22.11.1937
Neðri deild: 32. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í B-deild Alþingistíðinda. (780)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Einar Olgeirsson:

Ég vildi í sambandi við þetta mál gera fyrirspurn til hv. flm. út af atriði, sem er mikið rætt um hér í Reykjavík í sambandi við mjólkurmálið; það er, hvort nokkur hætta væri á því, þótt þetta frv. yrði að lögum, að það kæmi til með að þýða hækkun á mjólkurverði til neytenda.

Það hefir verið svo um mjólkurlögin, eins og hv. flm. kom réttilega inn á, að þau hafa öll verið sett á kostnað neytenda. Það er vitað, að hefði frjáls samkeppni verið á þessu sviði þá hefði mjólkurverðið verið lægra. Svo framarlega sem mjólkurverkfall hefði átt sér stað, þá hefði mjólkin fengizt ódýrari. Nú hefir vaknað ótti um það, sérstaklega í Reykjavík, að afleiðing þess, að frv. þetta yrði samþ., yrði hækkun á mjólkinni, og jafnvel hafa menn verið hræddir um, að stjórnarflokkarnir hafi samið um það sin á milli. Eftir því, sem ég get bezt gert mér hugmynd um, álít ég ekki, að svo sé, en ég held, að það væri hyggilegt að fá í sambandi við þessa umr. yfirlýsingu hv. flm. um, að það væri ekki tilgangurinn. Ég álít líka, að það mundi vera óheppilegt bæði fyrir framleiðendur og kaupendur að hækka mjólkurverðið hér í Reykjavík. Það er þetta, sem ég vil fá fram, þótt ég hinsvegar gangi út frá því, að það sé ekki meiningin með frv. að hækka mjólkurverðið. En sé það ekki tilætlunin, hlýtur afleiðingin að verða sú, að lækka verður verðið til framleiðenda hér í kringum Rvík. Og þá kemur til greina að ráða fram úr því mikla vandamáli, hve landleiga er orðin há hér í kringum bæinn. Mjólkurframleiðendur hér innan lögsagnarumdæmisins búa á allt of dýrum jörðum, og stofnkostnað þeirra verður líka á einhvern hátt að skera niður, ef þessi mál eiga að leysast á viðunandi hátt. Ég vil gjarnan heyra álit flm. um það, hvort nokkuð sé hæft í því, að mjólkin eigi að hækka, ef frv. verður að lögum, og jafnframt, hvernig þeir ætli að bæta úr jarðaokrinu í og í kringum Reykjavík, sem fyrst og fremst er orsökin til örðugleika mjólkurframleiðenda þar og gerir þeim miklu erfiðara fyrir en ella að taka á sig þær réttlátu byrðar, sem af allsherjarverðjöfnun leiðir.