18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

1. mál, fjárlög 1938

*Héðinn Valdimarsson:

Ég vil leyfa mér að minnast á nokkrar brtt., sem hér hafa komið fram, og 2 till., sem ég stend að sjálfur. Aðra till. flyt ég einn, en hina með 2 öðrum þm.

Till., sem ég flyt einn, er við 18. gr., um að fella niður fjárveitingu til Guðmundar Kambans. Í því sambandi vil ég geta þess, að Guðmundur Kamban er ekki lengur búsettur hér á landi. Hefir hann í því efni sömu aðstöðu og t. d. Gunnar Gunnarsson, en þeir af rithöfundum okkar, sem eru beinlínis búsettir erlendis, eru ekki teknir upp í 18. gr. fjárl. Í öðru lagi hefir Guðmundur Kamban haft nokkrar aukatekjur frá því opinbera með sérstökum hætti, bæði árið 1930 og líka fyrir 1–2 árum, þegar hann ætlaði að koma hér upp kvikmynd, sem hann gekk ekki vel frá. Í fyrra sinnið varð ekki neitt úr neinu, en síðari myndin var ekki send út, af því að hún misheppnaðist, og nú hefi ég frétt, að hann og þýzkur maður, sem vann að þessu með honum, hefðu selt myndina kvikmyndafél. fyrir 5–6 þús. mörk. Þetta ættu að vera nægilegar aukatekjur fyrir hann.

Seinni till. er um að ríkið kaupi á næsta ári eignina Amtmannsstíg 1 í Rvík. Eins og hv. þm. muna, var það ákveðið árið 1930 með þál., að stj. keypti lóðirnar í Ingólfsbrekku undir opinberar byggingar. En þá fékkst ekki keypt eign Guðmundar sál. Björnssonar. Nú vilja erfingjar hans selja eignina. Það þarf ekki að greiða útborgun, heldur gefa skuldabréf. Ef þessi eign verður keypt, fæst samfelld röð af lóðum á þessum fagra og hentuga stað.

Þá vil ég minnast á till. djvn. við 14. gr., um 4500 kr. greiðslu til séra Björns Magnússonar. Hv. fjvn. hefði ekki átt að bera hana fram öll, heldur var þetta till. meiri hl. Því hefir verið lýst yfir af hæstv. atvmrh., að séra Birni mundi verða greidd laun og hann mundi kenna til 15. sept. Eftir samningi við hann á hann að fá rúml. 3500 kr. En af sérstökum ástæðum reiknar meiri hl. þetta 4500 kr. Mér finnst, að ekki hefði átt að víkja frá því, sem greiða átti samkv. samningnum.

Ég vil geta þess, að í fjvn. var ekki samkomulag um ýmsar till., en ég mun ekki gera það að umræðuefni. En ég vil aðeins minnast á Eimskipafél. Kommúnistar vilja fella niður styrk til þess, en þar er ég á annari skoðun. Þar stendur öðruvísi á en um venjuleg atvinnufyrirtæki hér. Um mörg ár hefir ekki verið úthlutað arði, og nú er hann takmarkaður við 4%, og er ekki hægt að segja, að það sé mikið. Nú er ráðgert, að félagið endurbæti skip sín og kaupi ný, og eins er í ráði, að byggt verði stórt skip, sem sé einum degi skemur á milli Englands og Íslands en gömlu skipin. Þá þyrfti það að fá meiri styrk en það hefir nú, en því vildi fjvn. ekki sinna. En ef till. kommúnista yrði samþ. mundi það draga úr félaginu allan kjark.

Þá vil ég minnast á það, að hv. þm. A.-Húnv. fann að því í fjvn., að ekki væri 10% niðurfærsla á fé til atvinnubóta, vinnumiðlunarskrifstofunnar, skuldaskilasjóðs og benzínveganna. Skuldaskilasjóðsféð og benzínvegaféð er lögákveðið, eða a. m. k. hugsa ég, að allir þm. búist við, að þau l. verði samþ., og þá er ekki hægt að taka þar af 10%. Af vinnumiðluninni er hægt að draga 10%, en hvað ætti að draga úr henni? Sumir þm. mundu kannske segja, að hún væri óþörf, út frá sama sjónarmiði og þeir veitast að atvinnubótafénu. En ekki hygg ég, að það yrði vinsælt, og væri nær fyrir okkur að hækka féð. Annars er það ákaflega undarlegt að heyra hv. þm. A.-Húnv. og aðra sjálfstæðismenn tala um sparnað og hvernig þeir vildu hafa fjárl., því að engar sparnaðartill. hafa komið frá þeim, og þeir æskja sízt minni útgjalda fyrir ríkissjóð en aðrir þm., svo að sparnaðartal þeirra er meira í munni en í verki.

Þá á hv. þm. A.-Húnv. eina till. um lækkun á rithöfundastyrk í 18. gr. Þar er allt öðru máli að gegna en um till. mína um Guðmund Kamban. Því hefir verið haldið fram um Halldór Laxness, að hann hefði svo miklar tekjur. Hvað sem um hann má segja, er ekki vafi á því, að hann er fremsti skáldsagnahöf. landsins. Mætti því skoða þennan styrk til hans sem nokkurskonar heiðurslaun fyrir ritverk hans, en ekki sem fátækrastyrk. En ég vil geta þess út af tekjum af ritverkum hans, að árið 1936 gaf hann ekkert út og hafði því engar tekjur, því að hann fær bara ritlaun fyrir hverja bók. En af útlendu þýðingunum hefir hann engar tekjur haft enn í dag, vegna l. um rithöfundarrétt.

Þá eru hér nokkrar till. frá kommúnistum, í fyrsta lagi um að auka tekjur verkamannabústaðanna með tekjum tóbakseinkasölunnar. Ég gat þess þegar þetta var til umr., að þetta yrði athugað í Alþfl. og hann hefði áður gert samkomulag við Framsfl. um að fella þetta burt. Þá hafði ekki verið talað við stj., en síðar hefir komið loforð frá hæstv. fjmrh., sem tryggir samskonar uppbót með láni, og við Alþýðuflokksmenn höfum haldið okkur að því samkomulagi. Við eru ekki á móti því, að tekjur tóbakseinkasölunnar gangi til verkamannabústaða, enda er það okkar till., en við gerum þetta til samkomulags.

Þá vilja kommúnistar lækka borðfé konungs niður í 15 þús. kr. Við Alþýðuflokksmenn höfum oft borið fram till. um að fella þennan lið niður, en það er ekki ástæða til að setja nýtt mat um, hvað hann þurfi til borðfjár.

Ýmsar till. þeirra kommúnista eru gagnlegar, ef við gætum framkvæmt þær, en við verðum að miða við þær tekjur, sem við höfum nú. Ég vil t. d. benda á till. þeirra um hækkun til Sogsvegarins. Nú er það svo um benzínskattinn, að það er sérstaklega getið um það, til hvers eigi að nota hann. Rauði þráðurinn í því máli er sá, að aukabenzínskattinum skuli varið til Suðurlandsbrautar, Holtavörðuheiðarvegar, veganna kringum Akureyri og nokkurra fleiri vega, og sé ég ekki ástæðu til þess að rugla því, enda væri það ekki hægt nema l. yrði breytt. Hinsvegar er það sjálfsagt, að eftir því, sem vegirnir verða tilbúnir, komi aðrir vegir inn. T. d. þegar Holtavörðuheiðarvegurinn er tilbúinn, er hægt að taka þær 25 þús. kr., sem þar eru bundnar, til einhvers annars stórvegar.

Ég fyrir mitt leyti hefði óskað þess líka, að töluvert meira hefði verið lagt í Sogsveginn heldur en gert hefir verið af hv. fjvn., en hún hefir þó sett þar 1500 kr. í stað þess, að þar var ekkert eins og frv. lá fyrir. En það er ekki svo, að það fari ekki nema þessar 15000 kr. í þetta, því að auk þess mun bærinn leggja fram ¼ þar á móti, svo að það verða 20000 kr., og þar að auki hefir unglingavinnuféð farið þangað á móti jafnmiklu framlagi frá bænum. Fyrst minnir mig, að sett hafi verið sérstök aths. um þetta, en þess hefir ekki þurft nú í seinni tíð, og ég hefi talað við borgarstjórann í Rvík, og hann hefir sagt, að sá flokkur, sem hefir meiri hl. í bæjarstj., mundi enga breyt. hugsa sér á því til lækkunar. Svo að þarna mundu koma 50000 kr. í þennan veg, og mundi hann þá, a. m. k. án þess að auka þyrfti mjög mikið fjárveitingu til hans á næstu árum, verða kominn að hraunveginum til Þingvalla, en þá er töluvert mikið eftir af honum, því að það þarf að breyta veginum þaðan til Þingvalla, og til þess að geta haft hann sem varaveg fyrir Suðurlandsundirlendi, þarf að breyta veginum nálægt Kárastöðum, setja hann niður að vatninu og koma honum framhjá Almannagjá. Það kostar dálítið fé, en ég er sannfærður um, að þegar þessu verki er lokið á nokkrum næstu árum, þá er þarna allgóður vetrarvegur í flestum tilfellum, og ef Suðurlandsbrautin kemur líka, þá er nokkurnveginn öruggt, að hægt sé að komast þessa leið, hvernig sem veturnir verða.

Viðvíkjandi öðrum till., sem fram eru komnar, held ég, að ég hafi ekkert verulegt að segja annað en það, að ég vil geta þess viðvíkjandi till. á þskj. 428, XXXV, um ábyrgð til þess að kaup ný dieselmótorskip, að í þeim samningi, sem stjfl. hafa gert, hefir samhliða því, sem talað hefir verið um togaraútgerðina, einnig verið talað um kaup á vélbátum, og enda þótt það hafi í þetta sinn ekki komizt lengra, geri ég ráð fyrir, að þessu máli verði á sínum tíma haldið vakandi. En í þetta sinn munum við halda okkur við þá afgreiðslu á fjárl., sem við höfum komið okkur saman um.