18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

1. mál, fjárlög 1938

*Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Mér hefir farið sem mörgum öðrum, að verða að flytja ýmsar brtt. við frv. það, sem hér liggur fyrir, og skal ég í stuttu máli lýsa ástæðunni. Ég vil fyrst minnast á það, að samkv. tilmælum hafnarnefndar Vestmannaeyja flyt ég till. til þál. um það, að fá viðbótarframlag til dýpkunar á Vestmannaeyjahöfn, og var það miðað við þær framkvæmdir, sem unnar voru á síðastl. sumri, og þær framkvæmdir, sem vinna þarf á næstk. sumri. Ég vil geta þess í þessu sambandi, að á þinginu 1935 fórum við fram á samskonar styrk til dýpkunar hafnarinnar og til að byggja stórskipabryggju, og var hann áætlaður með tilliti til þess, er þurfti að vinna árið 1936, um 120 þús. kr. Alþ. og ríkisstj. sáu sér ekki fært að veita þennan styrk öðruvísi en svo, að hann kæmi til útborgunar á 4 næstu árum, þ. e. til ársins 1939, 30000 kr. á ári. En okkur tókst með aðstoð banka, Brunabótafélags Íslands og Bátaábyrgðarfélags Vestmannaeyja að fá lánað hjá þessum aðiljum það fé, sem nauðsynlegt var til viðbótar við framlag ríkisins árið 1936, svo að hægt væri að vinna samkv. áætlun það ár. Svo var nauðsynlegt að vinna áfram sumarið sem leið, og eins og ég hefi áður sagt, er verkinu ekki lokið, heldur má ætla, að ef tekst að halda í horfinu þessari dýpkunarvinnu á næsta sumri, þá mundi höfnin verða orðin ekki aðeins hættulaus fyrir vélbátaflotann, heldur líka aðgengileg fyrir 15–16 tonna flutningaskip, og þegar það tekst, er viðhorfið orðið ákaflega mikið breytt til batnaðar frá því, sem áður var. Ég held, að ég hafi getið þess, þegar ég flutti þáltill., að smíði stórskipabryggjunnar hafi tekizt prýðilega vel. Það fer ákaflega vel um skipin, þegar þau eru lögzt við hana. Eins hefir dýpkunin gengið ákaflega vel. Dýpkunarskipið hefir reynzt þing. Þetta er ákaflega mikið verk, það hefir tekið langan tíma, gengið hægt og seint, en síðan Íslendingar sjálfir fengu yfirstjórn verksins í sínar hendur, starfsmenn vitamálaskrifstofunnar og sérstaklega Finnbogi Rútur Þorvaldsson verkfræðingur, hefir ekkert mistekizt af því, sem ráðizt hefir verið í, heldur hefir verkinu miðað jafnt og þétt áfram, og svo er enn. Ég hafði að vísu farið fram á það við hv. fjvn., að hún veitti beinlinis aukafjárveitingu til þess að tryggja, að unnið verði næsta sumar. Hv. n. hefir að miklu leyti orðið við tilmælum okkar Vestmannaeyinga, en þó á nokkuð annan veg en ég fór fram á, sem sé með því að fjölga þeim 30000 kr. tillögum, sem áttu að borgast á 4 árum, og bæta við 5. árinu. Þó að þetta sé ekki heppilegasta lausnin á málinu, þá skil ég ástæður hv. n., sem sé að hún getur ekki beinlínis tekið þetta upp sem hækkun á fjárl., heldur hefir hún það í þessu formi, en ég er þakklátur hv. n. fyrir það, sem hún hefir gert, og ég vona, að það verði til þess, að þessu mjög svo nauðsynlega verki, dýpkun Vestmannaeyjahafnar, verði haldið áfram á næsta sumri á sama hátt og áður, þannig að við getum aflað okkur fjár út á þann ríkisstyrk, sem veittur er með þessum lið, á sama hátt og við gerðum 1936. Vestmannaeyjar eru allt með höfninni. Þar er blómlegt í venjulegu árferði, en án hafnarinnar er búskapurinn lítilfjörlegur, og miðað við þann fjölda skipa, sem þaðan ganga, er svo að segja ómögulegt að komast af án góðrar hafnar, en hana á bærinn fyrir þrautseigju íbúa Vestmannaeyja og góðan tilstyrk stjórnarvaldanna og Alþ. síðan 1931, en þá var fyrst flutt frv. til hafnarl. fyrir Vestmannaeyjar. Nú geta öll smærri skip siglt inn höfnina, lagzt upp að stórskipabryggjunni og fengið sig þar afgr., í stað þess að áður urðu menn að afgreiða jafnvel minnstu skip fyrir opnu hafi, annaðhvort á ytri höfninni eða á Eiðinu.

Ég sé, að hv. n. hefir lækkað framlagið til ræktunarvegar í Vestmannaeyjum eftir sömu hundraðstölu og hún hefir lækkað framlög til annara vega síðan 2. umr. fjárl. fór fram, og tjáir eftir atvikum ekki um það að sakast, þó að ég hefði kosið, að þessi styrkur hefði verið nokkru meiri en hann er.

Ég hafði sent hv. n. þó nokkur fleiri erindi, sem ég hefi ekki fengið svar við, en það er í tilefni af því, að ég hefi séð mig tilneyddan að bera fram nokkrar brtt. Skal ég fyrst minna á brtt. á þskj. 428, XVII, um launauppbót til fiskiyfirmatsmannsins í Vestmannaeyjum, að upphæð 1000 kr. og til vara 800 kr. Þessi maður, sem heitir Jón Sverrisson, hefir starfað þar alllangt árabil, síðan 1922, og ávallt unnið fyrir lægri laun en aðrir fiskimatsmenn. Ástæðan fyrir því er sú, að í upphafi voru laun hans ákveðin 700 kr. lægri en annara fiskimatsmanna, því að mönnum taldist svo til, að fiskimatsmaður á slíkum stað hefði ekki eins mikið að starfa eins og þeir, sem hafa stærri umdæmi. Þá til að byrja með hafði þessi maður 1800 kr., en síðan hefir aðstaðan breytzt mjög mikið. Þegar hann tók við sinu starfi, fór matið fram hjá nokkrum kaupfélögum eða stórverzlunum. Það var samtals á 8 stöðum í Vestmannaeyjum, sem þá þurfti að hafa eftirlit með undirmatsmönnum. En þegar fisksölusamlagið var stofnað, hættu menn að leggja fiskinn inn hjá kaupmönnum eða kaupfélögum, og er nú metið hjá hverjum einstökum útvegsbónda fyrir sig. þannig að nú verður fiskiyfirmatsmaðurinn að hafa eftirlit með mati, ekki á 8 stöðum, heldur á rúmlega 100 stöðum. Þetta sýnir bezt, hvað starf hans hefir aukizt, því að það vita allir, sem nokkuð þekkja til þessara mála, að störf fiskimatsmannsins eru ekki mest vegna þess, hvort miklu eða litlu er afskipað frá einum stað, heldur hvað staðirnir eru margir, því að það þarf sama eftirlit og svo að segja sömu handtök við matið hjá einum smáfiskeiganda eins og hjá hinum stóra. Svo er annað, sem hefir komið til greina eftir að laun yfirfiskimatsmannsins voru ákveðin, og það er útflutningur á ísuðum fiski. Hann var í fyrstunni eftirlitslaus af hálfu yfirmatsmannsins, en nú hefir því verið breytt þannig, að hann á líka að hafa eftirlit með sendingu á ísuðum fiski, og ég held, að ég hafi heyrt, að búið sé að flytja frá Vestmannaeyjum 14000 kassa af ísuðum fiski. Það gefur dálitla hugmynd um hið aukna starf yfirfiskimatsmannsins. Nú er þess að gæta, að það er ekki svo að skilja, að ísfisksendingarnar séu stórar og gangi fljótt fyrir sig, heldur eru sendingarnar litlar, nokkur hundruð kassar með svo að segja hverju einasta skipi, sem fer til útlanda. Allar þessar sendingar þarf að „kontrollera“, undirskrifa farmskírteini og því um líkt. En það er samt ekki enn upp talin sú aukning, sem orðið hefir á verkahring yfirfiskimatsmannsins í Vestmannaeyjum, því að síðan viðskipti hófust við Suður-Ameríku og farið var að senda fisk þangað í kössum eða sérstökum umbúðum, hefir starf hans aukizt stórkostlega. Þegar 500–600 kassar eru sendir, fara 10—12 sett af hleðsluskírteinum, vegna þess að hver móttakandi tekur svo lítið í einu. Allt þetta eykur mjög mikið starf þessa manns, og það er engin sanngirni, að hann hafi lengur verri laun en hinir fiskimatsmennirnir. Ég veit, að hann hefir skrifað atvinnumálaráðuneytinu um þetta, og eins hefir yfirmatsstjóri landsins, Sveinn Árnason, sent ráðuneytinu umsögn sína, og þar ber að sama brunni; hann telur, að fiskiyfirmatsmaðurinn í Vestmannaeyjum hafi svo mikil störf, að þau séu sízt minni en hjá öðrum fiskimatsmönnum. Hæstv. atvmrh. hefir kynnt sér þetta mál og hefir persónulega látið í ljós við mig þá skoðun sína, að laun þessa manns ættu að vera jöfn launum annara fiskimatsmanna, og mér er kunnugt um, að hæstv. atvmrh. hefir einmitt talað um þetta við hv. form. fjvn. Ég verð því að vona, að það verði tekið tillit til þessa af hv. n., vegna þess að hér er um að ræða starfsmann í þjónustu ríkisins, sem árum saman hefir setið við lægri kjör heldur en aðrir, og þó að full þörf hefði verið á því, að honum væri bætt upp fyrir þau 3 ár, sem vitað er, að hann hefir verið settur hjá, ef svo mætti segja, og það fór ég fram á við 2. umr. fjárl., en tók þá till. aftur, þá hefi ég í þetta sinn ekki farið fram á, að honum væri bætt upp meira en sem svarar þeirri viðbót, sem snertir laun hans árið 1938, að viðbættri áætlaðri dýrtíðaruppbót. Ég fer fram á, að uppbótin á launum hans, sem nú eru 3300 kr., verði ákveðin 1000 kr., á árinu 1938, og ef Alþ. getur ekki fellt sig við það, þá a. m. k. 800 kr. Með þessu hefi ég gert það, sem í mínu valdi stendur, til þess að leiðrétta það misrétti, sem hér er um að ræða, og ég ætla ekki að kenna neinum sérstökum manni um, en það er viðburðarásin, sem hefir gert það að verkum, að þessi maður hefir verið beittur misrétti. Nú liggur það í valdi Alþ. að leiðrétta það, og þar sem hæstv. atvmrh. hefir beinlínis samþ. þetta og lofað stuðningi sínum til þess, þá treysti ég því, að allir hv. þm. muni líka fylgja þessu máli.

Þá á ég brtt. á sama þskj. undir XIX, um að veita upp í kostnað við tilraunir til þess að afla neyzluvatns fyrir Vestmannaeyjar 6000 kr. og 5000 kr. til vara. Ég skal geta þess, að undir IX á þessu sama þskj. er till. frá kommúnistunum 3 um hærri upphæð til Vestmannaeyja í þessu skyni, og ég skal líka játa, að 6000 kr. er ekki nægileg upphæð til þessara rannsókna. svo að ég mundi sízt hafa á móti því, að sú till., sem flutt er af hv. 5. landsk. og félögum hans og kemur til atkvæða á undan minni till., yrði samþ., en ég vogaði ekki að fara fram á hærri upphæð en 6000 kr., eða jafnvel 5000 kr. á þessu stigi málsins. Mér er ljóst, að tilraunir til að afla neyzluvatns geta tekið nokkurn tíma, og það þarf mikinn undirbúning og rannsókn til þess að það fari vel úr hendi. Það mætti segja, að mín till. væri nokkurskonar varatill. við till. þeirra þremenninganna, sem ég vissi ekki um, þegar ég sendi þessa till., en með því að mér var falið af bæjarstj. Vestmannaeyja að gera þetta, þá taldi ég rétt að láta það ekki falla niður við umr. um fjárl.

Þá hefi ég á sama þskj. undir XXXV farið fram á, að hæstv. ríkisstj. heimili að endurgreiða hafnarsjóði Vestmannaeyja aðflutningsgjald af járni til hafnarmannvirkjanna. Eins og nærri má geta, er erfitt að vinna að hafnarmannvirkjum á þann hátt að verða að taka fé að láni út á ríkisstyrk jafnvel mörgum árum fyrir fram. Árið 1936 var keypt mikið af járni til þess að hafa í járnvegg, en það eru sverir járnbjálkar, sem reknir eru niður með þar til gerðum tækjum, eins og öflugur vörður utan um uppfyllingu stórskipabryggjunnar. Þetta járn kostaði um 80000 kr., og tollurinn af því til ríkissjóðs er sú upphæð, sem hér er nefnd. Með tilliti til þess, hvað allt þetta verk er kostnaðarsamt, og ekki sízt með tilliti til þess, hvað há vörugjöld verður að leggja á okkur Vestmannaeyinga og hafnargjöld af bátum okkar, til þess að standa undir hafnarmannvirkjunum, þá væri mjög sanngjarnt, að ríkið gengi ekki í fyllsta mæli eftir slíkum gjöldum eins og aðflutningsgjaldi af þessu járnl. Vörugjald af þeim vörum, sem fluttar eru um höfnina og renna í hafnarsjóð Vestmannaeyja, eru hærri en nokkursstaðar á landinu. Eins er um legugjöld fyrir vélbáta okkar, sem eru miklu hærri en nokkursstaðar annarsstaðar hér á landi. Það er ekki skemmtilegt að verða að segja þetta, en það er nú einu sinni svo, að hafnarmannvirkið er að sjálfsögðu ákaflega dýrt, en á hinn bóginn í fyllsta máta nauðsynlegt, og það er það, sem réttlætir þessi háu gjöld, sem við Vestmannaeyingar leggjum á okkar atvinnurekstur til þess að reyna að fleyta áfram hafnarmannvirkjunum í heild sinni. Þessi till., sem ég minntist á siðast, er við 22. gr. fjárl., um heimild handa hæstv. ríkisstj. í þessu efni, sem mér er mjög kærkomið, að Alþ. vilji samþ.

Þá höfum við hv. 5. landsk. og ég flutt saman till. vegna Bjarna Guðjónssonar myndskera, sem búsettur er í Vestmannaeyjum, en ættaður úr Skaftafellssýslu. Þessi ungi maður er búinn að vera nokkur ár í Eyjum og þykir frábær listamaður í myndskurði. Hann hefir leitað til Alþ., og við hv. 5. landsk. höfum komið erindi hans á framfæri, sem gekk í þá átt, að hann fengi nokkurn fjárstyrk til þess að fara utan og fullkomna sig í myndskurði. Ég held, að hv. fjvn.menn hafi haft tækifæri til þess að sannfæra sig um, að þessi maður er frábærilega listfengur, af verkum hans, sem hann kom með á öndverðu þessu þingi. Þessi Skaftfellingur virðist hafa einstaka hæfileika í myndskurði og er að öðru leyti myndarlegur og reglusamur maður, og ég efast ekki um, að ef hann ætti kost á að afla sér fullkominnar menntunar í sinni grein, sem hann virðist hafa mjög mikla náttúrugáfu til, þá gæti hann orðið mjög framarlega í þessari list. Við höfum farið fram á, að hann fengi 1800 kr., og til vara 1500 kr. Minna þýðir varla að nefna, ef það ætti að verða honum að nokkru gagni.

Ég held, að ég hafi þá minnzt á þær brtt., sem ég er við riðinn.

Það gladdi mig að sjá brtt. frá hv. 5. landsk. á þskj. 428, um lítilsháttar styrkveitingu til leikfélags Vestmannaeyja. Það hefir starfað af og til mörg undanfarin ár, en ég hefi samt ekki talið, sérstaklega vegna húsnæðisins, að það væri hægt beinlinis að telja það svo fullkomið, að það ætti styrk skilið, þó að ég efist um, að sum félög annarsstaðar á landinu hafi öllu betri kröftum á að skipa heldur en leikfélagið hafði a. m. k. um skeið. En ég varð fyrir vonbrigðum, þegar ég heyrði hv, þm. tala fyrir sinni till. og leiðrétti, að hann ætti ekki við Leikfélag Vestmannaeyja, heldur nýtt leikfélag, sem kallað er Leikfélag Vestmannaeyinga og hefir ekki þeim beztu leikkröftum á að skipa, sem til eru á staðnum.

Í sambandi við ræðu hv. 5. landsk. verð ég að segja það, að ég er honum ekki samþ. í því, að þegar útvegsmenn gáfu skýrslu um afkomu báta, hafi nokkuð verið seilzt til þess að velja báta, sem höfðu slæma rekstrarafkomu. Annars hefi ég ekki lagt þetta á vogarskálar, en svo mikið get ég sagt, að það er áreiðanlega fjöldi báta, sem hefir haft miklu verri afkomu en þeir bátar, sem ég hefi skýrslu yfir frá Vestmannaeyjum. Annað mál er það, að um meðaltalsútkomu alls útvegsins var ekki frekar að ræða en annarsstaðar; til þess þurfti lengri tíma en n. útvegsmannanna hafði til umráða. En ég held, að þessi orð, sem gætu orðið útvegsmönnum í Vestmannaeyjum til tjóns, ef einhver tæki mark á þeim, hafi frekar verið töluð af vangá en að hv. þm. hafi viljað með þeim vinna sveitungum sinum tjón.

Annars vita allir menn, og þarf enga skýrslusöfnun eða meðaltalsreikninga um allt land til að sýna fram á það, að útgerðarmenn hafa stórkostlega tapað og standa höllum fæti. Fyrst og fremst vita það allir, sem við þennan atvinnuveg eru riðnir, og ennfremur hefir stj. orðið vör við, að útvegurinn hefir þurft stuðnings við, sérstaklega nú á þessum tímum, og stendur mjög höllum fæti.

Ég get svo látið útrætt um þetta mál. Ég skal ekki fara að gera að umtalsefni margar aðrar till., en ég vil taka undir það, sem ýmsir hv. þm. hafa hér sagt, að þótt ég vilji ekki fara í mannjöfnuð um skáld og listamenn, þá virðist mér skáldið á Sandi sett hér á nokkuð lægri bekk hjá Alþingi heldur en slíkur maður á skilið. Ég vil taka undir þær raddir, sem fylgdu þeirri till., sem hér kom fram um að hækka dálítið styrkinn til Guðmundar skálds Friðjónssonar á Sandi. Þær bókmenntir, sem hann hefir lagt til íslenzks þjóðlífs, eru svo merkilegar og hollar að öllu leyti, að ég tel, að hann sé miklu hærra styrks verður en Alþingi hefir hingað til látið af hendi rakna til hans.

Þá er það aðeins ein brtt. hv. fjvn., sem ég vil stuttlega minnast á, en það er till. um fjárveitingu, sem á að nota til heimssýningar í New York. Till. hljóðar, að mig minnir, upp á eitthvað 62000 kr., og er það ekki nema hluti af því fé, sem búizt er við, að leggja þurfi fram til þátttöku Íslendinga í þessari sýningu, en búizt er við, að alls muni verða að leggja fram í þessu skyni um 250000 kr., þegar talið er, auk framlags ríkissjóðs, það fé, sem leggja á fram af bönkum og ýmsum stofnunum og félögum í landinu.

Ég veit nú ekki, hvort ég á að voga, þegar allir þeir, sem hér standa að, virðast vera á sama máli, að kritisera nokkuð svona ráðstöfun. En ef ég mætti voga það, þá vildi ég benda á, að það er ákaflega vafasamt, hvort það svarar kostnaði fyrir smáþjóðir eins og okkur að leggja svo mikið fé í að taka þátt í svo risavaxinni sýningu í Bandaríkjunum í eitt einasta skipti. Hversu miklar markaðsleitir og auglýsingar fyrir okkar vörur mætti ekki framkvæma víðsvegar um lönd fyrir 2/4 millj. kr. Ég veit vel, að framlag ríkissjóðs á ekki að verða svona mikið, en ég tala um þá eyðslu, sem búizt er við, að lendi á landinu í heild vegna þessarar sýningar, og hvort féð kemur beint úr ríkissjóði eða frá atvinnuvegunum, skiptir ekki miklu máli. Það hafa verið haldnar ýmsar sýningar á ýmsum stöðum hér í álfu, sem menn hafa vakið máls á, að ef til vill væri rétt að taka þátt i, sem vitað er, að frændþjóðir okkar hafa tekið þátt í, t. d. heimssýningin í Brüssel, en menn hér á landi hafa verið tregir til að leggja fram fé í þessu skyni, og hefir þó ekki verið að ræða um líkt því eins gífurlegan tilkostnað eins og mér virðist liggja í loftinu, að verða muni í sambandi við þessa Ameríkuheimssýningu.

Ég skal ekki gera lítið úr þeim möguleikum til verzlunar við Bandaríkin, sem framundan kunna að vera fyrir okkur Íslendinga. Þó er ómögulegt að segja um það á augnablikinu, hversu miklir þeir kunna að verða á næstu árum. En það er bara þetta, sem mér hálfóar við, ef við eftir að hafa hleypt framhjá okkur mörgum sýningum, eigum nú að byrja með að taka þátt í svona risavaxinni sýningu í Vesturálfu, með gífurlegum framlögum miðað við fólksfjölda og getu landsins. Nú er vitað, að allt, sem Ameríka gerir í þessu efni sem öðrum, er í stórum stíl og svo mikilfenglegt, að það þarf náttúrlega voðaleg átök til að koma þarna fram svo að nokkuð beri á okkur. En ég efast um, að þótt við eyðum ¼ millj. í þessa sýningu, á þessum stað og í þessu umhverfi, þar sem allar stærstu þjóðir heimsins verða með stórar sýningarhallir, — ég efast um, að svari kostnaði fyrir okkur að vera að tildra okkur á þessum stað. Ég veit, að Norðmenn ætla á næstu kaupstefnu í Leipzig að hafa sýningu á sínum fiskafurðum, en sá tilkostnaður, sem þeir gera þar ráð fyrir, er ekki nema örlítill hundraðshluti af því, sem gert er ráð fyrir, að við Íslendingar eyðum í þessa einu sýningu.

Ég hefi ekki komið með brtt. við þessa till. hv. fjvn., því að ég tel það þýðingarlaust. Hæstv. stj. mun vera búin að gera sínar ákvarðanir og bankar og aðrar stærstu stofnanir landsins vera búnar að rígbinda sig við þessa sýningu. Ég held meira að segja, að búið sé að gera leigusamning um sýningarsvæði o. s. frv. Ég hefi því ekki komið með brtt., en vil bara varpa fram þeirri spurningu, hvort ekki mundi vera heppilegra að taka þátt í kaupstefnum og auglýsa á annan hátt okkar vörur á fleiri stöðum heldur en að eyða þessari fjárupphæð í eina einustu þátttöku í heimssýningu í New York.

Ég gæti ef til vill síðar meir við umr. þessa máls gefið nákvæmar upplýsingar um, hvað kostar að taka þátt í kaupstefnunni í Leipzig. Ég hefi ekki þær tölur við hendina nú, en ég hefi séð umburðarbréf um þetta efni, og það voru ekki nema nokkur þús. kr., sem þar komu til greina. Ég veit, að það er ekki heimssýning, en það er kaupstefna, sem er svo almennt sótt, að þangað koma menn úr öllum hlutum veraldar til þess að skoða og kaupa vörur. Ég nefni kaupstefnuna í Leipzig aðeins sem dæmi, en ég veit að annað veifið er alltaf kostur að taka þátt í sýningum hér í álfu í auglýsingaskyni og koma þar vörum sínum á framfæri við gífurlegan fjölda fólks.

Ég skal svo ekki frekar orðlengja um þetta mál. Ég held, að ég hafi minnzt á allt, sem ég hafði hugsað mér að taka fram í þessu sambandi. Þessar aths. að því er snertir brtt. þá, sem flutt hefir verið um fjárveitingu til þessarar heimssýningar, eru að vísu aðeins á við og dreif, en ef umr. væru almennt um það mál, þá væri full Ástæða til þess að benda með skýrari rökum en hér hafa fram komið á það, hvort svara muni kostnaði á þessum tímum að eyða svona miklu fé frá ríkinu og öðrum aðiljum í því skyni, sem hér er um að ræða.