18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

1. mál, fjárlög 1938

*Brynjólfur Bjarnason:

Ég verð víst að neyðast til að tala yfir tómum stólunum. — Það eru nokkuð margar brtt., sem við kommúnistar flytjum hér við 3. umr. Flestar af þeim lágu fyrir við 2. umr., og var þá ýtarlega mælt fyrir þeim af flokksbróður mínum, hv. 5. þm. Reykv., og auk þess hefir hv. 5. landsk. mælt fyrir ýmsum af þessum brtt., sem við flytjum, svo að ég get haldið mér við þær, sem ekki hefir verið mælt fyrir hingað til.

Ég ætla þá fyrst að fara nokkrum orðum um till. okkar um aukið framlag til vegagerða.

Sú ráðsmennska hefir mjög verið ríkjandi í vegamálum landsins, að gera áætlanir um stóra vegi og leggja svo til þeirra á hverju ári smáframlög, svo að það hefir tekið óratíma að leggja þessa vegi. Við teljum slíka ráðsmennsku ófæra. Það fjármagn, sem þannig er lagt í vegi, liggur ónotað um langan tíma, og vegirnir grotna niður ónotaðir, samtímis því sem fjármagnið liggur óarðbært. Eitthvert bezta dæmið um þetta er Suðurlandsbrautin. Lengd hennar er áætluð rúmir 80 km. Lægsta áætlun um kostnað við lagningu þessa vegar er 1315 þús. kr. En þessi áætlun mun áreiðanlega vera allt of lág. Til þessa vegar hefir verið lagt á 2 árum, bæði með sérstöku framlagi í fjárl. og af atvinnubótafé og af Hafnarfjarðarbæ, samtals 195 þús. kr., og búnir munu vera alls um 17–18 km. af veginum. Það, sem eftir er, kostar eftir þessu 1315 þús. kr. Mundi þá taka 12 ár að leggja það, sem eftir er, með núv. framlagi, en allt að 16 ár, ef reiknað er með ríkisframlaginu einu saman; en kostnaðurinn er miklu meiri, og mundi verkið því taka meiri tíma en útreikningurinn sýnir.

Ef hægt væri að leggja til vegarins 150 þús. kr. árlega, mætti gera sér vonir um, að takast mætti að ljúka við hann á 8 árum, en á 6 árum með 200 þús. kr. árlegu framlagi. Ég sé, að hv. fjvn. hefir í sínum till. í raun og veru fallizt á þessa röksemd, því að hún leggur til, að auk framlags af benzínskatti verði lagt til vegarins af atvinnubótafé 150000 kr., en þar með er tekið burt framlag af atvinnubótafé til nýbýla, þ. e. a. s. að Síbería er þar með látin sigla sinn sjó. Þetta út af fyrir sig er vafalaust hyggileg ráðstöfun, að leggja svona stórt framlag í einu til vegarins, og vel má vera, að Síbería sé mislukkað fyrirtæki. Samt getum við ekki fallizt á þessa lausn málsins, vegna þess að hún felur ekki í sér það, sem við ætlumst til, auknar verklegar framkvæmdir og aukna atvinnu að sama skapi, heldur er hér aðeins um tilfærslu að ræða. Og ef Síbería er mislukkað fyrirtæki, þá er það okkar till., að því fé verði varið til annars, t. d. ræktunar á heppilegri stöðum.

Annað dæmi um þessa ráðsmennsku í vegamálum er Siglufjarðarskarð. Vegur sá, sem þar á að leggja, mun kosta á 3. hundr. þús. Og fyrst það er viðurkennt, að rétt sé að leggja þennan veg, hvaða meining er þá að vera að kótla til hans 10–15 þús. kr. á ári? Við leggjum til, að fjárveitingin verði hækkuð upp í 50 þús. kr., svo að hægt verði að ljúka við hann sem fyrst.

Þá leggjum við til, að lokið verði við Sogsveginn frá Þingvöllum til Kaldárhöfða, sem tengir saman Reykjavík og Suðurlandsundirlendið með nýrri línu. Samkv. áætlun vegamálastjóra mun það nema 106000 kr., að leggja þennan veg, svo að hann verði bílfær á sumrum, og er þá gert ráð fyrir, að 1,6 km. langur spotti verði ruddur austan við Miðfell. En til þess að ljúka við veginn til fulls, þannig að ekki verði um rudda kafla að ræða, svo að hann gæti orðið fær að vetrarlagi, þarf þá ca. 130000 kr. Við leggjum til, að það verði gert, og ríkið leggi fram til vegarins 100 þús. kr., en Reykjavíkurbær afganginn. Þessi vegur yrði vafalaust oft fær að vetrarlagi, þegar vegurinn yfir Hellisheiði er ófær. Hér er aðelns um örlítið haft að ræða, sem þarf að brúa, og þegar um svona mikla samgöngubót er að ræða, þarf ekki að eyða orðum að því, að ekkert vit er að ljúka ekki þessu verki.

Ég þarf ekki að fara út í að gera grein fyrir öðrum stórum till. okkar um verklegar framkvæmdir; það var gert ýtarlega við 2. umr. málsins, og fer ég því ekki að endurtaka það hér. Við leggjum til, að framlag til nýrra vita verði hækkað um 160 þús. kr., og lætur nærri, að það sé til byggingar 2 nýrra vita. Við 2. umr. voru teknir til tveir staðir, Þormóðssker og Meðallandssandur. Við höfum sleppt því hér, og tökum ekkert fram um, hvar nauðsynlegast sé að reisa nýja vita. Það getur verið deilumál, en um það viljum við ekki deila, heldur fara þar eftir till. kunnugustu manna. Hinsvegar vitum við, að brýn þörf er á nýjum vitum á mörgum stöðum á landinu, og þó ekki síður á þeirri atvinnuaukningu, sem slíkar byggingar hafa í för með sér.

Ein þýðingarmesta till. okkar er um ríkisábyrgð á lánum til kaupa á nýjum mótorskipum. Þetta er þýðingarmesta till. um atvinnuaukningu í landinu, en um hana þarf ég ekkert að segja, því að hv. 5. landsk. hefir haldið ýtarlega ræðu um það mál.

Þá er till frá okkur um sérstakt framlag til fóðurhætiskaupa vegna óþurrkanna síðastl. sumar. Fyrir því máli hefi ég áður gert grein í sambandi við þáltill. um fóðurbætiskaup, svo að ég þarf ekki að fara nánar út í það nú.

Þá eru till. okkar um rannsókn á hagnýtingu raforku. Nú er mikið rætt og ritað um nauðsyn á fleiri atvinnugreinum á Íslandi, og enginn neitar þeirri nauðsyn, sem landsmönnum er á fjölbreyttara atvinnulífi. Þó er þar um alveg sérstakt alvörumál að ræða fyrir einangraða þjóð eins og okkur, þar sem heimsástandið er svo, að enginn neitar því, að heimsstyrjöld getur verið yfirvofandi, og þá geta þeir tímar komið, að þjóðin verði neydd til að bjargast eingöngu við eigin framleiðslu, eða næstum því eingöngu. Í áliti og till. skipulagsn. í atvinnumálum er bent á ýmsa atvinnuvegi, sem til greina gætu komið, en víðast í þessum till. er niðurstaðan sú, að frekari rannsóknar þurfi við, áður en hægt sé að hefja framkvæmdir. Vöxtur raforkuvinnslu hlýtur að verða eitt aðalskilyrðið fyrir því, að hér geti risið upp iðnaður í stórum stíl, auk þess sem nauðsynlegt er, að haldið verði áfram á þeirri braut, að auka rafmagnsnotkun til ljósa, suðu og upphitunar, þar sem heita vatnið getur ekki komið til greina.

Þá eru hinir einstöku liðir í þessari brtt. okkar við 16. gr.

1. till. er um að athuga möguleika á því að reisa rafstöðvar og orkuveitur og framkvæma undirbúningsrannsóknir, 20000 kr. Vitanlega þarf fyrst og fremst að ljúka þeim rannsóknum, sem nú eru byrjaðar, um nýjar rafveitur. T. d. er nauðsynlegt í sambandi við virkjun Laxár að rannsaka möguleika á að leggja háspennulínu til Dalvíkur, Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, og ennfremur frá Ísafirði til Bolungavíkur og Suðureyrar og fleiri staða, sem er í samræmi við þáltill., sem hefir verið flutt hér. Ennfremur rafmagnsmál Neskaupstaðar, hvort hann á að fá rafmagn frá stöð á Eskifirði, og sömuleiðis á hvern hátt sé haganlegast að leggja rafmagn til Vestmannaeyja o. s. frv.

Þá er 2. liður brtt. við 16. gr., sem er um að veita 10 þús. kr. til að athuga möguleika á því að hagnýta raforku frá orkuveri við Sog til húsahitunar í Reykjavík og ef til vill viðar. Að okkar dómi er mikil nauðsyn á, að rannsókn fari fram á fjárhagshlið þess, að hita upp Reykjavíkurbæ með rafmagni frá Soginu, sérstaklega vegna þess, að það er ekki ennþá vitað, hvort heita vatnið á Reykjum nægir til þess, og þá þarf jafnframt að athuga, hvernig slíkri hitun yrði haganlegast fyrir komið, hvort ætti að hafa rafmagnsofna eða vatnsmiðstöðvar.

Þá er 3. till. við 16. gr., sem fer fram á 10 þús. kr. fjárveitingu til þess að athuga möguleika á því að virkja til raforkuvinnslu eitthvert stórt fallvatn í þeim tilgangi að framleiða svo ódýra orku, að hægt sé að hagnýta hana til stóriðnaðar, t. d. áburðarvinnslu. Það hefir ekki enn verið gengið úr skugga um, hversu ódýrt sé að framleiða raforku. Það er því brýn nauðsyn að láta fara fram fullnaðarrannsókn á því, hversu ódýra raforku er hægt að framleiða til stóriðnaðar eins og áburðarvinnslu.

Þá er 4. till., sem er um 15 þús. kr. framlag til skipulagðra vatnsrennslismælinga í fallvötnum, til þess að vinna úr þeim og gefa út skýrslur um þær. Þetta er nauðsynlegt fyrir okkur til þess að hægt sé að fá áreiðanlega vitneskju um vatnsrennsli í ám og fljótum, og hefir mjög mikla þýðingu fyrir væntanlegar virkjanir. En það er ekki nóg að láta vatnsrennslismælingarnar fara fram; það þarf líka að vinna úr þeim rannsóknum og gefa um þær skýrslur. Þá fyrst geta þær komið að gagni. Það hafa farið fram einstakar vatnsmælingar, en lítið úr þeim unnið og engar skýrslur gefnar út. Ef þetta á að geta komið að gagni, þá er ekki hægt að ætla til þess minna en 15 þús. kr.

Þá er 5. till., að veita 20 þús. kr. til hagnýtra jarðvegsrannsókna. Menn vita lítið, hvaða jarðarauðæfi hér eru, og sízt hvaða hagnýta þýðingu þau geta haft, svo sem leir og ef til vill málmar. Ýmsir einstaklingar hafa verið að fást við þetta af miklum áhuga, en litlum efnum. Þetta er auðvitað ófullnægjandi, og verður ekkert sagt með vissu, hvaða jarðarauðæfi Ísland hefir að geyma og hvaða hagnað megi af því hafa, fyrr en þetta hefir verið rannsakað, og ekki hægt að fá úr því skorið nema lagt sé í þann kostnað, að láta framkvæma rannsóknir á þessu sviði. Það er kominn tími til, að ríkið láti þetta mál raunverulega til sín taka, láti sem skjótast hefja rannsóknir og ráði til þess sérfróðan mann, sem annaðist þær, eins og hér er lagt til.

Ég ætla þá ekki að fjölyrða meira um þessar till., sem við flytjum. Ég held, að búið sé að gera grein fyrir hinum aðaltill., sem ég hefi ekki minnzt á.

En áður en ég lýk máli mínu, ætla ég aðeins að minnast á þær till., sem hér hafa verið fluttar af hv. þm. A.-Húnv. um lækkun á styrk til rithöfunda, sem eru pólitískir andstæðingar hans og hans flokks. Það er eftirtektarvert, að þessar lækkanir, sem hann ber fram á þeim Halldóri Kiljan Laxness, Guðmundi Hagalín og Þorbergi Þórðarsyni, snerta allar pólitíska andstæðinga hans og hans flokks. Hér er sem sagt smásálarskapurinn í algleymingi. Þó kastar fyrst tólfunum, þegar hann leggur til að lækka styrkinn við Halldór Kiljan Laxness um 3 þús. kr., og sagðist mundu hafa komið með till. um að taka styrkinn alveg af honum, ef hann hefði haft nokkra von um að fá þá till. samþ. Halldór mun vera einhver viðfrægasti Íslendingurinn, sem nú er uppi, ásamt Vilhjálmi Stefánssyni, og landi sínu meira til sóma en flestir aðrir núlifandi Íslendingar. Svo kemur hv. þm. A.-Húnv. og belgir sig upp eins og einhver bókmenntasérfræðingur og segir, að þessi styrkur sé svartasti bletturinn á fjárl. Og vegna hvers? Allt vegna þess, að Halldór hefir verið einhver djarfasti málsvari frjálsrar hugsunar gegn smásálarskapnum og kyrrstöðuhugsunarhættinum, sem hv. þm. A.-Húnv. virðist svo mjög haldinn af. Það væri gaman að bera þessa ræðu hv. þm. saman við þær ræður, sem haldnar voru á Alþingi á sínum tíma gegn Þorsteini Erlingssyni. Ég held að þá mundi koma í ljós, að afturhald allra tíma er sjálfu sér líkt. Ég ber ekki neitt ótakmarkað traust til þessa þings, en svo mikið traust ber ég þó til Alþingis, að ég þykist þess fullviss, að till. hv. þm. A.-Húnv. á hér ekki miklu brautargengi að fagna.