09.12.1937
Neðri deild: 45. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (814)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Jakob Möller:

Mér þykir ákaflega leitt að hafa orðið til þess, að sessunautur minn, annar eins geðspektarmaður og allir vita að hann er, stökk dálítið upp á nef sér. Það var líka það eina, sem ég hafði upp úr eftirgrennslan minni. því að hann gleymdi náttúrlega að svara mér og fór út í aðra sálma. Ég hafði gert ráð fyrir, að þessi breyt. á mjólkurlögunum mundi verða til þess að útsöluverð mundi hækka. Hv. 1. þm. Rang. (SvbH) svaraði þessu engu, en ráða mátti af orðum hans, að hann gerði ráð fyrir þessu, því að hann fór að réttlæta hækkun og vitnaði í það, að ef að framleiðendum þrengdi, mundu þeir annaðhvort verða að hætta eða hækka afurðaverðið. Hv. 5. þm. Reykv. kvaðst hafa spurt um þetta við 2. umr. hvort stuðningsmenn þessa máls vildu gefa nokkur fyrirheit um það, að söluverð yrði ekki hækkað, og hann þóttist ekki fá skýr svör, hvorki þá né í ræðu sessunautar míns; hv 1. þm. Rang. — Það eru líka ákaflega litlar líkur til annars en að þetta verði til hækkunar, því að svo þrengist að bændum í nágrenni Reykjavíkur, að búskapur þeirra getur alls ekki borið sig undir hækkuðu verðjöfnunargjaldi, því að talið er, að þeir berjist í bökkum eins og nú er.

Hv. 10. landsk. taldi þetta frv. enga bót yfirleitt og e. t. v. ekki fyrir neinn. Alveg eins og framleiðslan á stóru verðjöfnunarsvæðunum hefir aukizt geysilega, þegar verð hefir hækkað, þá má gera ráð fyrir, að framleiðslan haldi áfram að aukast, og verður þá engu nær en áður að bera sig. Hinsvegar skil ég ekki afstöðu hv. 1. þm. Rang., þegar hann talar um afstöðu manna utan verðjöfnunarsvæðisins. Hv. þm. A.Húnv. veik að því, að hliðstæðar kröfur mundu verða gerðar af öllu landinu. Hv. 1. þm. Rang. var stokkinn upp á nef sér áður, svo að hann gat það ekki meir, en nú brást hann við hið versta, ef hann ætti að sjá borgið hag bænda utan verðjöfnunarsvæðis Reykjavíkur. Það er alls ekki grunlaust um, að þetta standi í nokkru sambandi við þingmennsku hv. þm., það að kjósendur hans eru í fjarlægum sveitum verðjöfnunarsvæðisins, en ekki utan þess. Nú vil ég spyrja: Er ekki nákvæmlega sama ástæða til að bæta hag bænda, sem búa utan verðjöfnunarsvæðisins? Bændur t. d. í Rangárvallasýslu eru ekki vitund verr settir, eins og er, heldur en bændur hvar sem er á landinu. Ef þeir þar eystra eru illa stæðir, þá hafa allir bændur annarsstaðar á landinu jafnilla aðstöðu. En hv. þm. sér ekki út fyrir sínar bæjardyr og kjósenda sinna. Þess vegna hvorki vill hann né treystir sér til þess að svara neinu um þetta. En ég hygg, að þessir bændur séu kannske meðal þeirra, sem þurfa þess sízt með, að þeim sé hjálpað með þessum lögum. Ég hygg, að afkoma þeirra sé sízt verri ert bændanna, sem aðallega selja nú mjólkina í Reykjavík og Hafnarfirði.

Ég verð að líta svo á, að það sé játað, að miklar líkur séu til þess, að útsöluverð mjólkurinnar hljóti að hækka á útsölustöðunum. Þá er mér alveg fullnægt. Þetta var það, sem ég vildi láta koma fram.

Hv. 1. þm. Rang. spurði mig, hvort ég vissi, hvers vegna mjólkurlögin hefðu verið sett. — Hann sagði, að þau hefðu verið sett af því, að líkar hefðu bent til þess, að útsöluverð mundi hækka. Þetta fannst mér býsna undarleg staðhafing. Því að almennasta afleiðingin af vaxandi framboði á mjólk er vitanlega verðlækkun, en ekki hækkun. Hv. þm. snýr þessu alveg við. Nei, ástæðan til að setja þessar hömlur á söluna var óttinn við það, að et hún væri frjáls, mundu bændur í fjarsveitum fara að senda hingað mjólk í stórum stíl og bjóða niður verð hver fyrir öðrum. (SvbH: Hvað reyndi Mjólkurfélag Reykjavíkur 1933?). Það er viðurkennt, að afleiðingin hefði orðið lækkun almennt, og það hefi ég heyrt hv. 1. þm. Rang. segja sjálfan, einmitt við menn, sem eru í Mjólkurfélagi Reykjavíkur. — Þetta er svo alviðurkennt, að það þarf ekki að þrátta um það. Lækkunin hefði ekki aðeins orðið á verðinu til neytenda, heldur líka á verðinu til framleiðenda, vegna samkeppninnar um markaðinn.

Svo komst þm. út í þá sálma að tala um okur, svívirðilegt okur. Það kom sér illa fyrir hann í þessu sambandi, en hann þurfti nú samt á því að halda. Hann þurfti að geta sagt, að Reykjavíkurbær okraði á nauðsynjum, t. d. hefði hann hækkað verð á rafmagni og vatni. Hv. þm. snýr þessu við líka. Tökum fyrst rafmagnið. Það hefir alltaf verið að lækka, seinast nú í vetur úr 50 aurum niður í 6 aura. Annars er þetta ekki sambærilegt við mjólkurframleiðsluna. Rafveitan er sameiginlegur rekstur bæjarbúa og því sameiginleg eign þeirra. Það var fyrirsjáanlegt, að það þurfti að reisa nýja stöð, sem framleitt gæti ódýrara rafmagn. En til þess að hægt yrði að lækka rafmagnsverðið að sama skapi, þurfti að vera búið að láta Elliðaárstöðina borga sig upp og skuldabagginn að vera horfinn. Alveg sama er að segja um vatnið. Það varð að auka vatnsveituna. Og þá þurfti að leggja nýjan skatt á bæjarbúa. Það var ráðstöfun, sem allir flokkar samþykktu. Ég man ekki til þess, að samflokksmenn hv. 1. þm. Rang. gerðu nokkurn ágreining um það í bæjarstjórn.

Við tölum um þjóðlygar. Hv. þm. var að tala um fimm millj., sem kaupmenn hér í Reykjavík græddu. Hún er þekkt hér, þessi saga. Áður hefir það verið hv. samþingsmaður minn til hægri (EOl), sem mest hefir hampað henni. Hún er tekin úr þeirri rauðu bók, sem annar nágranni minn hér á þingbekkjum, hv. 7. landsk. (EmJ), kannast við. Þar stendur á bls. 90–91: vöruhagnaður (407) verzlana í Reykjavík

kr. 2687303,71 Vöruhagnaður (758) verzlana á öllu landinu kr. 5061381,87

Þarna er þetta 3 milljóna fjármagn sýnt á pappírnum. En þetta er ekki í Reykjavík einni. Það er á öllu landinu. Það er þjóðlygin, sem segir, að þetta græði kaupmennirnir í Rvík allt saman. Ég veit, að hv. þm. hefir kannske ekki átt neinn þátt í tilorðning þessarar þjóðlygi, þó að hann sé að stuðla að útbreiðslu hennar. Hann lætur sem hann viti ekki, að í þessari 5 milljóna upphæð á öllu landinu kemur aðeins fram mismunur á verði keyptrar og seldrar vöru og í því er innifalinn allur verzlunarkostnaðurinn. Það verður náttúrlega býsna mikill munur. Fyrir því eiga menn að loka augunum; þá er komin þessi dálaglega þjóðlygi. (SvbH: Já, þm. var að bæta einni við).