08.12.1937
Neðri deild: 44. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

103. mál, verðlag á vörum

*Garðar Þorsteinsson:

Ég ber fram brtt. við 2. gr. á þá leið, að fyrir Landssamband iðnaðarm., sem er einn af þeim aðiljum, sem eiga að skipa verðlagsn., komi Fél. íslenzkra iðnrekenda. Eins og ég gat um við 2. umr., finnst mér ekki nema eðlileg krafa, sem íslenzkur iðnaður á, að fá að hafa mann í þessari verðlagsn. Það er sem sé alveg víst, að þær vörur, sem eru framleiddar hér og taldar íslenzkur iðnaður, eru nú orðnar mjög fjölbreyttar. Og í félagi íslenzkra iðnrekenda eru 44 verksmiðjur. Það er sem sé öllum ljóst, að þær vörur, sem þessar verksmiðjur framleiða, eru þær tegundir, sem falla áreiðanlega nær allar undir 1. gr. frv., „nauðsynjavörur“. Ég get upplýst það, að þessar 44 verksmiðjur munu framleiða t. d. allskonar fatnað, smjörlíki, kaffibæti, veiðarfæri, snyrtivörur, áburð, öl og gosdrykki, og margt og margt fleira.

Nú er það svo, eins og hv. þm. vita, að það hefir þótt brenna við, að þær vörur, sem framleiddar eru hér heima, séu dýrari en samskonar vörur kosta erlendis frá. Það er því alveg víst, að hámarksverð á nauðsynjavörum kemur fyrst og fremst til með að bitna á þessum íslenzka iðnaði. Af því leiðir hinsvegar, að það er sjálfsögð krafa, sem þessir aðiljar hafa til þess að hafa einn mann af 5 í þeirri n., sem ákveður verðlag á þessum vörutegundum. Það nær í sjálfu sér engri átt, að 5 menn séu í n., án þess a. m. k. einn þeirra hafi aðstöðu til þess að fylgjast með kostnaðarverði þessara vara. Í frv. stendur hinsvegar, að það sé Landssamband iðnaðarmanna, sem eigi að tilnefna einn mann. Og mér skilst nú, að það eina, sem eigi að réttlæta það, sé það, að tilnefningin er þannig orðuð í 2. gr., að. Samband íslenzkra samvinnufélaga og Verzlunarráð Íslands tilnefni hvort sinn manninn. Með þessu fyrirkomulagi verða tveir menn í n. fyrir hagsmuni framleiðenda, og hinsvegar eru Alþýðusambandið og Iðnsambandið með fulltrúa fyrir hagsmuni neytenda. Ég játa, að fyrir þessu eru nokkur rök, en þó verður að finna einhverja aðra leið um skipun n., ef 5 menn eiga að vera í henni, heldur en þá, sem farin er í 2. gr. frv. Landssamband iðnaðarmanna er ekki félagsskapur þeirra, sem framleiða iðnaðarvörur, heldur þeirra, sem vinna við iðnaðarframleiðslu, svo sem járnsmiðir, trésmiðir, úrsmiðir, skósmiðir, matsveinar o. fl., og eru þetta neytendur. (SEH: Svo—!). Þeir eru a. m. k. að mjög litlu leyti framleiðendur. Hvaða „interessu“ hafa skósmiðir, úrsmiðir og matsveinar af iðnaðarframleiðslu? Þeir eru ekkert annað en neytendur, eins og við hinir. Það má finna ýmsan félagsskap í landinu, sem meiri ástæða væri að líta á sem fulltrúa iðnframleiðenda heldur en Landssamband iðnaðarmanna, og ég held, að það sé komið þarna inn fyrir misskilning, úr því stj. ætlast til, að það sé sem fulltrúi iðnrekenda.

Brtt. mín finnur ekki náð fyrir augum hæstv. atvmrh. Hann telur með henni komna þrjá fulltrúa í n. fyrir framleiðendur. Ég er að sjálfsögðu ekkert á móti því, ef fundin verður önnur leið en sú, sem bent er á í minni till., til að tryggja jafnvægi í n., en það er óhjákvæmilegt, þar sem eitt aðalhlutverk n. er að ákveða verðlag á iðnaðarvörum, að þá .þarf að vera fulltrúi í n. fyrir iðnaðinn, og til þess tel ég Félag íslenzkra atvinnurekenda bezt fallið.

Út af hinni skrifl. brtt. hæstv. atvmrh. skal ég taka það fram, að það var upphaflega ekki ætlað í frv. að takmarka það við nauðsynjavörur einar, nema aðeins fyrirsögn frv., en allshn. samræmdi fyrirsögn frv. og innihald þess. N. áleit það ekki rétt, að frv. næði nema til nauðsynjavara. Ríkisvaldið á ekki að hafa of óbundnar hendur í þessu efni. Hitt gat komið til mála, að það hefði greiðari aðgang að því að skera úr, hvað væri nauðsynjavara og hvað ekki. Ef verðlagsn. t. d. setti hámarksverð á einhverja vörutegund, en svo kemur kaupmaður og segir; að sú vara sé ekki nauðsynjavara, þá yrði það seinfær leið, ef slíkur ágreiningur þyrfti að fara fyrir dómstóla. Ég fyrir mitt leyti er ekki á móti því, að hér væri farin sú leið, að gefa ráðh. heimild með einföldum úrskurði til að kveða á um það,. hvort varan væri nauðsynjavara eða ekki. Það eru ýms ákvæði hliðstæð þessu í l., t. d. í tollal. er svo fyrir mælt, að ráðh. úrskurði, undir hvaða flokk þær vörur falli, sem ekki eru nefndar í l. Ég get ekki fallizt á hina skrifl. brtt. hæstv. ráðh., heldur gæti ég hugsað mér, að í stað hennar kæmi það úrskurðarvald ráðh., sem ég hefi talað um. Að síðustu vil ég leyfa mér að beina því til hæstv. ráðh., ef hann ekki sér sér fært að fallast á brtt. mína, hvort hann þá ekki getur umorðað 2. gr., svo að þessi aðili, sem svo mjög er um deilt, hvort hafi fulltrúa í n., fái rétt sinn betur tryggðan en frv. nú gerir.