27.10.1937
Efri deild: 12. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (631)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Ég vildi aðeins láta í ljós ánægju mína yfir þeirri sanngirni, sem fram hefir komið í þessu máli af hendi hæstv. forsrh., þar sem hann virðist nú vera sömu skoðunar í þessu máli eins og ég í upphafi málsins, að það bæri að athugast af mþn. og að hún fengi að segja sitt álit um það. Ég segi fyrir mig, að ég hefi ekki átt að venjast meiri sanngirni úr þeirri átt heldur en einmitt nú.

En út af því, sem sagt hefir verið, að allir væru sammála um þetta frv., vil ég taka það fram, að ég hafði strax lýst því yfir, að ég mundi, svo framarlega sem dagskrá mín yrði ekki samþ., koma fram með brtt. við 3. umr., og þá einkum í sparnaðaráttina, en ég get fallizt á það, eins og annað, sem hæstv. forsrh. sagði í sinni seinni ræðu, að málinu verði frestað í bili og það athugað. En ég get ekki séð, að það sé nokkuð hægara fyrir Alþingi sjálft að taka einstaka banka nú og gera breyt. á stjórn þeirra heldur en fyrir n. að koma með till. til breyt. á fyrirkomulagi eins banka. Þá er a. m. k. meiri trygging fyrir sæmilegum undirbúningi málsins.

Ég ætla þá ekki að gera þetta mál frekar að deiluefni.