09.12.1937
Neðri deild: 45. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Jón Pálmason:

Það kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, sem oft hefir skeð áður í umr. um þetta mál, að hann greip til röksemda, sem eru algerlega út í hött, þegar hann var að gera ráð fyrir, hvernig fara mundi, ef allt mjólkurskipulagið væri upphafið. Ég veit ekki til, að nokkur maður vilji upphefja þau l. Hér er aðeins um það að ræða, hvort á að útfæra þetta í miklu víðtækari skilningi en áður hefir verið gert.

Hvað það snertir, sem hann taldi mikið grundvallaratriði í þessari deilu, að sagt væri, að tekinn væri réttur af mönnum og fenginn öðrum í hendur, en hann taldi ekki vera gert, þá er það svo, að af þeim, sem næstir búa markaðsstaðnum, er tekinn réttur og fenginn öðrum í hendur, þegar á að jafna verðið þannig, að jafnt er greitt fyrir vinnslumjólk og neyzlumjólk.

Annars verð ég að segja að ég get glatt mig fyrir hönd bæði minna kjósenda og annara, sem búa úti á landi, yfir að fá þessa yfirlýsingu, að ef frv. verður samþ., þá sé meiningin að útfæra verðjöfnun yfir allt landið, ekki aðeins að því er snertir mjólkina, heldur einnig aðra framleiðslu, sem er á markaðinum frá okkur bændunum, því að það er engum frekar til hagsmuna en þeim, sem fjærst búa. En ég álít, að það sé fjarstæða að taka upp þessa reglu, því að ef komið er fullum verðjöfnuði á neyzlumjólk og þá mjólk, sem unnið er úr kannske að 2/3–3/4 hlutum, þá getur eins gengið. þegar fjær kemur og unnið er úr mjólkinni allri, að eins eigi að bæta hana upp. Sama er að segja, að því er snertir kjötið og þau sláturhús, sem hafa ekki aðstöðu til neins annars en að salta, þá ættu þau samkv. sömu reglu að fá sama verð og þeir, sem hafa aðstöðu til að selja kjötið nýtt á bezta markaðnum innanlands.

Ég vil að endingu minna menn á, að það kom fram hjá hv. 1. þm. Rang. hér í kvöld sú yfirlýsing, að ef frv. væri fellt, þá væri þar með upphafið allt það gagn, sem væri að hafa af þessu mjólkurskipulagi, sem nú er. Ef þessi yfirlýsing hefir við rök að styðjast, þá sannar hún, að mjólkurlögin sem nú eru í gildi og ekki nema 3 ára gömul, hafa ekki verið mikils virði þegar þau voru sett, ef þau eru nú einskis virði, eins og ætla má eftir yfirlýsingu hv. þingmanns. Ég lít öðrum augum á þetta. Ég álít, að eins og sakir standa sé heppilegast að una við þau lög, sem nú eru í gildi og ganga ekki út í neinar öfgar á þessu sviði, — en ég kalla það öfgar, ef það er meiningin, hvað mikil sem vinnslumjólkin verður, þá skuli jafna verðið til fulls, eins og á að gera með þessu frv.