27.11.1937
Efri deild: 37. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (641)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Eins og ég gat um við 2. umr., þá hefi ég komið fram með 2 brtt., en þær eru hvorki langar né margbrotnar, og þarf því ekki langa forsögu um þetta atriði, enda minntist ég á það við 2. umr.

Fyrri breyt. felur aðeins það í sér, að bankastjóri Búnaðarbankans haldi þeim launum, sem hann hefir, og verði ekki breytt í því. Hin brtt. er sú, að laun gæzlustjóra Búnaðarbankans verði ákveðin. Um fyrri brtt. er það að segja, að eftir því sem skýrt hefir verið frá opinberlega í blöðum, og er víst alveg rétt, þá hefir bankastjóri Búnaðarbankans verið ráðinn með 12 þús. kr. árslaunum án dýrtíðaruppbótar. Brtt. mín er aðeins sú, að hann haldi þessum launum eins og um hefir verið samið og engin breyt. verði þar á, en eftir frv. á ráðh. að ákveða bankastjóranum dýrtíðaruppbót, sem honum þykir rétt. Sá landbrh., sem með þessi mál fer nú, hefir ákveðið launin við ráðningu þess bankastjóra, sem nú er, og kemur því sennilega ekki til mála, að gerð verði breyt. þar á, en svo getur komið annar ráðh., sem ef til vill vill hækka launin. En til þess að hafa launin ákveðin, en ekki hverful hvað dýrtíðaruppbótina snertir, hefi ég komið með þessa brtt., enda er talið, að 12 þús. kr. árslaun séu nægileg, þótt í nokkuð vandasamri stöðu sé, og býst ég því við, að þeir, sem annars telja sig með sparnaði, vilji ekki gefa þarna lausan tauminn fyrir hærri laun.

En um hitt embættið, sem er stofnað með þessum l., vil ég segja, að ekkert er ákveðið um, hvaða laun sá maður skuli hafa, sem því gegnir, heldur aðeins falið ráðh. að ákveða það. Yfirleitt tel ég varhugavert, þegar verið er að stofna slík störf eða embætti, að ákveða ekki launin um leið. Það hefir yfirleitt verið venja að gera slíkt hér á þingi, a. m. k. í flestum tilfellum, og rétt, að það haldist ennþá. Þar sem þetta er ekki mikið starf, virðist nóg að ákveða fyrir það 2000 kr. á ári, en það yrði með dýrtíðaruppbót 3000 kr. Maðurinn þarf ekki að sitja í bankanum nema endrum og eins og hefir þetta með öðrum störfum, og sé ég því ekki annað en að 3000 kr. séu sæmileg laun.