16.12.1937
Efri deild: 51. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (705)

100. mál, þurrmjólk í brauð o. fl.

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Mér þykir vænt um að heyra, að hv. flm. felst á þann skilning minn á brtt., að ráðh. væri heimilt að fyrirskipa blöndun þurrmjólkur í allt brauð, með því að telja upp allar tegundir brauða. Ég er með brtt. vegna þess, að ég álít heilbrigt, að slík framkvæmd komi ekki öll í einu, heldur smátt og smátt, svo að nokkur reynsla hafi fengizt áður en framkvæmdir í stórum stíl eru hafnar á því, hvort brauðin verða betri eða ekkí, og hvort þessar aðgerðir verða til þess, að verðið hækki að mun. Ég þarf því ekki að fara fleiri orðum um brtt. En það kom annað atriði fram í ræðu hv. flm., sem ég sé ástæðu til að leiðrétta, þar sem sami misskilningurinn hefir komið fram opinberlega víðar. Ég á hér við smjörframleiðsluna og tilraunir þær, sem nú upp á síðkastið hafa verið gerðar til árásar á mjólkurskipulagið í sambandi við hana. Ég skal þá upplýsa það, sem menn virðast ekki vita, að smjörframleiðslan stendur utan við sjálft mjólkurskipulagið. Framleiðsla og sala smjörs er algerlega frjáls, nema hvað verðið er ákveðið. Og það hafa engin mistök orðið í smjörframleiðslunni. Sagt hefir verið að undarlegt sé, að ostar hafi verið framleiddir í stórum stíl, síðan fyrirsjáanlegt var, að smjörskortur yrði. Sannleikurinn er sá, að það hefir ekki verið framleitt eitt kíló af feitum ostum í mjólkurbúunum síðan í ágúst, er það sást, hve óskaplegir óþurrkar ætluðu að steðja að. Þá var einnig hætt við þá blöndun smjörs í smjörlíki, sem framkvæmd hefir verið að undanförnu. Þetta eru nú öll „mistökin“, sem orðið hafa, og er fjarstæða að ætla sér að kenna skipulaginu um það. Það er vitanlegt, að undanfarna mánuði hefir ekki verið framleitt meira smjör en sem svarar 1 kg. á móti hverjum 15 kg. áður, og þó hefir öll nýmjólkin verið notuð til þess, en bændur hafa víða orðið að skera niður mjólkurkýr sínar vegna óþurrkanna. Það er því álíka skynsamlegt að kalla þetta mistök og kenna mjólkurskipulaginu um, eins og að kenna sjómönnum um, að illa fiskaðist árið sem leið. Ummæli hv. 9. landsk. gáfu mér tilefni til að koma fram með þessar leiðréttingar hér, — en næstu daga mun ég birta skýrslu um þetta mál í dagblöðunum.