18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

1. mál, fjárlög 1938

*Ásgeir Ásgeirsson:

Af því að ég tala næst á eftir hv. þm. A.-Húnv., vildi ég aðeins leiðrétta það, sem hann og ýmsir halda, að Halldór K. Laxness hafi stórtekjur af þýðingum af bókum sínum erlendis frá. Mér er kunnugt um, að svo er ekki, enda er það erfitt að ryðja sér til rúms á erlendum bókamarkaði, og tekjur af fyrstu þýðingu eru venjulega litlar. Nú mun ekki hafa komið nema ein útgáfa af hverri þeirra bóka Kiljans, sem hafa verið þýddar erlendis, og af fyrstu útgáfu er litið að hafa. Ég nefni þetta til þess að taka það fram, að H. K. L. hefir ekki stórtekjur af ritstörfum, en það er eina frambærilega ástæðan fyrir því að lækka við hann skáldalaunin.

Ég hefi stillt mig um að bera fram ýmsar till., sem ég hefi þó haft hug á að flytja, en eina till. flyt ég, mjög smáa till., um það, að veita Guðmundi Eiríkssyni á Þorfinnstöðum 300 kr. á ári. Ég tek aðeins til máls til þess að vekja athygli á því, að hér er ekki um neitt hættulegt fordæmi að ræða, þó að þessi smáa upphæð verði veitt þessum manni.

Guðmundur lét af hreppstjórn á síðastl. sumri og hafði þá verið hreppstjóri í 50 ár. Og eins og öllum hv. þm. er kunnugt, er það mikið starf, sem búið er að vinna launalítið eða launalaust, þegar menn á níræðisaldri láta loks af hreppstjórn eða öðrum slíkum sveitarstörfum, sem útheimta mikinn tíma, en lítið sem ekkert er borgað fyrir. Guðmundur er nú 82 ára gamall, svo að það verður sennilega ekki lengi, sem þyrfti að greiða honum styrk, en hann mundi muna mikið um að fá þessa litlu fjárhæð.

Ég vek aðeins athygli á því, að hér er ekki um neitt hættulegt fordæmi að ræða, og ég vænti þess, að þessari smáu upphæð verði sleppt í gegn handa þessum ágæta gamla manni.