22.11.1937
Neðri deild: 32. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Einar Olgeirsson:

Ég á bágt með að skilja það, hvers vegna hv. 1. þm. Rang. þurfti að rjúka upp með þeim ofstopa, sem hann gerði, þótt ég spyrði, hvort mjólkin myndi hækka samkv. samningum stjórnarflokkanna, ef frv. þetta yrði samþ. Ég fyrir mitt leyti býst nú ekki við, að sú verði raunin á, en þó reyndist ómögulegt að fá skýr svör við þessu. Hann svaraði yfirleitt engu öðru en því, að verðlagsnefnd ákvæði verðið. En hér er um það að ræða, að hækka mjólkurverðið til framleiðenda austanfjalls, en slíkt verður auðvitað ekki gert, nema á kostnað stórbændanna kringum Reykjavík, með lækkuðu mjólkurverði hjá þeim — eða með hækkuðu söluverði mjólkur til neytenda í Reykjavík og Hafnarfirði. Eina ráðið til að koma í veg fyrir slíkt, er að auka neyzluna hér að miklum mun. Ég taldi, að þessar ráðstafanir væru gerðar á kostnað neytenda, og vitnaði í því sambandi til hv. 1. þm. Rang., er hann sagði, að frjáls samkeppni hefði lækkað mjólkurverðið. Ég benti hinsvegar á þá lausn, að hafa mjólkurlög, en hækka verðið til bænda með því að auka neyzluna. Það er engu líkara en að hv. flm. finnist það einhver goðgá. (SvbH: Það er goðgá, að aldrei má hækka neitt nema kaup verkamanna). Það getur líka verið spursmál, hvort það er ekki það skynsamlegasta, sem hægt er að gera bændum í hag. — Við kommúnistar höfum stungið upp á því að skipuleggja samvinnu milli neytendanna í kaupstöðum og framleiðendanna í sveitum. Við skulum hugsa okkur t. d., að mjólkurverðlagsnefnd segði, að svo framarlega sem mjólkurneyzlan hér í Reykjavík færi upp í 6 millj. lítra á ári, þá lækkaði mjólkin. Mundi þá skapast keppni meðal neytendanna um að auka neyzluna, til þess að vinna að lækkuðu verði. Það liggur og í augum uppi, að það mundi borga sig að selja mjólkina 2–3 aurum ódýrara, svo framarlega sem neyzlan yrði þetta meiri. Hér er þess vegna alls ekki um það að ræða að ráðast á hagsmuni bænda, heldur hvernig hægt sé í einu að vernda hagsmuni tveggja aðilja, verkamanna og bænda. Ég sé þess vegna enga ástæðu fyrir hv. þm. að vera með æsingaræðu, þó að minnzt sé á það, að skynsamlegt geti verið fyrir bændur undir vissum kringumstæðum, að lækka mjólkurverðið. Ég held, að það sé fullmikið kapp í þessu máli, ef ekki má rannsaka, hvernig hægt væri að koma á samvinnu milli bænda og verkamanna. Það getur verið heppilegt fyrir bændur, að verkamenn hafi hærra kaup, því að þá geta þeir keypt meiri mjólk, en það er sú vara, sem þeir — illu heilli –einna tilfinnanlegast hafa orðið að neita sér um. — Ég álít því mjög óheppilegt að koma af stað æsingum í þetta mál millí verkamanna og bænda, því að þetta er það, sem þeir sameiginlega þurfa að leysa.