15.12.1937
Efri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

103. mál, verðlag á vörum

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Herra forseti! Þetta mál er komið frá hv. Nd., eins og kunnugt er, en shlj. mál lá fyrir þessari hv. d. á síðasta þingi, sem d. afgreiddi þá, svo d. hefir að því leyti tekið afstöðu til þessa máls. Frv. hefir ekki tekið neinum verulegum breyt. frá því á þinginu í fyrra og var því allshn. alveg sammála um, eins og hún var áður, að mæla með þessu frv.

Um nauðsyn þess, sem hér um ræðir, ætla ég ekki að fjölyrða. Ég hygg, að öllum sé það nokkurn veginn ljóst, að eins og nú háttar til í okkar þjóðfélagi, þá sé fullkomin nauðsyn á því, að til sé heimild um að skipa verðlagsnefnd, sem hafi vald til þess að varna því, að óeðlilegt álag sé á vörum. Um þetta var d., eins ég sagði áðan, sammála á síðasta þingi, og ég hygg, að það sé enginn ágreiningur milli flokka um þetta.

Að öðru leyti finn ég ekki ástæðu til þess að skýra frv., því í raun og veru skýrir það sig sjálft.

Hér liggur fyrir brtt. frá hv. 11. landsk. (ÁJ) um það, að í staðinn fyrir fulltrúann frá Landssambandi iðnaðarmanna komi fulltrúi frá Félagi íslenzkra iðnrekenda. Um þetta atriði vil ég aðeins segja það aftur, að n. getur ekki verið till. samþykk. Það er ekki hægt að neita því, að Landssambandið „repræsenterar“ miklu meiri hluta af þjóðinni heldur en Félag iðnrekenda, og margfalt stærri hópur manna, sem verðlagið snertir, fær möguleika til að hafa áhrif á það, ef þessu er ekki breytt í frv.