06.12.1937
Neðri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

103. mál, verðlag á vörum

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Í sambandi við þetta frv. er sérstaklega tekið fram í grg., að atvmrh. hafi skipað þriggja manna nefnd til að athuga verðlag á nauðsynjavörum, og virðist starf og rannsóknir þessarar nefndar hafa verið undirbúningur undir og tilefni til þessa frv., sem hér liggur fyrir. N. hefir skilizt, að mikið nauðsynjamál er að reyna að draga úr dýrtiðinni, en hinsvegar er slæmt að þurfa að grípa til þess að setja lagaákvæði um, hvað sé hæfilegt útsöluverð á vörum í landi, þar sem samvinnustefnan er eins öflug og hér, og ég álít nauðsynlegt að taka fram í sambandi við þetta mál, að það sé ekki fram komið til þess að lýsa vantrausti á .kaupfélögunum, eða því, að þau séu ekki fær um að halda vöruverðinu niðri. Ég get hugsað mér, að verðlagsnefnd þessari verði aðallega ætlað að sjá um verð á þeim vörum, sem einokunarhringarnir verzla með, svo sem kolum, salti og olíu. Það eru vörur, sem kaupfélögin og samvinnufélögin hafa ekki ráðið yfir svo miklu magni af, að þau hafi getað skapað rétt verðlag á þeim. Það má segja, að það séu næstum eingöngu þær vörur, sem einokunarhringarnir verzla með, sem ekki hefir tekizt að fá rétt verð á. Ég vil taka það fram um leið og ég greiði atkv. með þessu frv., að ég álít, að þessi n. eigi aðallega að beina valdi sínu gegn því verði, sem hringarnir hafa skapað. Þar sé ég, að rétt er, að ríkisvaldið gripi inn í og setji lög og skipi n. til að halda uppi hagsmunum landsmanna í baráttunni við þessa einokunarhringa, sem reynslan hefir sýnt, að ekki tekst að sigra með samvinnufélagsskap. Ég vil taka þetta sérstaklega fram í sambandi við atkvgr. mína í þessu máli.

Jafnframt vildi ég skjóta því til hæstv. ríkisstj., að hér fer að verða allmikið um þessar verðlagsnefndir, og ég held, að rétt væri að athuga, hvort ekki væri hægt að setja saman í eina n. þessar verðlagsnefndir sem til eru, bæði fyrir mjólk og kjöt. Álít ég rétt, að athugað væri fyrir næsta þing, hvort ekki væri hægt að sameina þetta sem mest í eina n.