09.12.1937
Neðri deild: 45. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Eiríkur Einarsson:

Að sama skapi og framleiðsla neysluvara jókst í nágrenni höfuðstaðarins, þá vaknaði hjá mönnum áhyggja út af því, hvaða aðstöðumun ýms héruð hér nærlendis höfða til að koma vöru sinni, sem alltaf fór vaxandi, á markaðinn. Menn höfðu áhyggju út af því., að þeir, sem erfiðari aðstöðu höfðu, træðust undir í þeirri viðureign. Að því er snertir aðalframleiðslasvæðin út frá höfustaðnum, sem eru fyrst og fremst héruðin fyrir austan fjall, þá hefir mönnum verið það ljóst um langt skeið, að til þess að fá bætt úr erfiðari aðstöðu þessara héraða, þá var það ekki fyrst og fremst skipulagið, að því ólöstuðu og viðurkennda nauðsynlegu að mörgu leyti, sem um var að ræða til bjargráða í þessu efni, heldur samgöngurnar.

Mönnum var það ljóst, að til þess að þessi héruð gætu komið á öruggu sambandi víð höfuðstaðinn með markaðsvöru sína, þá var óhjákvæmilegt að bæta samgöngurnar svo, að þær yrðu öruggar allan ársins hring. Það þurfti að nema burtu þann ókleifa múr, sem var milli höfuðstaðarins og sveitanna fyrir austan fjall. Það var þessi ókleifi múr, sem varð þess valdandi, að umhverfis Reykjavík voru unnin og ræktuð lönd með ærnum kostnaði, því menn treystu því, að sá kostnaður myndi borga sig vegna þess aðstöðumunar, sem fyrir hendi var í þessu efni. Þannig stóð á því, að hin mikla jarðyrkja í Mosfellssveit, Reykjavík sjálfri og annarsstaðar nærlendis, jókst í óeðlilegu hlutfalli við framkvæmdirnar annarsstaðar á landinu. Það er því harla einkennilegt, þegar verið var að ræða um það í hv. d. víð umr. um þetta frv., hvernig það sé með löndin hér í nágrenni höfuðstaðarins, hvort þar sé dýrari framleiðsla eða hvort þeir, sem þar búa, þurfi í raun og veru að fá meira fyrir sína vöru heldur en þeir, sem búa annarsstaðar. Allir, sem bera nokkurt skynbragð á þétta og hafa fylgzt með þessu máli, vita, að hér nærlendis hefir verið dýrara að rækta löndin heldur en annarsstaðar af því, að þau hafa verið torveldari til ræktunar. Menn brutust í að rækta þessi lönd til þess að geta notið markaðarins með betra árangri til frambúðar heldur en aðrir áttu að fagna. Þessi lönd gengu því kaupum og sölum fyrir hærra verð en aðrar jarðeignir og lendur, sem voru lengra frá aðalmarkaðinum. Það er því enginn vafi á því, að löndin í kringum Reykjavík og í Rvík hafa verið dýrari, svo menn þurfa þar í raun og veru að fá meira fyrir mjólkurlítrann heldur en annarsstaðar á landinu. En svo er hitt allt annað mál, hvort það eigi rétt á sér, að það verði þannig til frambúðar, að þessir menn, sem næst búa og hafa bezta aðstöðu,fái að njóta hennar á kostnað hinna, sem fjær búa, og þeim verði gert ókleift að koma til samræmis aðstöðu við þá, sem næst búa. Ég verð að segja það, að frá sjónarmiði þeirra, sem vilja líta á þetta með óhlutdrægni og ekki kemur málið of mikið við, þarf þetta að leita sins jafnvægis, á þann hátt, að sá aðstöðumunur, sem þeir eru búnir að öðlast með því að búa hér næst höfuðstaðnum, komi þeim ekki þann veg til hagsbóta, að þeir sitji í ljósi fyrir öðrum, sem hafa einhverja möguleika og þörf til að verzla við höfuðstaðinn. Þess vegna hefir sú grundvallarhugsun, sem um er að ræða í þessu máli, rétt á sér að vissu takmarki, að því takmarki, þegar maður lítur til bændanna hér í námunda við Rvík öðrum þræði og bændanna á suðurlandssvæðinu hinsvegar, þá þarf mælikvarðinn og hin lögbundna afstaða að vera á þann hátt, að þeim verði álíka haganlegt að nota markaðinn og koma sinni framleiðsluvöru á sölustaðinn. Ég veit, að þetta er vandfundin leið, en hinu verður maður að gera sér grein fyrir, að fyrst verður að hugsa til að fylgja þeirri grundvallarhugsun, sem er -réttmæt í þessum málum, og hún er þetta.

Ég nefndi það áðan, að þó að verðjöfnunin og skipulagið eigi hinn fyllsta rétt á sér, hvort um sig og sameiginlega, verður það aldrei lagasetningin ein, því miður, sem bætir til hlítar úr þeim misbrestum, sem þarna eru fyrir hendi. Maður verður að líta til þessa eins og maður væri landnemi, sem maður er reyndar, og þjóðin verður fyrst að framkvæma það, sem er nauðsynlegast. Eitt af allra mestu nauðsynjamálunum, sem þjóðin þarf að ráða bót á, eru samgöngumálin. Og með bættum samgöngum kæmist af sjálfu sér meira jafnvægi á hvað snertir það mál, sem hér er til umr.

Ég ætla þá að snúa mér að því frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 154, og þeim brtt., sem fram hafa komið frá minni hl. landbn. á þskj. 296. Það hefir verið mælt fyrir þessum brtt. af hv. flm., og það hefir líka verið mælt gegn þeim af meiri hl. landbn., og ætla ég ekki að tefja tímann með því að endurtaka það, sem þeir hafa sagt, hvorir um sig. En ég vil skýra frá minni afstöðu til nokkurra af þessum till., sem mér þykja máli skipta. Það er þá fyrst viðvíkjandi verðjöfnunargjaldinu og takmörkum þess. Það hefir, frá því að mjólkursölulögin voru sett og allt til þessa, verið ein aðalspurningin, hvernig ætti að reikna þetta gjald. Það er í rauninni svo, að þó að það hafi komið hér fram við umr., að það sé djúp staðfest á milli þess, sem um þetta er sagt í frv. annarsvegar og brtt. minni hl. hinsvegar, þá tel ég að hér sé alls ekki um neinn meginmun að ræða. Í frv. segir svo um verðjöfnunargjaldið, að það ákveðist fyrirfram af mjólkursölunefnd, og megi breyta því svo oft sem þurfa þykir. Þetta fær að standa samkv. till. minni hl. landbn., en það er bætt nokkru við um það, hvernig gjaldið eigi að ákveðast og hvað langt megi fara í þessum efnum. Það er sagt eitthvað á þá leið, að gjaldið megi aldrei reikna hærra en svo, að búskapnum á þeim svæðum, sem gjaldið greiðist frá, verði ekki íþyngt um of, þannig að hann fái ekki borið sig. Þetta virðist í sjálfu sér ekki vera nema sjálfsagt sem hver annar varnagli. Það hefir kamið fram hér við umr., að það sé óljóst, hvernig eigi að finna það út, hvenær búskapnum sé ofþyngt. En ég vil þá vekja athygli á því, að samkv. frv. á mjólkursölunefnd að ákveða verðjöfnunargjaldið fyrirfram, og má breyta því svo oft sem þurfa þykir. Er þetta ekki einnig handahófsákvæði? Er ekki vandi að finna það út, hvað hátt þetta gjald á að vera í hvert skipti? Er ekki mjólóursölunefnd í vanda sett? Vitanlega. Ég segi, að sá vandi er engu minni heldur en þessi vandi, sem skapast með varnagla minni hl. landbn.

Er gert á hluta nokkurs með því að setja þennan varnagla, að verðjöfnunargjaldið megi ekki vera hærra en svo, að búskapurinn fái staðizt? Nei, vissulega ekki. Ef mjólkursölunefnd yrði einhverntíma sú skyssa á, að reikna gjaldið hærra en svo, að menn stæðust við að greiða það og hrökkluðust burt af jörðum sínum, hvaðan kæmi þá þeirri mjólkursölunefnd fé í verðjöfnunarsjóð? Því aðeins borgast þetta gjald, að það séu kýr og fjós, sem gefa af sér einhverjar nytjar.

Það var tekið fram hér, að það gæti þá komið eins að því, að hinum, sem ættu að verða aðnjótandi verðjöfnunargjaldsins, þ. e. þeim aðiljum, sem senda mjólkurnyt sína til mjólkurbúanna til vinnslu, gæti vegna skorts á slíku gjaldi orðið ómögulegt að reka þú sín. En yrðu hinir sömu bættari fyrir það, þó að mjólkin hér í nágrannasveitunum minnkaði svo, að þetta gjald yrði hverfandi lítið? Ég segi nei. Þetta gjald getur því aðeins komið að tilætluðum notum, að fullrar sanngirni sé gætt á báða bóga.

Því er svo varið með þetta mál, að þó að menn vildu hver og einn skara eld að sinni köku og bæta hagsmuni þess héraðs eða þeirrar sveitar, sem þeir bera sérstaklega fyrir brjósti í þessum efnum, þá vita menn ekki hverra hagsmuna þeir eru að gæta, þegar frá líður, því eftir því sem höfuðstaðurinn eykst vegna fólksfjölgunar, og eftir því sem samgönguskilyrðin breytast og batna, eftir því breytast einnig þau hlutföll sem nú gilda viðvíkjandi verðjöfnunargjaldinu.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að öðru aðalatriði þessa frv. og brtt., sem hér hefir orðið nokkur ágreiningur um, þ. e. verðjöfnunarsjóð. Ég hygg nú, að því miður sé því þannig varið, að verðjöfnunarsjóður þurfi á einhvern hátt að afla sér tekna utan verðjöfnunargjaldsins, til þess að geta staðizt óhjákvæmilegar greiðslur. Og ef þetta er satt, sem ég vildi þó að væri ekki, þá virðist sízt úr vegi að gera sér grein fyrir því, hvaða leiðir verða fundnar í þessum efnum. Ég held, að þær leiðir, sem minni hl. landbn. hefir bent á, séu einna líklegastar. Hann leggur til, að lagður verði nokkur skattur á aðfluttan fóðurbæti í þessu skyni, þó með þeirri eðlilegu og sjálfsögðu undantekningu, að þetta skuli ekki gilda með innfluttan fóðurbæti í harðærum. Ég álit, að þessi skattur sé hentugur, ekki einungis til þess að afla tekna, heldur líka með tilliti til þess, að vera einskonar hamla á móti því, að framleiðendur, t. d. hér í Rvík og nágrenni, haldi kúabúum sínum að meira eða minna leyti uppi á erlendum fóðurbæti.

Þá hefir verið minnzt á aðra tekjulind, þ. e. þurrmjólkurvinnsluna. Það er svo skylt mál hvað snertir alla framþróun í meðferð á mjólk, að það er ekki nema eðlilegt að láta verðjöfnunarsjóð verða góðs aðnjótandi, ef um hagnað gæti orðið að ræða.

Það segir sig sjálft, að eftir því sem fleiri leiðir verða fundnar til þess að hagnýta mjólk landsmanna, eftir því ætti afkoman að verða betri á þessu sviði. Nú er það vitað, að aðsóknin til mjólkurbúanna eykst stöðugt, og þar af leiðandi aukast einnig mjólkurvinnsluvörurnar, en það eru þær, sem hafa aðallega tekið til sín verðjöfnunargjaldið. Til þess því að geta haldið verðinu nokkurn veginn uppi, veitir sízt af því að færa sér í nyt öll hugsanleg meðul, sem fyrir hendi eru.

Ég skal lítið ræða um það, hvort sanngjarnlega sé komið fyrir þessari eins eyris uppbót, sem um getur í frv. Ég verð að taka undir það, sem um þetta hefir verið sagt hér við umr., að það sé helzt til mikið handahófsverk að láta takmörkin fyrir þessu einskorðast af kaupstaðarlóðinni, þannig að það gildi allt árið innan lögsagnarumdæmis Rvíkur, en 3 mánuði á næsta bæ í Mosfellssveit. Það er kannske erfitt að koma þessu fyrir, en mér hefði þótt skemmtilegra, að það hefði getað verið þarna nánara samræmi. Skal ég ekki fara lengra út í þá sálma. Ég veit, að þetta þriggja mánaða ákvæði er sett inn til þess að örva framleiðsluna, þegar mjólkin er minnst, svo að það verði síður hörgull á mjólk yfir haustmánuðina.

Þá er það þriðja meginatriðið, sem kemur fram í brtt., þ. e. till. um breyt. á stjórn mjólkurmálanna. Ég álít, og það virðast allir gera, sem tekið hafa til máls, að stjórn þessara mála eigi að vera í höndum framleiðendanna sjálfra. Mér finnst sannarlega kominn tími til þess að hrinda þessu í framkvæmd, og get ég ekki séð, að þar sé eftir neinu að bíða.

Þá vildi ég að lokum minnast á verðjöfnunarsvæðin og stærð þeirra. Ég álit fróðlegt að hafa orð á því hér, að þegar mjólkurbúið fyrir austan heiði var stofnað 1928–'29 var fenginn til forstöðunnar maður með þekkingu og reynslu frá Danmörku. Og ég man að hann aðvaraði okkur, sem vorum að baksa í að koma þessu á fót, þegar við vorum að „agitera“ fyrir þátttöku í þessu fyrirtæki, að vera ekki of bráðlátir, því hagur búsins og gengi byggðist á því, að hafa hvorki of mikla eða of litla aðsókn, að eiginlega væru það hinir hæfilegu flutningar, sem svöruðu til vinnslu og markaðar. Ef búið er of lítið, þá er það of dýrt í rekstri. Hitt gætu orðið samskonar vandræði, ef farið yrði að safna langt að hverjum lítra, sem næst. Þá koma dýrir flutningar og allskonar erfiðleikar, jafnvel gallar á vörunum, af því að mjólkin hefir spillzt. Það er nú þegar á líðandi tíma gert of mikið að því að safna öllu undir vængi mjólkurbúanna. Og ef vinnslan í búunum fer að verða svo mikil, að yfirgnæfandi meiri hluti verður vinnslumjólk, þá þrengist um möguleika til sæmilegra verðuppbóta. Þó að það vanti í mjólkurlögin frá 1933 og vanti í þetta frv., þyrfti að setja þarna ýmis ákvæði, sem væru hömlur á það, hvað búin fengju að þenjast langt út frá heimasetri sínu. Þá vantar einnig ákvæði um flutninga bæði að búunum og frá þeim um það, hvort útboð skuli gert á þeim eða annað, sem tryggi það, að aldrei verði einokun á slíkum hlutum. Þessi ákvæði ættu þar virkilega heima almenningi til öryggis. Og fleiri mætti telja.

En ég vil enda mál mitt með því að víkja aftur að meginskoðun minni. Þó að skipulag mjólkurmálanna sé merkilegur hlutur og óhjákvæmilegur og flokkapólitíkin hljóti að ráða þar nokkru, svo viðsjárverð sem hún þó er, þá er hvorugt aðalatriðið, mjólkurlögin né flokkarnir, heldur er það framkvæmd öruggra samgangna við suðurlandsláglendið. Það er umbótin, sem verður til þess að leggja allar deilur.