09.12.1937
Neðri deild: 45. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Frsm. meiri hl. (Bjarni Ásgeirsson):

Hér hafa verið lagðar fram brtt. við frv. frá meiri hl. landbn. Ég hefi borið þær undir hv. þm. Borgf., og virtist mér hann vera samþ. þeim flestum, þótt ekki sé hann meðfl. að þeim. A-liður 1. till. er á þá leið, að því er bætt inn í, að mjólkursölunefnd verði að ákveða sem sölusvæði þá kaupstaði og kauptún, þar sem dagleg sala mjólkur fer fram.

Þá er b-liður, um að upphaf 3. málsgr. orðist svo: „Tekjuafgangur mjólkursölu skal renna“ o. s. frv., í stað: „Tekjuafgangur mjólkurbús eða mjólkursamsölu á sölusvæðinu skal renna“ o. s. frv. Ég vil taka það fram, að „mjólkursölu“ er prentvilla, í stað „mjólkursamsölu“. Margir skildu þetta ákvæði í frv. svo, að tekjuafgangur ætti allur að renna í verðjöfnunarsjóð, en hér er þetta ljósar orðað. — Brtt. 1. c. er aðeins orðabreyt.

Þá er d-liður. Hann er á þá leið, að eftir orðunum „í stöðvargjaldi búsins“ komi nýr málsl., svohljóðandi: „Flutningskostnaður þessi, bæði á mjólk og mjólkurafurðum, skal ákveðin fyrirfram af mjólkursölunefnd svo oft sem hún telur ástæðu til, þannig, að hann sé sem næst raunverulegum kostnaði á hverjum tíma, og með hæfilegri hliðsjón af reynslu undanfarandi ára“. Hér er ætlazt til, að mjólkursölunefnd geti ákveðið flutningskostnaðinn fyrir hvert tímabil, þannig, að bilið milli vinnslu- og neyzlumjólkur verði hærra að vetri en sumri, það gæti orðið til þess að auka, eða, ef svo mætti að orði komast, „stimulera“ mjólkurframleiðsluna vestan heiðar yfir veturinn, en draga úr henni yfir sumarið, sem er ekki nema eðlileg verkaskipting milli þessara tveggja aðilja, því að það er eðlilegra að framleiða mjólk hér á vetrum, þegar samgöngur eru örðugar, en þær eyður, sem koma í framleiðsluna hér, séu heldur að sumarlagi, og fer þetta saman við hagsmuni þeirra, sem búa vestan heiðar, því að þeim er eðlilegri framleiðslan að vetri en sumri vegna hinna lélegu haga, sem hér eru, og því erfitt að halda uppi góðri nyt í kúm yfir sumarið.

Þá er e-liðurinn, sem sé að upphaf 4. málsgr. orðist svo:

„Stöðvar- og vinnslukostnaður skal talinn jafn hjá öllum mjólkurbúum á sama verðjöfnunarsvæði fyrir hverja vörutegund, sem þau framleiða, en slíkan kostnað“ o. s. frv. Þetta er aðeins til þess að skýra frekar það, sem í gr. stendur, en ekki til þess að breyta efni hennar. Það, sem átt er við, er, að í öllum búum skuli reikna sama gjald fyrir vinnslu á hverri vörutegund út af fyrir sig, þannig að öllum búum er reiknað sama vinnslugjald fyrir smjör út af fyrir sig, fyrir ost út af fyrir sig og fyrir rjóma út af fyrir sig, og svo verði það þeirra halli eða ábati, hvort þau geta rekið búin fyrir lægra eða hærra gjald en þar er ákveðið.

Þá kemur f-liður, að aftan við 1. málsgr. 3. gr. bætist: „miðað við bæjarlöndin eins og þau eru nú“, m. ö. o., að sú undanþága, sem þeim er gefin, sem búa á bæjarlandinu, sé bundin því, að bæjarlöndin séu ekki færð út frá því, sem nú er, þannig að undir þetta komi kannske heil sveitarfélög til viðbótar, sem nú liggja fyrir utan bæjarlöndin. Ef þessi varnagli væri ekki sleginn, væri hægt að bæta við heilum sveitarfélögum.

Þá kemur g-liðurinn, sem er aðeins umorðun á síðustu málsgr. 1. gr. frv. og um það, að þeir framleiðendur, sem búa á sölusvæðinu, þ. e. a. s. á bæjarlandinu og ekki hafa leyfi til sölu beint til neytenda, fái eins eyris uppbót á hvern lítra af þeirri mjólk, sem þeir selja jafnt allt árið. Tilgangurinn með þessu er sérstaklega sá, að reyna að örva mjólkurframleiðsluna á því tímabili, sem hún er minnst, því að það hefir komið fyrir, að mjólkurskortur hefir orðið svo mikill, að ekki hefir verið hægt að fá nægilega mjólk til skyrgerðar og rjómasölu borið saman við það, sem eftirspurnin hefir krafizt.

Þess vegna er það út af fyrir sig nauðsyn að reyna að jafna framleiðsluna, svo að ekki verði skortur á mjólk á neinum tíma ársins, og það geri þannig, að það gangi yfir á það tímabil, sem mjólkin hefir verið mest, og miklu meiri en góðu hófi gegndi vegna framboðsins og þeirra, sem hafa þurft að koma henni út. M. ö. o., það hefir orðið svo lítið úr mjólkinni vegna vinnslunnar á þessu tímabili, að full ástæða er til að draga úr, að hóflaust sé framleitt vissa árstíma, en aftur skorti mjólk vissa árstíma. Ég hefði óskað, að þessu hefði verið breytt þannig að í staðinn fyrir að greiða ákveðna upphæð fyrir meðalmagn, hefði átt að greiða hærra gjald fyrir mjólkina ákveðinn tíma ársins, þegar helzt skortir mjólk, en ég komst ekki að samkomulagi um það við hv. 7. landsk., sem hélt nokkuð fast í þetta ákvæði, og gekk ég og meiri hl. inn á að láta þetta standa, gegn því, að við bættist annað viðbótarákvæði, sem nær til þeirra manna, sem framleiða mjólk utan sölusvæðisins, og kemur það hér sem h-liður í brtt. við 1. gr. og ef þannig:

„Fyrir það mjólkurmagn, sem framleitt er utan sölusvæðis og selt er af sölusamtökum á því, mánuðina okt.–des., skal greiða 1 eyri á lítra umfram jöfnunarverð þá mánuði. Einnig er mjólkursölunefnd heimilt að fyrirskipa mjólkurbúum að mismuna í útborguðu verði til framleiðenda eftir árstíðum, ef hún telur nauðsyn á, til að fullnægja markaðsþörfinni.“

Ég skal geta þess, að í þessum lið er prentvilla; stendur þar „verðjöfnunarverð“ í staðinn fyrir jöfnunarverð. Verður að lagfæra það í umprentun.

Þessi ákvæði stefna bæði að því sama, að auka mjólkurframleiðsluna á því tímabili, sem hún er minnst, dýrust og örðugust. Þessar aðferðir hafa báðar verið notaðar áður af Mjólkurfélagi Reykjavíkur, og á vissu tímabili fylgt þeirri reglu, að borga fullt verð út fyrir þá mjólk, hversu mikil sem vinnslan var, sem nam því, sem menn höfðu haft yfir haustmánuðina, og á þennan hátt var mjólkurframleiðslan á þessu tímabili stóraukin, en síðar var þessari reglu breytt þannig, að í staðinn fyrir meðaltalsákvæðið var þeirri reglu fylgt, að borga meira fyrir haustmánuðina, og það hefir verið gert til skamms tíma. Þess vegna er reynsla fengin fyrir því, að báðar þessar reglur hafa orðið til þess að „stimulera“ mjólkurframleiðsluna fyrir það tímabil, sem aðallega er dauður punktur í framleiðslunni, en það eru haustmánuðirnir. Við í meiri hl. berum þessa till. fram til samræmis fyrir þá, sem búa utan sölusvæðisins, til samræmis við þau hlunnindi, sem þeir fá, sem búa inn á sölusvæðinu, með þeirri uppbót, sem þeir fá á meðaltalsmjólk ársins. Ég hefði frekar óskað þess, að sama ákvæði hefði náð yfir hvorttveggja, en ég tel, að það ákvæði, sem hér er bætt við, nái fremur tilgangi sínum en hitt, vegna þess að ef verðuppbót er bundin víð meðaltalsmjólk, reyna menn alltaf að hafa mjólkina það uppi, að það nái þessu lægsta meðaltali, t. d. reyni menn um sumarmánuðina að komast það hátt upp, að þeir nái haustmeðaltalinu, en það er engin nauðsyn, heldur miklu meir ástæða að herða á framleiðslunni yfir haustmánuðina, án þess að menn séu bundnir við að halda uppi meiri framleiðslu yfir sumarmánuðina. Að því leyti verkar brtt. okkar í h-lið frekar í þá átt, sem ætlazt er til, að örva framleiðsluna yfir haustið, að það er sama, hvað þeir framleiða mikið yfir það tímabil, þá fá þeir eins eyris uppbót fyrir það, þó að dragi úr framleiðslunni hjá þeim á öðrum tíma ársins, og jafnvel þó hún færi niður í ekki neitt.

Þá er seinni hluti brtt. „Einnig er mjólkursölunefnd heimilt“, o. s. frv. Þetta ákvæði stefnir í sömu átt, þá átt, að ef ekki næst nægilegur jöfnuður á framleiðsluna með þessum tveimur ákvæðum, sem ég hefi nefnt, þá geti n. fyrirskipað búunum ennfremur að borga mjólkina tiltölulega hærra verði vissar árstíðir heldur en aðrar, til þess að ýta undir að fá meiri mjólk inn á markaðinn, sem nauðsynlegt er, ef hætt er við, að framleiðslan verði of lítil, eins og komið hefir fyrir á haustin. Ef þetta ákvæði hefði þá verið í l., þá hefði verið hægt að koma því þannig fyrir, að framleiðendunum hefði verið greitt hærra fyrir haustmjólkina en gert var, — reyndar á kostnað þeirrar mjólkur, sem síðar kom, — aukið þannig framleiðslu haustsins, svo að eftirspurninni hefði frekar verið fullnægt heldur en raun varð á í haust. Þetta getur vitanlega alltaf komið fyrir, og þess vegna sá n., að ekki var nema sjálfsagt að gefa mjólkursölunefnd heimild til að gera þessar ráðstafanir, ef á þyrfti að halda.

Þá er brtt. við 3. gr. Þar orðum við um 2. málsgr. 5. gr. í núgildandi l. Ég ætla að lesa alla brtt. eins og hún liggur fyrir. Hún er svona, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt skal þó mjólkursölunefnd að leyfa þeim, er framleiða mjólk innan lögsagnarumdæma kaupstaða, að velja um, hvort þeir afhenda sölumjólk sína til sölusamtakanna og njóta undanþágu verðjöfnunargjalds samkv. 2. gr., eða selja mjólk sína beint til neytenda innan lögsagnarumdæmisins og greiða af henni verðjöfnunargjald eftir því sem mjólkursölunefnd ákveður það á hverjum tíma“. Þetta er svo að segja orðrétt nema niðurlagið, þar sem tekið er fram, að þeir skuli greiða verðjöfnunargjald, eftir því, sem mjólkursölunefnd ákveður það á hverjum tíma, en það er til samræmis við þær breyt., sem eru við 2. og 3. gr. l., því að áður var ákveðið víst verðjöfnunargjald, sem ekki varð breytt, en ef frv. verður samþ., verður hægt að breyta því, og við það er átt með þessari brtt.

Þá er áframhald brtt., sem er svo hljóðandi: „Skal þá verðjöfnunargjaldið miðað við 3000 lítra ársnyt úr hverri kú í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur og Hafnarfjarðar“. Þetta er líka óbreytt frá því, sem er í l. Svo kemur niðurlagið. „Hafi hinsvegar meðalársnyt í öðrum þeim lögsagnarumdæmum, þar sem sölusvæði er ákveðið, reynzt lægri samkv. skýrslum nautgriparræktarfélaga þar, skal gjaldið miðað við það“.

Ég skal taka fram til skýringar á ákvæðinu um þessa 3000 lítra ársnyt, að hún er neðan við það, sem er í þessum tveimur lögsagnarumdæmum, en það var gert til tilhliðrunar við þá menn, sem búa á bæjarlandinu, að færa hana niður í 3000 lítra. En viðbótin við brtt. er fram komin m. a. fyrir kröfu hv. þm. Ak. Það mun hafa sýnt sig á Akureyri, að meðalársnyt er ekki svona há, og eins gæti verið, að sölusvæðunum yrði síðar meir fjölgað, og gæti vel verið, að meðalársnyt yrði þar minni en 3000 l. og þykir n. rétt, að þar sé miðað við þá raunverulegu nythæð, sem er á hverjum stað.

Þá er breyt., sem var í frv. og við breytum einnig, en það er heimild til að undanskilja til heimilisnotkunar ½ lítra á dag fyrir hvern heimilismann. Þetta er nýtt ákvæði, en lá fyrir í því frv., sem hér er til umr., og n. hefir ekki breytt því út af fyrir sig, en leggur til að bæta því við, að í þessu sambandi teljist þeir til heimilismanna, er framleiðandi hefir á framfæri, svo og hjú hans, enda tilkynni hann tölu heimilismanna og færi sönnu á hana eftir því sem sölustjórn ákveður. Þetta ákvæði er aðeins til öryggis, til þess að menn fari ekki að telja heimilismenn fleiri en þeir eru.

Þá er 3. brtt., sem er aðeins smálagfæring við 2. málsgr. 4. gr., að í staðinn fyrir „sá, er flutninginn annast, eða aðrir“, komi sá, er flutninginn annast, og aðrir. Þetta er gert til að orða það skýrt, að ef mjólkurvörur eru fluttar óleyfilega inn á sölusvæðið, skuli sektir ekki aðeins koma fram á þeim, sem vöruna flytja, heldur einnig þeim, er meðsekir reynast. Þetta er aðeins smáleiðrétting.

Eins og hv. þdm. sjá, er nokkuð mikið af þessum brtt. aðeins formsbreyt., sem gera ýmis ákvæði frv. skýrari en áður. Eina till., sem felur í sér efnisbreyt., er sú, að bætt sé við þessari eins eyris uppbót hjá þeim, sem selja utan bæjarlandsins. Sömuleiðis er skýrar tekið fram, hvernig skuli reikna flutningskostnaðinn, og með tilliti til þess, að ekki skuli reiknaður meðaltalsflutningskostnaður yfir allt árið, heldur mismunandi fyrir ýmis tímabil ársins, þannig að reiknaður sé hærri á vetrum en sumrum, munurinn milli vinnslumjólkur og sölumjólkur, en þetta verður til þess, að eðlileg verkaskipting myndast, þannig að nærliggjandi búin taka að sér framleiðslu sölumjólkurinnar að vetri til, en hleypa hinum búunum inn á sumarsöluna. eftir því sem ástæður eru fyrir hendi.