08.12.1937
Neðri deild: 44. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (685)

100. mál, þurrmjólk í brauð o. fl.

*Pétur Ottesen:

Það er rétt hjá hv. frsm., að ég var ekki á fundi, þegar málið var afgr. og vil því lýsa afstöðu minni til þess. Ég er efni frv. alveg sammála og þeirri viðleitni, sem bak við það liggur, — að reyna að finna leiðir til þess að koma þeirri miklu næringu, sem í mjólkinni er geymd, til fólksins, sem þarf hennar með.

En mér finnst, að hægt hefði verið að taka helztu ákvæði þessa frv. upp í mjólkurlögin. Þetta er einn liðurinn í hagnýting mjólkur. En kannske má einu gilda, hver leiðin farin er. Ég mun styðja að því, að þetta frv. verði að lögum.