22.11.1937
Neðri deild: 32. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Jón Pálmason:

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, mjólkurmálið, er að mörgu leyti gamall kunningi hér á Alþingi; hér hafa áður staðið um það harðar deilur. Ég geri ráð fyrir, að svo geti og farið nú, og get ég sparað mér langar umr. Okkur er kunnugt um, að undanfarið hefir þetta verið baráttumál milli bænda vestan og austan Hellisheiðar, og hefir komið ljóst fram í þessari umr., að aðstaða þessa aðilja er óbreytt enn. Hér er gengið lengra en nokkru sinni fyrr í því að þurrka út aðstöðumun milli þeirra, sem næst búa sölustaðnum, og hinna, sem fjær búa. Samkv. þessu frv. er ætlazt til, að þurrkaður sé út sá aðstöðumunur að öllu öðru leyti en hvað flutningskostnaði viðkemur. Eins og hv. þm. G.-K. tók fram, hafa þeir, sem búa næst Reykjavík, byggt sinn búrekstur á því, að geta ávallt komið sinni mjólk á þann markað, sem hæst verð gefur, en ég skal ekki fara nánar út í það á þessu stigi málsins, hvort rétt er eða ekki að stíga það spor, sem hér er ætlazt til að stigið verði, en ég vildi fá að vita, hvar heilbrigt er að setja takmarkið, ef farið er inn á þá braut að jafna verði á verðjöfnunarsvæði Reykjavíkur, svo að þeir, sem utan þess svæðis búa, fái sömu réttindi. Ég leyfi mér að halda því fram, að ef fara á inn á þá braut, þá sé eins réttlátt að taka þar með alla Dalasýslu, Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, Strandasýslu, báðar Húnavatnssýslur, og jafnvel vafasamt, hvort ekki ætti líka að taka Skagafjarðarsýslu með. Um allar þessar sýslur er það að segja, að þaðan er hægt að flytja daglega mjólk til Reykjavíkur yfir sumartímann, og er aðstaða þeirra að því leyti í engu frábrugðin aðstöðu sýslnanna vestan Hellisheiðar. Hitt er vitað, að það er engin möguleiki til að flytja mjólk daglega úr þessum héruðum á veturna, en sama má segja um héruðin austan heiðar; það er langt frá, að hægt sé að flytja mjólk þaðan daglega yfir veturinn. Þessi héruð, sem ég hefi nefnt, eru þannig stödd, að sá atvinnurekstur, sem þau undanfarið hafa lifað á, sauðfjárræktin, virðist vera að leggjast í rústir, og ekki verður hjá því komizt hin næstu ár að athuga, hvað hægt er að gera til þess að varna því, að þessi héruð falli í auðn. Að vísu liggur fyrir þessu þingi till. um að veita meira eða minna af opinberum styrk til þeirra héraða, sem lakast hafa farið út úr þeim vandræðum, sem Deildartunguveikin hefir leitt yfir landið, en það er ekkert framtíðarbjargráð að ætlast til, að bægt verði að halda uppi atvinnurekstri á stórum svæðum á landinu með ríkisframlögum, heldur verður að breyta atvinnulífinu. Þá er ástæða til að stíga stórt spor til þess að þurrka út aðstöðumuninn til að koma vörum á stærsta sölumarkað landsins.

Ég veit, að þetta mál muni koma til n., sem ég á sæti í og fæ ég því tækifæri til þess að athuga það síðar.