09.12.1937
Neðri deild: 45. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

Jakob Möller:

Ég hefði óskað, að hér hefðu verið viðstaddir fleiri af þm. Alþfl., þar sem þeir telja sig öðrum fremur eiga að gæta hagsmuna þeirra, sem búa í bæjunum við sjávarsíðuna og kaupa þær vörur, sem hér er um að ræða. Mér skilst, að hagsmuna þeirra manna sé ekki sem bezt gætt í frv. þessu, sem nú mun orðið samkomulag um milli stjórnarflokkanna, að nái fram að ganga. Þessari skoðun til stuðnings má geta þess, að þegar frv. var sýnt hér áður á Alþ., var vitanlegt, að Alþfl. var því andvígur. Nú hefir flokkurinn fallizt á að afgreiða það ásamt Framsfl., til þess að fá að hanga áfram í stjórninni. Ég skil ekki í öðru en að afleiðingin af samþ. þessa frv. verði sú, að mjólkurverðið til neytenda, bæjarbúana, hækki stórum. í m það þarf ekki að deila, enda viðurkennt af hv. frsm. meiri hl., að landbúnaður í nágrenni Reykjavíkur ber sig svo illa, að það kemur ekki til mála, að hann fái staðizt þá verðlækkun sölumjólkurinnar, sem af því hlytist, ef fullkominn verðjöfnuður, eins og frv. fer fram á, yrði framkvæmdur, þá yrði aðeins um tvennt að tefla, að nærsveitir Reykjavíkur legðust í eyði, því að ekki er víst, að hægt yrði að breyta búnaðarháttum svo, að koma upp annari framleiðslu en mjólkurframleiðslu. Og mjólkurverðið mundi hækka, þegar mjólkurframleiðslan í nærsveitunum legðist niður. Það er augljóst mál, að jafnskjótt og það sýnir sig, að búskapurinn ber sig ekki, verður útsöluverð mjólkurinnar hækkað. Ég furða mig á því, að hv. þm. Alþfl. skuli hafa fengizt til að fylgja þessu frv. Hitt er skiljanlegra, að Framsfl. víli ekki fyrir sér að setja löggjöf sem þessa.

Forystumenn Framsfl. eru þekktir að því að búa til sniðug spakmæli, þegar þeir eru að koma mestum rangindum inn í löggjöf landsins. Frægt er spakmælið um „tvöfalda skattinn“, en það var gert að allsherjar-þjóðlygi. Bændum var talin trú um það, að ef samvinnufélögin væru látin borga skatt eins og önnur sambærileg fyrirtæki, þá væri þar í rauninni um tvöfaldan skatt að ræða, þó að allir heilvita menn sæju, að skatturinn var bara eins og samskonar og sá skattur, sem hliðstæð fyrirtæki greiddu. En framsóknarmenn prédikuðu þetta svo látlaust, að það tókst að telja fjölda sveitamanna trú um það.

Nú er það áþekk firra, sem á að styðja þau rangindi, sem hér á að lögfesta, nefnilega að það eigi að vera sama verð á sömu vöru á sama sölustað. En hér er alls ekki um það að ræða, heldur á hér að setja sama verð á lakari vöru á öðrum sölustað. Þeir, sem selja vöru sína í búin austanfjalls, eiga að fá sama verð, að frádregnum flutningskostnaði, og þeir, sem selja í Reykjavík. Sölukostnaðurinn er ekki sá sami. En er þá varan sú sama? Er það sama vara. sem flutt er austan undan Eyjafjöllum, og sú mjólk, sem fæst héðan úr Mosfellssveitinni? Vitanlega er það ekki sama varan. Það er önnur og lakari vara, sem búið er að flytja langar leiðir, jafnvel hundruð km., í misjöfnu færi og farartækjum. Þess vegna er hér ekki um að ræða að fá sama verð fyrir sömu vöru. Það er um að ræða að fá sama verð fyrir lakari vöru. Ef svo færi, að ekki væri hægt að halda uppi búskap í kingum Rvík, yrði afleiðinginu sú, að bæjarbúar ættu þess engan kost að fá nema lakari vöru fyrir sambærilegt verð og hægt er að fá betri vöru hér. Ég fæ ekki skilið, hvorki afstöðu Alþýðuflokksins, sem er með málinu, né heldur það blygðunarleysi, sem fram kemur hjá flm. þess.

Í þessu sambandi má minna á fleira, sem hnígur að því að íþyngja neytendum í kaupstöðum. Það hefir verið talað um lögskipaða blöndun á þurrmjólk. Fyrir nokkrum árum var mikið um þetta rætt og gerðar áætlanir um kostnaðinn og sýnt fram á, að ef ætti að selja þurrmjólk við verði, sem gæti gefið bændunum nokkuð fyrir sína vöru, þá þyrfti kg. að kosta 1 krónu. Þessari þurrmjólk ætti svo að blanda saman við mjöl í deig og yrði til þess að lækka brauðverðið. Þarna er Alþfl. að niðast á umbjóðendum sínum. (Forseti bringir). Hæstv. forseti má hringja, ég lýsi óhikað mínum skoðunum. Ég vil segja það aftur, að Alþfl. svíkur kjósendur sína með fylgi sínu við þetta mál. Þeir hafa ekki boðað kjósendum sínum, að þeir ætli að vinna að því á Alþingi, að nauðsynjavörur hækki í verði. Þetta mái er mesta rangsleitnismálið á þessu þingi. Þeir framleiðendur, sem búa hér utan bæjarlandsins, eru þarna settir í þá aðstöðu að verða að fara á vonarvöl vegna þess að atvinnurekstur þeirra verður svo miklu dýrari en hinna, sem þeir eiga að greiða þennan skatt til. Og þessi aðstaða þeirra er svo til komin, að þeir eiga þar sjálfir enga sök. Jarðir þeirra hafa hækkað í verði vegna legu sinnar. Ef um væri að ræða að bæta þeim upp bara þennan aðstöðumun, t. d. með því að greiða þeim af opinberu fé nokkurn hluta af verðmæti jarðanna, þá væri öðru máli að gegna, en um það er alls ekki að ræða, því að það á blátt áfram að ræna mennina. Og samt er þess að gæta, að engar líkur eru til þess, að þeir, sem þetta er gert fyrir, geti innt af hendi það hlutverk, sem hinir geta innt af hendi, nefnilega að sjá neyzlusvæðinu fyrir mjólk. Ég man, að hv. 1. þm. Rang. sagði frá því við 1. umr., að það hefði komið fyrir, að hægt hefði verið að flytja mjólk austan yfir fjall sömu dagana sem ekki var hægt að flytja hana ofan úr Mosfellssveit, en það er náttúrlega alveg einstætt og mun mjög sjaldan koma fyrir. En ef á að halda opnum veginum að austan í hörðum vetrum, þá mundi sannast, að kosta þyrfti miklu til af opinberu fé til þess að tryggja mjólkurflutningana.

Vegna hagsmuna minna umbjóðenda hlýt ég að vera mótfallinn þessu máli, því að enginn vafi er á, að það mun reka að því, að það leiði til verðhækkunar á mjólk. Í öðru lagi eru allar líkur til þess, að afleiðingin verði sú, að almenningur fái lakari vöru en ella. Í þriðja lagi er þetta ekkert annað en ágreiningsmál af hálfu manna, sem ekki hafa þá aðstöðu, sem geti réttlætt að setja þá jafnfætis hinum.