18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

1. mál, fjárlög 1938

*Pétur Ottesen:

Ég á hér eina brtt. á þskj. 437, þar sem lagt er til, að ríkisstj. sé heimilað að ganga í ábyrgð fyrir Ytri-Akraneshrepp fyrir allt að 240 þús. kr. láni til vatnsveitu á Akranesi, en þó fari ábyrgðin aldrei yfir 80% af stofnkostnaði vatnsveitunnar. Ég sé, að í þeim ábyrgðarheimildum, sem samþ. hafa verið á þessu þingi, hefir sú regla verið tekin upp, að ábyrgð fari ekki fram úr þessu marki, 80% af stofnkostnaði, og hefi ég talið sjálfsagt að fylgja því fordæmi.

Það hagar svo til á Akranesi, þar sem nú búa yfir 1700 manns, að þar verða menn að búa við þau vatnsból ein, sem eru brunnar, grafnir víðsvegar á landi kaupstaðarins innan um húsin. Það hefir komið í ljós, að þessi vatnsból eru síður en svo góð, þannig að rannsóknir, sem hafa farið fram á vatninu á sumum þessum stöðum, sýna, að það er tæplega nothæft sem neyzluvatn, og getur stafað af þessu allmikil hætta frá heilsufarslegu sjónarmiði fyrir kauptúnið. Þess vegna er ákaflega aðkallandi mál fyrir Akurnesinga, að bót verði á þessu ráðin, þannig að vatn verði leitt til kauptúnsins frá fjarliggjandi stöðum. En aðstaðan er sú, að það verður að sækja vatn um alllangan veg og því er kostnaðurinn svo mikill. Það er hvorttveggja, að íbúar Akraness hafa staðið í miklum stórræðum um framkvæmdir undanfarið, þar sem er hafnargerðin, og auk þess hafa kauptúnsbúar haft með höndum allfjárfreka framkvæmd í ræktunarmálum á landi, sem kauptúnið eignaðist, þegar það keypti Garða. Þetta allt tekur svo mikið fé, að það er ekki kleift fyrir Akurnesinga, án þess að njóta nokkurs stuðnings, að ráðast í þetta stórfellda fyrirtæki. Þess vegna fer ég þess á leit við Alþingi, að það rétti kauptúninu hjálparhönd, til þess að koma þessu fyrirtæki í framkvæmd.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta. Ég veit, að það sjá allir og viðurkenna nauðsynina á þessu, og það, sem hér er um að ræða, er að vega og meta, hvort hægt sé að láta þessa ábyrgð í té.

Ég á hér aðra brtt., sem er brtt. við till. samgmn. um skiptingu á því fé, sem veitt er til flóabáta. Ég flyt till. um að hækka styrkinn til Akranesbátsins um 500 kr., eða upp í 2000 kr. Þessi styrkur hefir frá öndverðu verið bundinn því skilyrði, að það tækjust samningar um flutning á mjólk þarna ofan að, svo að þessi styrkur hefir orðið að mestu leyti til þess að lækka flutningskostnaðinn á mjólkinni hingað suður. En þeir, sem hafa flutt mjólk þarna ofan að hingað til Reykjavíkur, hafa orðið að borga allt að því 5 aura á hvern lítra í flutningskostnað. Hækkun á styrknum mundi draga lítilsháttar úr þessum flutningskostnaði, því mér er kunnugt um það, að þetta mundi fyrst og fremst verða til hagsbóta fyrir þessa flutninga.

Nú liggja fyrir þessu þingi breyt. á afurðasölulögunum, að því er snertir mjólkursöluna, sem ganga í þá átt, að jafnað verði, meir en nú er, mjólkurverðinu á milli þeirra, sem aðstöðu hafa til þess, að koma nýmjólk á Reykjavíkurmarkaðinn og hinna, sem fjær búa. Þetta verður vitanlega til þess að lækka nokkuð mjólkurverðið hjá þeim, sem flytja hingað mjólk daglega á sumrin, en 3–4 sinnum á viku á veturna. Þess vegna kæmi það ákaflega vel á fyrir þá, að samtímis því, að þessi ráðstöfun yrði gerð, yrði styrkurinn hækkaður, því það mundi verða þeim til dálítils léttis hvað flutningskostnaðinn snertir.

Ég vil svo fela þessar till. velviljaðri meðferð Alþingis og lýk þar með mínu máli.