verði í þessum tilgangi, er það, að stj. ákveður, hvaða vörur þessi l. skuli taka yfir, en síðan sé starfandi sérstök n., sem ákveði hámarksverð á þeim vörum, sem framkvæmdin tekur til.

Það er gert ráð fyrir, að þessi n. verði þannig skipuð, að í henni eigi sæti fulltrúar frá 5 aðiljum, einn frá Alþýðasambandi Íslands, einn frá Landssambandi iðnaðarmanna, einn frá Sambandi ísl. samvinnufélaga, einn frá Verzlunarráði Íslands og svo sé einn skipaður af ríkisstj., og sé hann formaður n.

Þetta mál er í sjálfu sér einfalt og er nokkur grein fyrir því gerð í forsendum frv. Ég sé því ekki ástæðu til að tala um það langt mál, en legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn