15.12.1937
Efri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (697)

100. mál, þurrmjólk í brauð o. fl.

Guðrún Lárusdóttir:

Herra forseti! Það er aðeins lítil fyrirspurn til hv. frsm. þessa máls um það, hvað hægt sé að gera ráð fyrir, að brauðin hækki í verði við slík fyrirmæli sem þessi. Mér finnst, að það. sé spurning, sem þarf að taka til athugunar jafnframt og það er ákveðið að lögfesta þetta. Um leið og ákveðið er að lögfesta þetta, þá sýnist mér, að afleiðingin hljóti að verða sú, að brauðin komi til að hækka í verði. En ég álít að almenningur megi ekki við því, að gerð sé nein tilraun til þess að hækka þessa vöru, sem hér um ræðir, enda þótt hún kunni að verða eitthvað betri við blöndunina.

Ég vil taka undir það, sem hv. 9. landsk. sagði áðan. Eins og frv. nú liggur fyrir, þá lítur í raun og veru út fyrir, að það eigi að blanda mjólk í allt brauð, sem framleitt er í brauðgerðarhúsum, og spurningin verður þá, hvað við, sem lifum svo mikið á brauði, eigum að gefa fyrir þennan viðbæti.