22.11.1937
Neðri deild: 32. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

Flm. (Sveinbjörn Högnason):

Hv. þm. G.-K. hefir ýmist ekki komið nálægt málinu eða þá verið að afsaka, að hann væri á móti því. Það er að vísu engin furða, þótt hann klóri í bakkann og reyni að verja sérréttindi umbjóðenda sinna. Það er nú einu sinni svo, að menn vilja ógjarnan sleppa þeim sérréttindum, sem þeir hafa einu sinni hreppt. En framkoma hv. þm. G.-K. í þessu máli sýnir það öll ljóslega, hve erfitt og óverjandi það er að standa í gegn þessu máli. Persónulegar dylgjur hans um mig hafa engin áhrif önnur en þau, að undirstrika rökþrot hans, eins og þegar hann slær því fram alveg órökstuddu, að ég segi allt annað en ég meina. Yfirleitt sýndi öll framkoma hans, að þótt mótstaðan gegn málinu megi nú heita brotin á bak aftur, eru þó enn til óvandaðir menn, sem í lengstu lög reyna að verja illan málstað.

Hv. þm. sagði, að það væri trú manna, að mjólkurlögin, í þeirri mynd, sem þau nú væru, myndu falla niður. En hér er ekki verið að tala um nein trúmál. Hér talar reynslan sínu ótvíræða máli, og hér er að ræða um fjárhags- og hagsmunamál, en þó fyrst og fremst réttlætismál, sem enginn getur staðið á móti.

Hv. þm. vildi halda því fram, að hjá sínum umbjóðendum væri kýrnytin að meðaltali ekki nema 1600 lítrar á ári. verður ekki annað séð, en að hv. þm. hafi hér borið fram þessa fjarstæðu umbjóðendum sínum, sem annars eru margir mestu myndarmenn, til óvirðingar. Með þessum hætti eiga kýr þeirra að mjólka 4–5 lítra á dag.

Hv. þm. A.-Húnv. segir, að hér sé gengið lengra í því en áður að gera upp á milli framleiðenda hér og lengra frá. Fyrst var í l. gert ráð fyrir fullri verðjöfnun. En þar sem mjólkurframleiðslan hefir næstum tvöfaldazt síðan lögin voru sett, varð það ljóst, að verðjöfnunargjaldið hafði verið ákveðið of lágt. Þetta er aðaltilefni frv. En um takmörk þau, er sett eru í þessum l., er það að segja, að vel má vera, að þeim verði breytt — og verður breytt eftir því sem henta þykir. Nú stendur svo á, að aðeins örsjaldan er hægt að flytja mjólk suður yfir Holtavörðuheiði að vetrarlagi. Hinsvegar hafa komið vetur eftir vetur án þess mjólkurflutningar yfir Hellisheiði eða úr Borgarnesi hafi stöðvazt. En ef þessi aðstaða breytist, verður l. auðvitað breytt.

Hv. 5. þm. Reykv. var að spyrja um það, hvort mjólkurhækkun myndi fylgja í kjölfar þessa frv., ef að lögum yrði. Ég vil ráðleggja honum sem svar við þessari spurningu að lesa frv. sjálft. Hvað mjólkurverðið snertir hefir það vitanlega ekkert að segja, hvort þetta frv. er samþ. eða ekki, því að slíkt er algerlega á valdi sérstakrar verðlagsnefndar. Annars er ég hissa á þessum hv. þm., að hann skuli nú vera að tala um mjólkurstríð, þar sem hann, eins og kunnugt er, tók þátt í slíku stríði með Íhaldinu 1935, sér og félögum sínum til lítils sóma.

Hv. þm. talaði um það, að óviturlegt væri að hækka mjólkurverðið. En hvernig er það þá með verkakaupið, sem hann berst stöðugt fyrir að verði hækkað? Bændur eru yfirleitt verr settir en þeir, sem hann og félagar hans eru sífellt að gera verkföll fyrir í kauphækkunarskyni. Þeir menn, sem tala eins og hv. þm. í garð bændastéttarinnar, sem hefir verið og er uppistaðan í íslenzku þjóðlífi, ættu ekki sífellt að vera með skefjalausar kröfur fyrir aðrar stéttir.