09.12.1937
Neðri deild: 45. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í B-deild Alþingistíðinda. (808)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Sveinbjörn Högnason:

Ég hefi heyrt það um hv. 2. þm. Reykv., að hann kallaði ekki allt ömmu sína í ræðumennsku. Ég hefi lítið orðið þessa var, en eftir þessa síðustu ræðu hv. þm. sé ég, að þetta muni vera alveg rétt. Hv. þm. talaði um, að hagsmuna neytenda væri illa gætt af hálfu mjólkurlöggjafarinnar. En hver maður sér, að þetta er sú herfilegasta fjarstæða. Til þess eru mjólkurl. sett, að taka af hinn mikla sölukostnað í Rvík til hagsbóta bæði fyrir neytendur og bændur. Þetta hefir tekizt. Það er vitanlega eins og hv. 2. þm. Reykv. segir, að ef verðið fer mjög niður, hækkar það til neytendanna. Þar með er fengin full viðurkenning fyrir því, að ef samkeppnin hefði haldið áfram, hefði hlotið að stafa af því hækkun á verði til neytendanna, enda liggur það í hlutarins eðli. Það hefir komið fram fyrir löngu hjá framleiðendum, að þeir heimta hækkað verð, allt upp í 7 aura. Þetta rekur sig svo á, að það hlýtur að reka að því, ef ekki er hægt að spara milliliðakostnaðinn, að verið hækkar hér.

Hv. þm. talaði um, að hér væri um fullkomið okur að ræða og að níðzt væri á neytendum. Ég held, að hv. þm. ætti að líta sér nær. Hvað gerir hann í bæjarstj. Rvíkur? Hann leggur aukaskatt á hvern vatnssopa fátækra verkamanna. Er hann ekki þar að níðast á þeim, sem mega sín minnst? Og rafmagnið er dýrara en kostar að framleiða það. Þar er líka verið að níðast á þeim fátæku og smáu. Þessu stendur hv. 2. þm. Reykv. að, og svo leyfir hann sér að bregða okkur um, að við séum að níðast á neytendum, þegar við gerum skipulagsbundnar ráðstafanir til, að varan hækki ekki fyrir neytendur. Síðan mjólkurskipulagið var sett, hafa allar vörur hækkað hér í Rvík og Hafnarfirði, nema mjólkin. Er þetta að niðast á neytendum? Nei, frekar þó á framleiðendum. En þeir fengu milligróðann, svo að þeir hafa ekki þurft að kvarta fram til þessa.

Hv. þm. viðhafði þau orð, að ég vil ekki hafa þau ettir. En það er nú sumum hollt að sletta ekki miklu fram til andstæðinganna. „Þjóðlygar“ var eitt orðið, sem hv. þm. notaði. Það væri rétt fyrir hv. þm. að líta í eiginn barm. En öll ræða hv. þm. sýndi, hvað undir býr. Það er gremja gagnvart samvinnufél. landsins, sem hv. þm. segir, að hafi verið ívilnað þegar þau fengu réttlátara skattaskipalag á móts við aðra. Hv. þm. segir, að hér sé um það sama að ræða. Já, það er rétt, það á að hjálpa bændum til að halda uppi mjólkurskipulagi, svo að þeir þurfi ekki að láta taka af sér 16 aura fyrir hvern mjólkurlítra hér. Það er von, að umbjóðendum hv. þm., kaupmönnunum, sárni þetta.

Þá vil ég aðeins minnast á brtt. hv. meiri hl. Ég get fellt mig sæmilega við þær flestar og álit, að sumar þeirra séu til bóta, þó að ég telji varhugavert að mismuna til framleiðenda, en til samkomulags get ég fallizt á það.

Um brtt. hv. minni hl. gegnir öðru máli, og það kom ljóst fram í ræðum beggja flm., að erfitt er fyrir menn að mæla gegn máli, sem þeir eru í hjarta sínu samþ.

Í brtt. minni hl. felst í fyrsta lagi mismunur eftir geðþótta á milli framleiðenda. Í fyrstu brtt. stendur: „Við ákvörðun gjaldsins skal þó lekið hæfilegt tillit til mismunandi kostnaðar við mjólkurframleiðsluna á hinum ýmsu stöðum innan verðjöfnunarsvæðis“.

Hvaða framleiðandi segir það ekki um hvern einasta skatt, að hann sé ofvaxinn greiðslugetu sinni. Meira að segja kaupmenn hér, sem hafa tugi þúsunda á ári, kveina undan hverjum skatti. Hv. frsm. minni hl. talaði um, að margt væri óljóst í frv. Ég hygg nú, að hann hafi sett met í að hugsa óljóst, og skal ég koma að því síðar. Ein brtt. er um að fella alveg niður öll ákvæði, sem gilda um það, eftir hverju skuli fara um verð á mjólk. Þá gæti orðið nokkuð hátt verð, ef ætti að fara eftir því, hvað þessi og þessi framleiðandi vill fá. Hygg ég að þessir flokksmenn gætu illa komið sér saman um þá skilgreiningu. Ég get ekki annað skilið. [Frh.].