06.12.1937
Neðri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Emil Jónsson:

Ég verð að hafa nokkurn veginn sama formála fyrir mínum fáu orðum og hv. þm. Mýr., að ég mun ekki að þessu sinni geta komið inn á einstakar gr. frv., heldur tala almennt um það, því það hefir orðið að samkomulagi að láta málið ganga áfram við þessa umr., en brtt. komi fram við 3. umr. En ég áleit sjálfsagt að láta ekki málið ganga svo framhjá þessari umr., að ég gerði ekki grein fyrir afstöðu minni og Alþfl.

Um afstöðu Alþfl. áður til þessa máls er vitað, og ég þarf ekki að fara um það mörgum orðum. Við höfum tekið á okkur að nokkru leyti ábyrgðina á því að koma þessum l. á, og við höfum bjargað þeim, þegar þau voru sem hættast komin fyrir árásum andstæðinganna, þannig að við eigum í þeim mikinn þátt. Og ástæðan fyrir því, að við vildum styðja þau var í fyrsta lagi sú, að við töldum að með því mundi fást veruleg lækkun á dreifingarkostnaðinum, í öðru lagi jöfnun á útborgunarverði til framleiðenda, og í þriðja lagi auknir hollustuhættir fyrir þessa framleiðslu. Af þessum ástæðum öllum fylgdum við l. í upphafi og stóðum að því að bjarga þeim, þegar þau voru í hættu. En við vorum í nokkrum vafa á síðasta þingi, hvort það bæri að fylgja fram, eins og á stóð, þeim breyt., sem þá voru bornar fram við l. og nú eru bornar fram á ný. Ástæðurnar fyrir því, að við vorum í nokkrum vafa um það, hvort við vildum fylgja þessum breyt., voru þær, að við töldum þær í sumum greinum ganga svo langt, að e. t. v. væri þessu skipulagi, sem fengizt hafði góð reynsla fyrir, stefnt í voða, ef þær yrðu að 1. Við töldum því tryggara að ganga ekki inn á þessar breyt.

Í öðru lagi töldum við, að með þessari lagasetningu, sem hér var farið fram á, væri ekki náð þeim höfuðtilgangi sem ætti að stefna að í þessum málum, en það væri að auka mjólkurneyzluna, því þar, sem skórinn kreppir helzt og mest að, er það af því, að mjólkurframleiðslan hefir á síðustu árum aukizt svo mikið, að neyzlumjólkurmarkaðurinn hefir ekki getað torgað þeirri framleiðslu allri, heldur hefir svo og svo mikið af mjólk orðið að fara til vinnslu og mestur hluti vörunnar farið til útlanda fyrir lágt verð. Til þess að jafna verðmuninn á útflutningsvörunni og neyzlumjólkinni hefir svo meginhluti verðjöfnunargjaldsins farið. Og eftir því sem stærri hlutur verður notaður á þennan hátt, verður munurinn meiri, og þar með þarfirnar fyrir útjöfnuð, en mundi vera, ef neyzlumjólkurmarkaðurinn gæti stækkað. Fyrir okkur Alþflm. vakti því að gera ráðstafanir til þess að fá neyzlu mjólkur eitthvað aukna. Till. okkar voru því, í samræmi við þetta álit okkar, þær, að gera ráðstafanir til þess að skapa ýmist nýja markaði innanlands fyrir mjólk, og í öðru lagi að gera ráðstafanir til þess, að neyzlu mjólkurmarkaðurinn gæti aukizt. Till. okkar um að skapa nýjan markað innanlands komu fram í frv., sem ég flutti um heimild fyrir ríkisstj. til að fyrirskipa þurrmjólkurblöndun í brauð, og það er nú flutt á ný á þessu þingi af mér og hv. 1. þm. Rang. Með þessu frv., ef að l. verður, er tryggður allverulegur nýr markaður fyrir mjólk og mjólkurafurðir, þar sem til blöndunar í brauð þarf allmikla mjólk. Sömuleiðis til iðnaðarþarfa mætti nota mjólkurduft, sem nú er keypt frá útlöndum.

Ef nú, eins og ég segi, þetta frv. verður að l., sem líkur eru til og von um, þar sem landbn. hefir óskipt lagt til, að frv. verði samþ., tel ég. að með þeirri ráðstöfun sé stigið stórt spor við að skapa nýjan markað og verulegan fyrir mjólk.

Það hefir komið fyrir, og nú í haust síðast og oft áður, að það hafi ekki fengizt nægilegt smjör frá mjólkurbúum landsins. Smjörframleiðslan hefir ekki getað verið meiri en svo. að það hefir ekki verið hægt að uppfylla þær lágmarkskröfur, sem hafa verið um íblöndun smjörs í smjörlíki, þannig, að ef hægt væri að fá markað fyrir undanrennu, til að búa til þurrmjólk úr, mætti nota mikið af mjólk til að auka smjörframleiðsluna. Ég lít þess vegna svo á, að með þeirri ráðstöfun, sem gerð er í frv. um stofnun þurrmjólkurvinnslustöðvar í sambandi við aukningu smjörframleiðslunnar, ætti að vera hægt að losna við mjólkurvöruútflutninginn að tilsvarandi leyti, en það er hann, sem gleypt hefir mestan hluta verðjöfnunargjaldsins.

Um hitt atriðið, að auka neyzlumjólkurmarkaðinn með því að lækka verðið á mjólkinni, hefir ekki náðst samkomulag við Framsfl. Þeir telja sig ekki geta gert það. Við höldum aftur á móti hinu fram, að væri verðið að einhverju verulegu leyti lækkað á mjólk, þannig að almenningi væri gert kleift að kaupa meira en nú, mundi neyzlan aukast til muna frá því, sem nú er, og þannig myndi meira mjólkurmagn komast í hærri verðflokk en nú.

Það er langt frá því, að okkar mjólkurneyzla sé komin upp í það lágmarksmagn, með tilliti til þess að hægt sé að segja, að almenningur hafi nægilega mjólk, borið saman við önnur lönd. Mér hefir verið sagt, að á Norðurlöndum væri mjólkurneyzlan 50% meiri en hér. Ég sé, að hv. 1. þm. Rang. hristir höfuðið yfir þessu. En ég skal skýra þetta nánar. Það má vel vera, að honum komi þetta ókunnuglega fyrir. En ég hefi það eftir sænskum hagfræðingi, að mjólkurneyzlan á hvern Íslending sé 30% minni en annarsstaðar á Norðurlöndum. Bezta lausnin til þess að bæta úr þeirri mjólkurofframleiðslu, sem orðin er hér hjá okkur, er því sú fyrst og fremst, að auka mjólkurneyzluna í landinu sjálfu, og í öðru lagi þarf að afla mjólkurafurðunum nýrra markaða erlendis.

Höfuðatriði frv. þessa er það, að verðjöfnunargjaldið á samkv. því að vera breytilegt og ótakmarkað. Því verður ekki neitað, að það liggur nokkur hætta í því að hafa gjaldið ótakmarkað, þar sem þá ríður svo mjög á því, hvernig framkvæmdirnar verða. Eins og drepið hefir verið á, þá þarf meira verðjöfnunargjald til þess að bæta upp þær vörur, sem seldar eru á erlendum markaði en innlendum. Hér verður framkvæmd afurðasölunnar það meginatriði, sem allt veltur á. Um það, hversu verðjöfnunargjaldið kemur til með að verða, liggja engir útreikningar fyrir, en búast má við, að hækkunin geti orðið allt að 3–4 aurar á hvern lítra.

Hvað snertir afstöðu okkar jafnaðarmanna til þessa máls, þá eigum við hægara með að fylgja þessu frv. en frv. því til breyt. á mjólkurlögunum, sem borið var fram í fyrra, því að nú hefir verið gengið inn á þau atriði í sambandi við þetta mál, sem draga úr þeirri hættu, að verðjöfnunargjaldið hækki eins mikið og það óneitanlega hefði gert samkv. frv. í fyrra.

Ég mun ekki að þessu sinni ræða einstök atriði frv. En ég býst við, að við 3. umr. komi fram eitthvað af brtt., og mun þá eflaust gefast tækifæri til þess að ræða frv. frekar.

Að endingu vil ég svo undirstrika það, að skipulag mjólkursölunnar hefir án efa orðið til ávinnings fyrir alla aðilja. A. m. k. hafa bændur fengið meira fyrir framleiðslu sína en þeir hefðu fengið annars. Það verður því að leggja höfuðáherzluna á, að á engu sviði sé gengið svo langt, að skipulaginu sjálfu geti staðið hætta af; m. a. verður að gæta þess, að verðjöfnunargjaldið verði ekki sett svo hátt, að það geti dregið úr neyzlu mjólkurinnar. Og að síðustu vil ég segja þetta, að ég tel mig ekki bundinn við að fylgja frv., ef ég sé, að vegna ákvæða þess sé skipulaginu hætta búin.