22.11.1937
Neðri deild: 32. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Ólafur Thors:

Ég beindi þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., hvort hér væri um að ræða fé til eins eða tveggja togara. Hæstv. ráðh. svaraði, að samkv. ísl. málvenju væri orðið togari í þessu sambandi eins í eintölu og fleirtölu, enda færi þetta eftir því, hvað mikið fé væri fyrir hendi. En í blaði hæstv. atvmrh. stendur, að samið hafi verið um 2 togara, alveg án tillits til getu ríkissjóðs. Þarna sést strax, að um þetta eina atriði er ágreiningur í skýrslum þeirra hæstv. forsrh. og hæstv. atvmrh. Ég trúi betur því, sem hæstv. forsrh. segir, en því, sem einhver óvalinn maður segir í Alþýðublaðinu. En fólkinu er ætlað að trúa því, sem í Alþýðublaðinu stendur. — Togaraútgerð er enginn óreyndur atvinnurekstur hér, og það er allundarlegt, að ríkið vill styrkja þá. sem kaupa nýja togara, og taka með sköttum styrkinn af þeim, sem reka eldri togarana.

Hæstv. ráðh. fannst, að mér skildist, ósvífni að spyrja, hvort mjólkurl. væru með í samningunum. Hann hefði lýst yfir því, að hann væri þeim fylgjandi. 16. apríl síðastl. sagði hæstv. atvmrh., að Alþfl. heimtaði þjóðnýtingarfrv. Er það þá ósvífni að spyrja hvort þau mál, sem þingrofið varð út úr, séu í samningunum? Ég vil beina því til hæstv. forsrh., hvort einhver mál Framsfl. séu í samningunum?

Þá vil ég snúa mér að hv. 1. þm. Rang. Það er svo til ætlazt, að verðjöfnunarsvæðið takmarkist við það, að hægt sé að flytja mjólkina daglega á sölustað. Þetta er orðalagið, en um skilninginn má deila. Ég er því ekki samþykkur, að samskonar öryggi gildi um flutninga úr Mosfellssveit, Kjós og jafnvel úr Hafnarfirði eins og austan yfir fjall. Það skal sannast, að það mun valda vandkvæðum, ef á að byggja alveg á flutningana austan heiðar. Þó að ef til vill geti komið fyrir, að flutningar teppist milli Hafnarfjarðar og Rvíkur, eru samt líkurnar mjög miklu meiri til þess, að flutningavandræði verði að austan, þar sem um fjallveg er að fara.

Við erum ekki komin suður undir Miðjarðarhafslínu, þótt við höfum sloppið skaðlaust hina síðustu vetur. Hv. þm. dró dár að því, sem ég. sagði, að bændur vestanfjalls þyrftu hærra verð en bændur austanfjalls. Hv. þm. lætur sem hann hafi ekki skilning á þessu, en ég veit, að hann fæst aðeins ekki til að tala um þetta mál eins og hann hefir skilning til, og það er enginn vafi á því, að hann vissi við hvað ég átti. Honum er eins vel kunnugt um það eins og mér, að eftir því, sem Reykjavík hefir stækkað og þörf aukizt þar fyrir neyzlumjók, þá hafa fleiri og fleiri bændur freistazt til þess að stækka búskap sinn eða byrja búskap á landi, sem ekki er vel til þess fallið almennt talað. Þetta hafa menn gert með hliðsjón af því að fá að njóta sérréttinda um sölu á markaðinum í Reykjavík. Ég skal ekki segja um, hvort þessir menn geta beinlínis talizt hafa heimtingu til að sitja fyrir um rétt til mjólkursölu í Reykjavík, en þeir hafa haft þann rétt fyrir augum, þegar þeir byrjuðu búskap sinn, og hið opinbera má ekki gera beinar ráðstafanir til þess að svipta þá þeim rétti. Það er engin goðgá, þótt ég, sem umboðsmaður þeirra bænda, sem búa við slík skilyrði, biðji um vernd löggjafans þeim til handa. Og það er ennþá minni goðgá, þótt ég fari fram á, að löggjafinn geri engar beinar ráðstafanir, sem geti aukið hættuna fyrir þessa bændur, eða sem orka tvímælis um, að ekki færi þeim aukna hættu. Hvað sem hver segir um þetta mál, verður það að viðurkennast, að ákvæði þessa frv. eru þannig vaxin, að það orkar tvímælis, svo að ég segi ekki meira, að þau auki ekki erfiðleika bænda hér í nágrenninu. Má vera að ég sé of einsýnn vegna umhugsunarinnar um afkomu minna umbjóðenda, en ég tel það ekki orka tvímælis, að frv. rýri afkomumöguleika þeirra. Ég hygg, að enginn geti gengið skemur en að viðurkenna, að það er undir hælinn lagt, hvort þeirra hagsmunum sé betur borgið með því að samþ. sé slíkt frv. án þess að gagnráðstafanir verði gerðar. Hv. þm. segir, að „mjólkurstríð“ mundi koma harðast niður á þeim mönnum, sem ég er að bera fyrir brjóstinu. En ég fullyrði samt, að umbjóðendur mínir kjósa heldur að berjast innbyrðis um hagsmuni sína í þessu máli án afskipta löggjafans með frv. sem þessu, er hér liggur fyrir. Má vera, að einhver hluti bænda skaðaðist í bili af þeim bardaga, en trú mín er sú, að mínir umbjóðendur telji sér betur borgið þann veg en með þessu frv. Má vera, að löggjafinn telji sér skylt að afstýra því, að bændur leggi út í slíka baráttu og þá skerðingu hagsmuna þeirra, sem hún gæti haft í för með sér um einhvern tíma. En bændur þeir, sem eru mínir umbjóðendur, munu trúa því, að ef þeir mættu sjálfir semja við bændur austanfjalls, mundu þeir bera giftu til þess að ná hagkvæmari samningum en hægt er að ná með afskiptum löggjafans af þessu máli. Ég vek athygli á því, að þótt bændur vestanfjalls hafi stofnað til dýrs búrekstrar, með hliðsjón af því að geta notið markaðarins í Reykjavík, þá gefur það eitt út af fyrir sig þeim ekki rétt til að gera kröfur á hendur löggjafanum um, að gerðar séu beinar ráðstafanir til, að bændur í Gullbr.- og Kjósarsýslu hafi ekki betri aðstöðu en þeir til að berjast um Reykjavíkurmarkaðinn, en aðalatriði þessa frv. er það, að bændur á þessum sýslum eru sviptir sinni frjálsu aðstöðu til að berjast um hann.

Um það, sem hv. þm. sagði, að þessi verðmunur væri afarlítill, eða 3 aurar á lítra, sem yrði einar 70–80 kr. á kýrnyt, verð ég að segja, að ég hélt, að hann væri þessum málum svo kunnugur, að hann vissi, að meðalkýrnyt hefir lækkað mjög mikið síðustu ár, og í ár er talið, að hún muni ekki verða meiri en tvö þúsund lítrar; suma bændur hefi ég heyrt tala um 1600 lítra sem meðalnyt, sem orsakast bæði af því, að hey eru slæm frá sumrinu og svo af því, að skortur er á kraftfóðri. Sá aðstöðumunur, sem hann benti á, að væri vegna nábýlis við Reykjavík, er raunverulega ekki eins mikill og hann hélt fram.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara út í fleiri atriði í ræðu hv. þm. á þessu stigi málsins, enda mun gefast tækifæri til þess að ræða það síðar.