27.11.1937
Efri deild: 37. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í B-deild Alþingistíðinda. (644)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

*Jónas Jónsson:

Ég skal ekki lengja umr. mikið, en þar sem Framsfl. hefir verið mikið við stofnun bankans riðinn, vil ég segja nokkur orð út af launum þar.

Þegar Búnaðarbankinn var stofnaður, var meira góðæri en nú er og menn bjartsýnni um fjárhaginn. Voru því stofnlaunin ákveðin eins og við hina bankana, en dýrtíðaruppbót óákveðin. Þegar Páll Eggert Ólason var banka

stjóri þar, gerði aðalblað Sjálfstfl. veður út af því, hversu launin væru há, og að ákveða ætti fyllstu dýrtíðaruppbót, þannig að bankastjóralaunin yrðu eins og í Landsbankanum. En sannleikurinn var sá, að dýrtíðaruppbót var ákveðin minni en í Landsbankanum, og urðu laun aðalbankastjóra tæp 20 þús. kr. Þetta hélzt svo þangað til núv. forsrh. veitti Hilmari Stefánssyni embættið. Það var þá veitt án dýrtíðaruppbótar og var fyrsta embættið, sem veitt var á þann hátt. Sú ráðdeild, sem ég veit, að er hv. flm. brtt. kær, kom þar greinilega fram, þó að um flokksmann væri að ræða. Ég álít, að bæði hjá hæstv. ráðh. og þeim manni, sem fékk bankastjóraembættið, hafi þarna komið fram lofsverður skilningur á því, að launin væru of há.

Bankinn er ekki mjög stór, og ég veit, að það er engum kunnugra en hv. flm. brtt., sem er mesti ráðdeildarmaður, að bændur eru yfirleitt óánægðir með hin óþarflega háu laun, og ekki heldur sjá þeir ástæðu til að hafa 3 bankastjóra, enda hygg ég, að þessi breyt. muni mælast vel fyrir og þykja sjálfsögð.

Um það, hvort eigi að fella niður dýrtíðaruppbótina með l., vil ég geta þess, að ég þykist viss um, að a. m. k. sá ráðh., sem felldi hana niður í verki, muni ekki taka hana upp aftur, og ég býst ekki við, að ráðh., sem á eftir kæmi, mundi gera það. Ég tel þetta tákn þess, að hinn litli banki verði ráðdeildarsamur í æðstu stjórn sinni.