06.12.1937
Neðri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Frsm. meiri hl. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég þarf ekki mörgu að svara því, sem til mín hefir verið beint síðan ég talaði áðan. Ég verð aðeins lítillega að minnast á nokkur atriði ár ræðu hv. þm. Borgf., þó hann sé farinn af fundi, enda hefir hann sett mann til að svara í staðinn fyrir sig.

Hv. þm. minntist á, að svo gæti farið, væri þessum lögum breytt samkv. frv., að leita yrði hjálpar fyrir þá bændur á fjárpestarsvæðinu, sem framleiða mjólk á þessu sölusvæði, vegna þess, að jafna ætti verðinu lengra og lengra niður eftir því, sem mjólkurframleiðslan vex. Ég verð að benda hv. þm. á, að mikill munur er fyrir þessa menn, hvort verðinu er aðeins jafnað niður á þá, sem búa á fjárpestarsvæðinu, eða hvort þeir, sem búa annarsstaðar, taka líka þátt í því, eins og yrði samkv. þessu frv.

Þá minntist hv. þm. á þann mikla flutningskostnað, sem væri á mjólk, fluttri til Reykjavíkur. Það er rétt. Einnig þurfa einstaka bændur að kosta miklu til við flutning mjólkurinnar til vinnslubúanna, og svo búin aftur til Reykjavíkur, en nú fá þeir þann hluta flutningsgjaldsins endurgreiddan samv. þessu frv., og það munar afarmiklu. Nú skiptir nokkur hluti bænda í Borgarfirði beint við mjólkurstöðina í Reykjavík, og hafa þeir háan flutningskostnað, en sama er líka að segja um suma bændur austanfjalls; þeir þurfa áreiðanlega að greiða 5 aura fyrir lítrann í flutningskostnað, en nú verður endurgreiddur það mikill hluti þessa kostnaðar, að miklu meiri jöfnuður verður á eftir en áður milli þeirra, sem fjær búa, og hinna.

Ég vil leiðrétta það, sem hv. þm. sagði um, hvenær málið hefði verið tekið fyrir í landbn. Nokkru eftir að málið kom til n. ræddi ég um það á fundi, án þess að nokkuð væri bókað, hvort menn vildu ekki taka málið til athugunar heima hjá sér, svo þeir hefðu sínar brtt. tilbúnar, þegar málið yrði tekið fyrir á fundi 25. nóv., og ætlaðist ég til, að menn hefðu gert það, þegar að fundi kom, en svo reyndist ekki. Þá var óskað eftir, að hv. aðalflm. kæmi á næsta fund til að ræða um frv. Þetta var gert, en þá kom hv. þm. Borgf. ei á fund, svo honum a. m. k. varð lítið gagn að þeim upplýsingum, sem flm. gaf. Á næsta fundi ætlaðist ég til, að nm. hefðu brtt. sínar tilbúnar, en þá var ekki hægt að ná samkomulagi um þær. Það var líka reynt á næsta fundi, en lengur gat ég ekki beðið með afgreiðslu málsins, svo ég get ekki tekið það til mín sem formanns, að málið hefir ekki verið afgr. fyrr en þetta, nema að því leyti, að ég reyndi til, að n. gæti staðið saman um till. sínar. Út af þeim orðum, sem hv. þm. Borgf. beindi til okkar framsóknarmanna viðvíkjandi afskiptum hv. 1. þm. Rang., datt mér í hug, að þegar þeir tveir hv. þm. ættust orðastað við um þetta mál, væri það líkt því, er viss höfðingi hittir ömmu sína, svo hvorugur mun eiga hjá hinum.