27.10.1937
Efri deild: 12. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er ekki ástæða til að halda uppi löngum umr. um þetta mál. Ég get vísað til þess sem ég sagði áðan. En út af því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, vildi ég aðeins draga þá ályktun, sem mér virðist rétt. Og þar sem mál þetta er óbrotið og var borið hér fram á síðasta þingi og hv. þm. virtust þá sammála um það, og einnig bankastjórarnir og hefir hinsvegar þó nokkurn sparnað í för með sér, sem alltaf er mikilsverður kostur á málum, — þá vil ég út af því, sem hv. 1. þm. Reykv. spurði, hvort milliþn. færi að skila till., segja, að það væri náttúrlega hugsanleg leið í þessu máli, að milliþn. tæki þetta atriði bankamálanna fyrst og flytti í frumvarpsformi till. um það. N. ætti ekki að þurfa nema nokkra daga til þess að athuga þetta mál, sem mér skildist hv. 1. þm. Reykv. vera sammála um, að sé bæði einfalt og óbrotið, og gæti strax að því loknu flutt um það frv. Gæti það orðið samkomulagsleið í þessu máli, að milliþn. tæki við málinu og athugaði það svo í sambandi við þær rannsóknir, sem hún hefir gert í bankamálunum, og afgr. svo málið aftur hingað, þannig að það yrði fyrsta frv., sem frá henni kæmi til Alþ., eins og hv. 1. þm. Reykv. var að tala um, að till. n. ættu ekki að koma fram allar í einu lagi. Ég vildi gjarnan heyra álit formanns n., hvort störfum hennar sé ekki það á veg komið, að hún treysti sér til þess að taka frv. til athugunar og afgr. það á stuttum tíma.

Það er vitanlegt, að 3 bankastjórar hafa verið nauðsynlegir fyrst, þegar bankinn var að hefja starfsemi sína og hún var umfangsmeiri og erfiðari heldur en nú, og er því ekki nema eðlilegt, að þeim sé fækkað, enda vel framkvæmanlegt að sögn bankastjóranna sjálfra.