18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

1. mál, fjárlög 1938

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Viðvíkjandi brtt. á þskj. 428, frá hv. 4. þm. Reykv., við 16. gr., vil ég minna á þingsályktun, sem samþ. var á haustþinginu 1933 og er svo hljóðandi:

„Alþingi ákveður að leggja til sundhallarbyggingar Reykjavíkurbæjar 100000 kr. á árinu 1934, enda verði verkinu haldið áfram með hæfilegum hraða og því lokið svo fljótt, sem unnt er. Ennfremur ákveður Alþingi að leggja til viðbótar það, sem á vantar, til þess að framlag ríkissjóðs samsvari 2/5 alls kostnaðarins, eigi síðar en tveim árum eftir að verkinu er lokið. Að öðru leyti haldast skilyrði þau frá landsins hálfu, sem sett eru í lögum um sundhöll í Reykjavík, nr. 32 7. maí 1928“.

Í tilefni af þessari þál. frá 1933 og bréfaviðskiptum, sem fram hafa farið milli ráðuneytisins og borgarstjóraskrifstofunnar í Reykjavík, get ég lýst því yfir, að ríkisstj. telur sig bundna til að greiða 2/5 hluta af stofnkostnaði sundhallarinnar fyrir tilskilinn tíma í þessari þingsályktunartillögu, ef skilyrði laganna frá 1928 verða haldin.

Eftir að þessar upplýsingar eru komnar fram, vænti ég þess, að hv. 4. þm. Reykv. taki till. sína aftur. Ástæðan er sú, að þó að ríkisstj. sé ljóst, að þessi skylda hvílir á henni, vildi hún geta valið gjalddaga fjárins sjálf innan þeirra tveggja ára, sem tilskilin eru. Því vildi ég síður hafa greiðsluna bundna á fjárlögum nú.