22.11.1937
Neðri deild: 32. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (775)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það kom fram í svari hv. þm., að tilefnið til fyrirspurnar hans er ekki til, því að samningarnir hafa verið birtir í blöðunum og útvarpinu. Það er ekki nema þetta eina, sem hv. þm. er í vafa um, um togarana. Það stendur í frv., að kaupa eigi tilraunatogara, en þar sem orðið er eins í eintölu og fleirtölu í þessu sambandi, er ekki von, að hv. þm. geti leyst gátuna. En það fer eftir því, hvað mikið fjármagn verður fyrir hendi, hvort togararnir verða einn eða fleiri. Hitt ætla ég ekki að fara út i, hvort ástæða er til að kaupa togara, en hv. þm. getur ekki með réttu lagzt á móti slíkri tilraun.

Spurning hv. þm. um mjólkurmálið var ærið barnaleg. Það er vitað, að mjólkurmálið er eitt af þeim málum, sem Framsfl. hefir lagt mesta áherzlu á. Það er því undarlegt að spyrja, hvort flokkurinn ætli að víkja frá því. Ég ætla í þessu sambandi ekki að fara sérstaklega út í samningana við jafnaðarmenn. Það er fullkomið réttlætismál fyrir bændur á Suðurlandsundirlendinu, að þeir hafi sama rétt og stéttarbræður þeirra aðrir. Ég vænti, að hv. þm. beiti sér ekki gegn frv., þegar hann fer að athuga, hvað liggur til grundvallar fyrir því.