06.12.1937
Neðri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í B-deild Alþingistíðinda. (786)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen):

Hér er nú ærið mikið skarð höggvið í þingsetu manna á bekkjum í Nd., og meðan hv. frsm. meiri hl. var að tala, söng svo hátt í tálknum manna hér, sem auðsjáanlega voru að ræða um önnur mál, þessu óviðkomandi, að ég átti erfitt með að heyra, hvað hv. frsm. meiri hl. sagði. Ég mælist til þess við hæstv. forseta að hann fari fram á, að menn sitji í sætum sínum, eða ef þeir geta það ekki, að þeir hafi þá svo hljótt, að við framsögumannsnefnurnar getum heyrt hvor til annars.

Í n. var nokkuð rætt um þessi mál, bæði um það, hverjar afleiðingar þessi lagasetning kynni að hafa á aðstöðumun framleiðenda, og eins hitt, hver ráð væru til þess, að þetta raskaði ekki svo mjög afkomu bænda, að þeir yrðu að hætta búskap sínum. Margir telja, að teflt sé í tvísýnu, a. m. k. í bili, afkomu manna, er búa nálægt Reykjavík, ef tilhögun þessa frv. kemst á. Telja margir, að líkur séu til, að þessir bændur fái ekki risið undir búskap sínum, að svo miklu leyti sem hann byggist á mjólkurframleiðslu. Ég hefi engan heyrt tala um þetta á annan veg en þann, að þessi hætta geti verið fyrir dyrum. Hv. frsm. meiri hl. hefir einmitt tekið einna fastast undir það, að þetta væri fyrirsjáanlegt. Hann tók að vísu ekki svo djúpt í árinni um þetta nú, en á síðasta þingi kvað hann mjög skýrt að orði. Í sambandi við gagnrýni, sem komið hafði frá hv. þm. G.-K. og öðrum, sagði hann m. a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„ .... og það er víst, að bændur í nágrenni Reykjavíkur þola ekki meiri lækkun á mjólkinni, ef þeir eiga að geta setið lengur við sín bú. Það er ekki hægt að bjarga þessum mönnum með því að skera meira af skuldum þeirra en búið er, en verði þeir fyrir skakkaföllum af þessu frv., þá mun ég Leita mér fyrir því, að ráðstafanir verði gerðar til að bjarga þeim“.

Þetta er mjög skýrt til orða tekið, þar sem gert er ráð fyrir, að gera yrði sérstakar ráðstafanir til bjargar þessum mönnum, eftir að nýja mjólkursöluskipulagið væri komið á. Hv. frsm. meiri hl. heitir því fylgi sínu, að slíkar bjargarráðstafanir verði gerðar. En í þessu frv. er þó ekki gert ráð fyrir neinu slíku.

Nú má líta á það, án tillits til þess, hvort þetta skipulag er heppilegt eða ekki, að ef það yrði til þess, að þessir menn gæfust upp við búskap sinn, þá er þar um athugavert atriði að ræða, sem Alþingi getur ekki gengið fram hjá. við vitum, hvílík vandræði eru fyrir dyrum á þeim svæðum, þar sem menn eru að missa bústofn sinn, þar sem fjárpestin geisar, og hve mikil nauðsyn er á því að létta svo hag þessara manna, að þeim voða verði afstýrt, að mikill hluti af byggðu bóli þessa lands leggist í auðn. Verður því þegar að gera sér grein fyrir, hverjar afleiðingar þetta skipulag muni hafa, og ef það reynist líklegt, að þær verði hinar sömu og hv. þm. Mýr. gerði ráð fyrir, þá verður helzt í sömu löggjöf að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir þessar afleiðingar. Hitt ber svo að athuga, hvort heildarskipulag þetta hefir til að bera svo mikla kosti, að þeir nemi meiru en kostnaðinum við framkvæmd slíkra hjálparráðstafana. — Ég legg mikið upp úr áður tilgreindum ummælum hv. þm. Mýr., þar sem hann er búsettur á svæði því, sem hér um ræðir, og þekkir til þess og getur gert sér grein fyrir því, hver afkoma manna þar verður, ef mjólkurverð til þeirra lækkar. Í nál. minni hl. er að því vikið, að hann geti ekki fallizt á hugsun frv., nema þetta atriði sé tekið til greina og fyrirbyggð sú hætta, er ég hefi vikið að.

Við munum þess vegna, ef sýnt þykir, svo sem ég þykist renna grun í, að þetta frv. eigi fram að ganga á þessu þingi, sýna viðleitni á því að hafa sem bezta samvinnu við alla hv. þm., sem láta sig málið nokkru skipta, um að fá því framgengt, að sett verði í frv. ákvæði, er sporna við þessari hættu, auk þess sem frv. þarf nokkurra bóta að öðru leyti, þar sem frv. er mjög óskýrt orðað, enda margir hv. nm. talið orðalag þess þannig, að það stríddi beint gegn þeirri aðalhugsun, sem það átti að byggjast á, og hefir þetta verið viðurkennt af hv. frsm. meiri hl.

Til að rökstyðja það, sem ég hefi nú sagt, get ég drepið á tvö atriði. Í 1. málsgr. 1. gr. frv. er sagt, að í öllum þeim kaupstöðum og kauptúnum, þar sem fram getur farið dagleg sala á mjólk og rjóma frá mjólkurbúum, sem viðurkennd verða til þess af landbrh., skuli gjald, er nefnist verðjöfnunargjald, lagt á alla neyzlumjólk og rjóma frá mjólkurbúum, félögum eða einstökum mönnum. Hv. þm. Mýr. vildi skýra þetta svo, að þótt með þessu sé skýlaust ákveðið, að taka skuli verðjöfnunargjald af allri neyzlumjólk og rjóma, þá nái það aðeins til þeirrar mjólkur og rjóma, er selt sé hér í Reykjavík og Hafnarfirði. En allir sjá, að orðalag frv. getur ekki samrímzt þeirri hugsun, svo að það verður að orða skýrar, hvaða mjólkurbú það eru, sem þetta á að taka til. Eins er um 3. málsgr. 1. gr. frv. Þar stendur, að tekjuafgangur mjólkurbús eða mjólkursamsölu á sölusvæði skuli renna í verðjöfnunarsjóð, eftir að nauðsynlegar afskriftir hafi farið fram og aðrar greiðslur, er stj. telja nauðsynlegt að inna af hendi, enda hafi það þá áhrif á ákvörðun verðjöfnunargjaldsins. Hér vildi hv. þm. leggja þann skilning í, að það væri aðeins tekjuafgangur samsölunnar í Reykjavík, er þetta tæki til, en það næði ekki til mjólkurbúanna. Fleira er óljóst í þessu frv., t. d. um tilhögun þá, sem lagt er til, að höfð sé á rekstri mjólkurbúanna, og um grundvöllinn undir verðjöfnun einstakra mjólkurbúa. Þó hirði ég ekki að fara frekar út í það nú.

Ég vil minnast hér á enn eitt atriði, sem virðist þó ekki hægt að heimfæra undir það, að hægt sé að villast á því eða það sé óskýrt orðað, atriði, sem hv. frsm. meiri hl. minntist á og talaði um að þyrfti breytinga við; það er viðvíkjandi síðasta málsl. 1. gr., þar sem á að tryggja framleiðendum 1 eyris gjald umfram aðra fyrir lágmarksmjólkurmagn, sem þeir leggja inn í samsöluna, ætla ég að sé. En samkv. orðalagi þessa málsl., þá á þetta ekki að ná til annara en þeirra, sem hafa mjólkurframleiðslu innan takmarkaðra svæða í námundu við kaupstaði, og þá sérstaklega Reykjavík og Hafnarfjörð, en e. t. v. ætlazt til, að þetta verði fært út á víðara svið síðar, þannig að það nái til allra kaupstaða og kauptúna. Þar að auki er þess að gæta, að höfuðtilgangi þessara ákvæða sem er að tryggja markað lágmarksmjólkurmagns, er engan veginn náð með því að takmarka þetta eingöngu við mjólkurframleiðslu kaupstaðanna, því hún er svo lítill og óverulegur hluti af því mjólkurmagni, sem þarf til þess að fullnægja þörfinni í kaupstöðum landsins. Þetta ákvæði tryggir því alls ekki það, sem virðist að réttmætt væri að tryggja, og þetta er ekkert annað en uppbót á þá mjólk, sem framleidd er á kaupstaðarlóð, og sú uppbót er tekin af því verði, sem mjólkurframleiðendur annarsstaðar ættu að réttu lagi að fá. Það er því hin mesta nauðsyn á að endurskoða þetta ákvæði og færa það svo út, að það nái til þeirra svæða, sem hafa aðstöðu til þess undir vissum kringumstæðum að flytja mjólk á markaðinn í kaupstöðunum og er mikils um vert að geti sem bezt fullnægt nauðsyninni á því, að sjá kaupstöðunum fyrir nægilegu mjólkurmagni. Það er þetta, sem við minni hl. n. höfum viljað vinna að, eftir að við vorum búnir að sjá, að þetta frv., eða svipaðar till. og í því felast. eiga fram að ganga hér á þinginu. Og við höfum óskað eftir sem beztu samkomulagi um þetta, fyrst og fremst við okkar samnm. og svo milli hv. þdm., og að sýnd sé viðleitni til þess að afstýra þeirri hættu, sem virðist geta vofað yfir þeim mönnum, sem búa í námunda við aðalmjólkursölustaðina, vegna verðbreytingar, sem hér verður. Í öðru lagi óskum við eftir því, að orðalag þessa nýja frv. verði alveg skýrt og ótvírætt, svo að það geti ekki valdið neinum ágreiningi, þegar kemur til framkvæmdanna. Og í þriðja lagi teljum við, að alltaf verði mjög áfátt við þessa löggjöf, hversu skert var áhrifavald framleiðendanna sjálfra um alla framkvæmd þessarar löggjafar.

Hún var reist á þeim grundvelli og allur undirbúningur hennar var gerður á þeim grundvelli þrátt fyrir afskipti ríkisvaldsins af þessari löggjöf, að framkvæmdin yrði sem mest í höndum framleiðendanna sjálfra. Og þetta er í fullu samræmi við þá tilhögun, sem nágrannaþjóðir okkar, Norðmenn og Svíar, sem komið hafa á hjá sér svipaðri löggjöf um sölu mjólkur og rjóma hafa á þessum málum, og kom það skýrt fram hjá hv. 1. flm. þessa frv. við 1. umr.

Ég sagði, að allur undirbúningur undir þess löggjöf hefði verið byggður upp úr þessari hugsun, því það var aðeins til bráðabirgða, að önnur tilhögun átti að vera á stjórn þessara mála, og það bráðabirgðaákvæði, sem sett var inn í l. átti ekki að gilda lengur en 6 mán. tíma. Þótti rétt að hafa þessa heimild í 1., en hinsvegar var alls ekki gert ráð fyrir því, að þessi bráðabirgðaákvæði yrðu notuð lengur en þennan tiltekna tíma, þó hitt hafi orðið ofan á, að öll framkvæmd 1. hefir byggzt á þessu bráðabirgðaákvæði, og þannig hefir verið gengið framhjá því, sem ætlazt var til hvað þetta snertir við afgreiðslu þessarar löggjafar hér á þingi. Ég ætla, að það megi með fullum sanni segja, að þeir árekstrar, sem hafa orðið við framkvæmd þessara l., eigi rót sína að rekja til þess, að tilhöguninni um framkvæmd þessa máls hefir verið haldið á þessum grundvelli, í stað þess að fara þá leið sem upphaflega var ætlazt til að farin yrði, að láta framleiðendurna sjálfa hafa hana sem mest á sinni hendi.

Hitt er annað mál, að þegar um það er að ræða nú, að gera breyt. á þessari tilhögun, þýðir ekki að fara langt út í það, hvernig framkvæmdin hefir orðið á þessum málum, eða taka upp deilur um það, en þó er sjálfsagt við hina nýju endurskoðun að hafa hliðsjón af því og reyna að sneiða framhjá þeim agnúum, sem hafa orðið til þess, að um þetta hefir staðið meiri styr en annars hefði þurft að vera. Og hvernig sem litið er á einstök atriði þessa máls, þá eru vitaskuld allir á eitt sáttir um það, að æskilegast sé, að sem bezt samkomulag geti orðið um framkvæmd þessarar löggjafar, að því er snertir að tryggja hag framleiðendanna, og stærsta atriðið í því er það að geta verið í góðum friði og sátt um allan framgang þessa máls við neytendur þessarar vöru. Við minni hl. n. viljum þess vegna óska og vona, að við getum átt gott samstarf, fyrst og fremst við meðnm. okkar og svo aðra hv. þdm. sem láta sig þetta mál nokkru skipta, um það, að taka þetta til athugunar og fá á því þá lausn, sem yrði heppilegust fyrir rekstur og framkvæmd alls þessa máls. Þetta biður nú allt 3 umr., og ég get lofað því f. h. okkar minni hl., að við munum gera það, sem við getum í þessu efni, þótt við vitanlega getum ekki fellt okkur við aðra úrlausn en þá, sem við teljum til bóta og allir aðiljar geta unað sæmilega við.

Hv. þm. Mýr. talaði hér um það, að það væri nokkuð mikið úr því gert í umr. munna á meðal og þá ekki sízt af þeim, sem hér ættu hlut að máli (þeim, sem búa í námunda við Reykjavík) hvað hlutur þeirra yrði miklu verri, eftir að þessi tilhögun væri komin á, heldur en undir því fyrirkomulagi, sem þeir nú búa við.

Í þessu sambandi minntist hv. þm. á, að það væri allmikill kostnaður við að flytja afurðirnar frá þeim mjólkurbúum, sem eru í nokkurri fjarlægð frá aðalsölustaðnum, Rvík, og þessi kostnaður legðist á þá, sem fjær búa. En í skjóli þess, að þeir, sem í námunda við Rvík búa, þyrftu ekki að taka á sig neinn slíkan kostnað, þá nytu þeir hlunninda, sem hann var með nokkurn útreikning um, hversu mikils virði væru fyrir þá, og færði það út á þeirra búskaparsvið, þó að hann hlypi yfir atriði, sem skiptir allmiklu fyrir þá, sem búa í námunda við Rvík. Ég vil aðeins benda á það, að þegar hv. þm. Mýr., frsm. meiri hl., hélt sína ræðu hér á Alþingi í fyrra, horfði þetta mál eins við og nú hvað þetta snertir, og þó gerði hann ráð fyrir þeim alvarlegu afleiðingum, sem af þessu hlytist fyrir þá menn, sem búa hér í nágrenni Reykjavíkur, og hann var að bjóða liðveizlu sína til þess að greiða fram úr þessum vandræðum með sérstökum ráðstöfunum. En nú gekk hann framhjá þeim aðstöðumun, sem hér kemur til greina, sem er það, hvað ræktun hér í kringum Rvík er miklu erfiðari og dýrari en sumstaðar annarsstaðar, og þar af leiðandi heyöflun líka. Þennan aðstöðumun, sem er hjá þeim, sem búa nálægt Rvík, og hinum, sem fjær búa, t. d. fyrir austan fjall, undirstrikaði hv. þm. rækilega í ræðu sinni á þinginu í fyrra, þegar hann var að deila á hv. 1. þm. Árn. fyrir ummæli, sem hann lét falla og þar sem hann vildi gera lítið úr þessu atriði.

Annað atriði, sem hv. þm. Mýr. gekk líka framhjá nú, en kom inn á í ræðu sinni í fyrra, þegar hann var að verja sig og sína sveit, er viðvíkjandi beitinni. Hann deildi þá við hv. 1. þm. Árn. um það, hvað hagarnir væru lélegir hér í kringum Rvík yfir sumarið, og þegar kýrnar gætu á öðrum stöðum skilað fullri nyt af því fóðri, sem þær sæktu í hagann, þá væri svo ástatt hér víða, að það yrði að gefa þeim kjarnfóður, til þess að þær skiluðu sæmilegum arði yfir sumarið. — Þessi tvö atriði vantaði í þann útreikning, sem hv. þm. Mýr. var að gera, og ég veit, að þessi atriði eru nokkuð þung á metunum, þegar á að bera þetta hvorttveggja saman. Hitt er mál út af fyrir sig, hvort það sé réttlætingarvert að láta þá, sem búa í námunda við Rvík, njóta þess aðstöðumunar í betra verðlagi, þó að skilyrðin séu þar erfiðari til mjólkurframleiðslu. Og mér finnst að það eitt réttlæti þetta, að þessir menn eru það nærri mjólkurmarkaðinum, að þeir geta veitt tryggingu fyrir því, að hægt sé að fullnægja þessum markaði á hverjum tíma, eftir því sem ræktun og mjólkurframleiðslumöguleikar tilláta; það sé þessi aðstaða, sem réttlæti það, að þeir njóti hærra verðs en hinir, sem fjær búa og geta ekki nema á sumum tímum fullnægt þörfinni fyrir mjólk í kaupstöðunum. Það er þessi aðstöðumunur, sem hefir skapað allt verðgildi fasteigna og hefir þótt rétt að byggja á og byggt hefir verið á lögum samkvæmt, sem staðfest hafa verið af stjórnarráði og Alþ. Það er þessi aðstöðumunur, sem lagður er til grundvallar þessu verðmætamati, og hvort það sé rétt eða rétt ekki að viðurkenna það, þegar um er að ræða mál eins og þetta mjólkurmál og hvað sanngjarnt sé, að hver um sig beri úr býtum fyrir þá mjólk, sem hann sendir á markaðinn; það er atriði, sem er fullkomlega vert þess, að það sé tekið til athugunar. Það er hreint og beint þjóðfélagsmál, og röskun á þessu þjóðfélagsmáli er líka atriði, sem þarf að athuga gaumgæfilega við setningu löggjafar í sambandi við þá löglegu staðfestingu, sem fyrir liggur í fasteignamatinu.

Það er svo ekki fleira, sem ég hefi um þetta að segja að svo stöddu, og sennilega ekki við þessa umr. Og þar sem engar brtt. liggja hér fyrir, þá skilst mér, að frekari umr. um þetta mál geti beðið þess, að þær komi fram, þegar það er búið að sýna sig við atkvgr. hér í d., að þetta frv. eða sú hugsun, sem það er byggt á, eigi að lögleiðast á þessu þingi, og út frá því mun aðstaða okkar minni hl. til brtt. verða, svo sem ég hefi drepið á.