16.12.1937
Efri deild: 51. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

100. mál, þurrmjólk í brauð o. fl.

*Jón Baldvinsson:

Ég boðaði þessa brtt., sem nú liggur fyrir á þskj. 375, við 2. umr. og ræddi þá um efni hennar, en það er að gera nokkra takmörkun á ákvæðum 2. gr. frv. Þar stendur, að landbúnaðarráðh. sé heimilt að ákveða með reglugerð, að allt brauð, sem selt er í brauðgerðarhúsum, sé skylt að blanda þurrmjólk. Þetta vil ég orða svo, að í staðinn fyrir orðin, „allt brauð, sem selt er í brauðgerðarhúsum“ komi: „ákveðnar brauðtegundir, sem seldar eru í brauðgerðarhúsum“. Tilgangurinn með þessari brtt. er sá, að hindra, að of langt verði gengið í þessu efni, svo að síður sé hætta á, að komi til óþægilegrar verðhækkunar t. d. á smábrauði.

Mér skilst, að ætlun flm. sé fyrst og fremst sú, að þurrmjólkinni verði blandað í svokallað matbrauð, allt algengt hveitibrauð og rúgbrauð. Ef þetta er rétt skilið, verða ákvæði frv. greinilegri, ef brtt. mín verður samþ. Eins og nú er, er óþarflega sterkt til orða tekið í frv. Ég skoða till. mína því sem orðabreyt., en ekki efnisbreyt., og vænti því, að hún verði samþ.