14.12.1937
Efri deild: 49. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er nú svo fátt hér af þm., að það tekur því tæpast að tala langt mál, og tíminn til kl. 7, þegar fundi verður sennilega frestað, er stuttur. Þó get ég ekki komizt hjá því að minnast á þau atriði í ræðu hv. 1. .þm. Reykv., sem ég tel, að séu á misskilningi byggð. Hv. þm. minntist á það, að framkvæmd laganna bæri yfirleitt mikinn keim af þeirri stefnu, sem ríkiststj. hefði fylgt. Hann benti á það, að þetta væri heppilegt fyrirkomulag, sem tekið væri upp í lögin nú, og gengi lengra en núgildandi ákvæði, og í þá átt, sem ríkti í Noregi um þessi mál. Það er alveg rétt, að Norðmenn hafa tekið upp fyrirkomulag um sölu mjólkur, sem gengur lengra á einn og annan hátt en okkar mjólkurlög eins og þau eru nú. Sama máli gegnir um Englendinga, eða þá þjóð, sem hefir verið einna tregust til að taka upp fyrirkomulag, sem miði í þá átt að svipta einstaklinga frelsi á verzlunarsviðinu. Og það sýnir það bezt, að þessar ráðstafanir varð að gera. Þá minntist hv. þm. á, að það væri eðlilegt, að hér hefði fengið að eiga sér stað hin eðlilega þróun. En það er nú það, sem bæði þeir og við höfum rekið okkur á, að sú „eðlilega þróun“ var sú, sem farið var að bera á hér í Rvík, þegar mjólkurbúðirnar voru komnar upp í 108. Þróunin verður þá á þann hátt, að fjármunirnir, sem fara í milliliði, verða alveg óþolandi miklir, en framleiðendur fá, þrátt fyrir nokkuð hærra mjólkurverð, mjög lágt verð. Sem dæmi um þróunina má taka eitt þorp hér í nágrenni, sem hefir verið utan mjólkurskipulagsins, eftir ósk íbúanna þar. Þar var mjólk á sölumarkaðnum komin niður í 17 aura lítrinn. Þetta er sú eðlilega þróun, sem varð í mjólkurmálunum, og hún er ekki þessleg, að sótzt sé eftir henni, enda hafa þessar þjóðir, sem ég minntist á, reynt að afstýra henni.

Þá minntist hv. þm. á það, að það væri óánægja frá Reykjavík Ég get fullvissað hv. þm. um það, að það verður aldrei hægt að setja lög um þetta atriði eða önnur, þar sem verðjöfnun á sér stað, nema að einhver óánægja verði. Þetta hefir sýnt sig bæði í Noregi og Englandi, og alstaðar þar, sem mjólkurlögin eru framkvæmd, að hver og einn telur, að sinn hlutur eigi að vera stærri en hann er. Ég held þó, og kem að því seinna, að Reykvíkingar þurfi ekki að vera óánægðir í þessu efni.

Þá benti hv. þm. á það, að neytendur hafi óttazt, að mjólkin hækkaði í verði fyrir þetta skipulag. En ég benti jafnhliða á, að reynslan er allt önnur en sú. Mjólkin hefir lækkað um allt að 2 aurum í útsölu, og ég hygg, að hún sé eina nauðsynjavaran, sem lækkar í þessu landi, en eftir öllum eðlilegum ástæðum og eftir því markaðsverði, sem nú er á nauðsynjavörum, hefði mjólkin átt að hækka verulega í verði. Og hvað sem bændur geta haldið lengi út að selja vörur sínar þannig, þá gera þeir það nú. Ég hefi fengið upplýsingar hjá manni, sem hefir kynnt sér það erlendis í sumar, að mjólk er seld sumstaðar miklu hærra en hér. Í Noregi mun hún vera svipuð, en t. d. í Englandi mun verðið vera allt að 50 aurum. En á þessum tímum hefir mjólkin hér lækkað. Hv. þm. hélt, að það gæti varla verið ætlunin að halda mjólkurverðinu niðri, því það væri sagt annað í sveitinni, þegar væri verið að ræða þessi mál þar. Og þetta er rétt að því leyti, að við höfum stöðugt haldið fram, sem reynslan hefir sýnt og sannað, að þetta hvort tveggja getur farið saman, að verðið hækki til framleiðanda, þó að það lækki til neytenda, því milliliðakostnaðurinn við dreifingu mjólkur hefir stórkostlega lækkað. Svo að þessi rök, sem við höfum haldið fram í málinu, stangast á engan hátt.

Kem ég þá að þessu stríði aftur, sem ég minnist á, að ég myndi tala um nánar, að mótmæli komu fram frá framleiðendum í Rvík, þegar lögin voru samin. En ég þori alveg að fullyrða það, að aðstaða Reykvíkinga síðan mjólkurlögin voru sett, og nú samkv. þessum lögum, er stórum mun betri — það gildir sama um Hafnarfjörð — heldur en áður en mjólkurlögin komu. Og ég hygg, að ef hv. 1. þm. Reykv. hefði leitað sér upplýsinga um aðstöðu Reykvíkinga og Hafnfirðinga nú og áður en mjólkurlögin voru sett, hefði þetta orðið niðurstaðan. Vitaskuld kvarta alltaf framleiðendur, og það gera flestir á þessum slæmu tímum. En ég hygg, að umkvartanir frá Reykjavík séu yfirleitt ekki háværar; og hafa ekki verið undanfarna tíma. Því að áður en mjólkurlögin voru sett, var komin svo mikil óreiða á innheimtu hjá framleiðendum hér í Rvík, að það borgaði sig betur, að sögn þeirra sjálfra, að selja mjólkina fyrir 25 aura lítrann, og það í stórum stíl, heldur en að selja hana á 40 aura og eiga síðan eftir að innheimta. Nú er það þannig, að þessir framleiðendur selja margir hverjir utan við samsöluna, a. m. k. nokkurn hluta, fyrir 40 aura hvern lítra, að frádregnum 3,2 aurum. Ég hefi nýlega látið afla skýrslna í Reykjavík og nágrenni og látið leggja nokkuð mikla vinnu í það, og niðurstaðan orðið sú, að þeir fá 36,7 aura fyrir hvern lítra, og sótzt er mikið eftir mjólkinni, vegna þess að margir vilja heldur ógerilsneydda mjólk. Og það er vegna þessarar aðstöðu á markaðnum í Rvík, að þeir geta fengið stöðuga eftirspurn eftir vörunni. Þeir þurfa ekki að selja öðrum en þeim, sem standa vel í skilum. Eg fullyrði, að framleiðendur á þessu svæði, sem hafa stundað mjólkurframleiðsluna undir þessu skipulagi, hafa sízt af öllu ástæðu til að kvarta eða vera óánægðir.

Ég veit ekki, hvort það hefir verið einhver misskilningur hjá hv. 1. þm. Reykv., þar sem hann sagði, að það væri alveg fráleitt að blanda mjóikinni á bæjarlandinu saman við mjólk utan úr sveit, utan lögsagnarumdæmis Rvíkur. Þetta er ekki gert almennt. þeir, sem standa framarlega í framleiðslunni og hafa hætt þrifnað í sínum fjósum og fullnægja yfirleitt vissum skilyrðum samkv. heilbrigðiseftirliti, sem gert er miklu strangara en áður, fá að selja beint til neytenda ógerilsneydda mjólk og geta alveg komizt undir þessa undanþágu, og þetta er í samræmi við það, sem gildir innan söluhverfisins. það er vitanlega ákjósanlegast, að framleiðendur komi þrifnaði í fjósunum í það horf, að viðunandi sé frá heilbrigðislegu sjónarmiði, til að selja mjólkina ógerilsneydda. Um þetta er undanþáguákvæði í 5. gr. gömlu mjólkurlagunna, og fyrir þetta, ef þeir vilja vinna fyrir utan samsöluna og borga 3,2 aura, hafa þeir á þann hátt fullkomna vernd fyrir þennan markað sinn. Og ég er ekki í neinum vafa, að þessi vernd fyrir framleiðendur í Rvík er geysimikils virði, eins og líka má sjá af því, að hinir hyggnu bændur og framleiðendur áður töldu það lagnað að selja lítrann fyrir 25 aura ef þeir fengju greiðslu með skilum. Og þegar minnzt er á það, að sjálf Rvík eigi að vera frjáls með sína framleiðslu, þá er því að svara, sem oft hefir líka verið svarað áður, að ef svo ætti að vera, þá er það líka auðvitað mál, að um leið og væri gefið alveg fullt frelsi fyrir framleiðendur mjólkur í lögsagnarumdæmi Rvíkur og Hafnarfjarðar, þá myndi framleiðslan komast í það horf, sem hún stefndi í fyrst eftir að mjólkurlögin voru sett. Þar sem undanþágan var til staðar, voru kúabúin flutt í stórum stíl inn í lögsagnarumdæmi Rvíkur, — hey einnig flutt og fóðurbætir að sama skapi. Það var byrjað á þessu strax eftir að elztu mjólkurlögin voru sett. Dæmi er, að hér fyrir innan bæ og einnig fyrir vestan bæ var byggt 54 kúa fjós á 7 dagslátta túni. Og ekki annar heyfengur til staðar fyrir þetta fjós. Hér er þess vegna farinn sá millivegur, sem við að athuguðu máli álitum þann eðlilegasta. Og það er langt frá því, að komið hafi fram það, sem hv. þm. ætlaði að færa rök fyrir, — fjandskapur gegn ræktun á bæjarlandinu. Eins og líka kemur greinilega fram í ákvæðunum, að þessi undanþága fyrir Rvík hefir einmitt gilt fyrir þá menn, sem hafa

1 hekt. ræktað land fyrir hverja kú. Það er svo langt frá því, að verið sé að sporna á móti ræktuninni. heldur er verið blátt áfram að örva ræktunina hér í Rvík og koma henni á þann grundvöll, sem er eðlilegastur, að mjólkin sé framleidd með heyi, en ekki fóðurbæti. Því að sjálfsögðu er það mjög þjóðfélagslega skaðlegt að hafa mikla mjólkurframleiðslu á aðkeyptum fóðurbæti, þegar mjólkurframleiðslan er orðin svo mikil, að erfitt er að selja vöruna svo að vel fari.

Hv. þm. talaði líka um það, að lögin væru fyrst og fremst sett fyrir austanfjallsmenn, en ég þarf tæpast að svara því, þar sem ég hefi með rökum sýnt fram á, að Reykvíkingar eru stórum betur settir nú en áður en mjólkurlögin voru sett. Yfirleitt er það þannig, að þessi lög hér, eins og annarsstaðar, koma öllum framleiðendum að gagni, vegna þess að þau losa þá við mikið af milliliðakostnaði og halda mjólkurverðinu stöðugu, og reynslan hefir annars sýnt að ekki er unnt að gera með skipulagsleysi. Og reynslan hefir ekki aðeins sýnt það hér og sýnir enn í dag, heldur hefir reynslan sýnt þetta sama bókstaflega alstaðar. Það er þess vegna alveg rangt að halda því fram, að mjólkurlögin séu sett sérstaklega fyrir einhvern vissan hluta framleiðenda. Þau eru sett fyrir þá alla.

Svo er hér brtt., sem hv. 1. þm. N.-M. hefir nú að vísu minnzt á, en ég vildi samt aðeins drepa á þær. Þar er lagt til, að verðjöfnunargjaldið sé ákveðið eftir á, en ekki fyrirfram. Þetta mun vera mjög erfitt í framkvæmdinni fyrir þá sök, að framleiðendum er greitt verð mjólkur á 14 daga eða viku fresti. Og það hefir alltaf verið og verður að hafa það svo í framkvæmdinni, að verðjöfnunargjaldið er tekið jafnóðum og greitt er. Því ef á að ákveða það mánuði eftir á, myndi þurfa að innheimta gjaldið hjá framleiðendum aftur, nema það væri þá látið koma þannig niður, að taka allt af síðustu vikunni, sem ég hygg, að mörgum þætti koma verr við. Því að sú reynsla, sem fengizt hefir á undanförnum árum og fæst stöðugt, gerir fært að ákveða verðjöfnunargjaldið fyrirfram eins og þarf að vera. Og þess vegna má þetta standa eins og það er í frv. En svo er það 3. efnisgr. l. gr., sem bv. 1. þm. Reykv. gerir að sinni till. að falli niður. Því að ef ekki, þá telur hann, að undanþáguheimildin fyrir Rvík sé gerð að engu. Eins og hann orðaði það, má ákveða verðjöfnunargjaldið eftir geðþótta. Þetta er rétt, því ef frv. er athugað nánar, er verðjöfnunargjaldið fyrir Rvík í frv. alveg fastákveðið og má ekki fara með það hærra en til er tekið svo að það getur aldrei gengið út yfir þessa undanþágu á neinn hátt. Að svo miklu leyti sem þetta kynni að líta þannig út, að það gengi út yfir aðra, t. d. þá, sem búa utan við lögsagnarumdæmið vestan heiðar, þá getur það ekki heldur orðið, því að það er ákveðið, ef verðjöfnunarsjóðsgjaldið reynist hærra fyrir einhvern en reynslan sýnir að nauðsynlegt er, þá rennur það í verðjöfnunarsjóð, enda hefir það áhrif á ákvörðun verðjöfnunargjalds, þannig, að þegar það verður ákveðið síðar, verður tekið tillit til þess, hvað þeir hafa borgað, en verður ekki endurgreitt, heldur lagt í sjóð, og borga þeir þá þeim mun minna næst, sem þeir eiga meira inní. Svo að þetta getur ekki gengið út yfir þá, sem framleiða vestanfjalls.

Þá er c-liður, að í staðinn fyrir „sama verð, fyrir mjólkina“ komi „sama verð fyrir jafngóða mjólk“. Þetta ákvæði er líka, eins og b-liðurinn, atriði sem kemur í sama stað niður, vegna þess, að það er ætlazt til þess og beinlínis fyrirskipað í 13. gr. l., að það skuli flokka mjólkina í gæðaflokka og þá um leið verðflokka. Og þess vegna er það beinlínis ákveðið í l. eins og þau eru, að framleiðandinn fái sama verð á sama sölustað fyrir jafngóða mjólk. Og þó að mætti vitanlega taka þetta fram annarsstaðar í l. einnig, eins og gert yrði, ef þessi brtt. yrði samþ., þá er það í sjálfu sér alveg óþarfi. Því að þetta er greinilega ákveðið í 13. gr. og hefir einatt verið þannig í framkvæmdinni. Og í því sambandi má svara þeirri fyrirspurn, sem þessi sami þm. beindi til mín um það, að mjólkin myndi verða flokkuð vestanfjalls, en hann hafði heyrt, að það væri ekki gert austanfjalls, — hann fullyrti það ekki frá sjálfum sér. En það er ekki heldur rétt, að það hafi verið þannig í framkvæmdinni, og getur ekki komið til mála. Og ég get upplýst, að mjólkin að austan er tvískoðuð, í stað þess að mjólkin hér vestra er skoðuð einu sinni og flokkuð einu sinni. Mjólkin í búunum austur frá er flokkuð þar í gæðaflokka og verðflokka, og síðan hér líka í mjólkurstöðinni. Og ég get líka upplýst, að sá maður, sem kom verulega góðu lagi á flokkunina hér og hefir það til sins ágætis að vera mjög strangur í því efni, kom einmitt frá búunum fyrir austan fjall og gekk mjög strangt í að flokka mjólkina eins og hann hefði gert fyrir austan. En með því hefir bann komið góðu lagi á mjólkurframleiðsluna að mörgu leyti austanfjalls, þó að það kostaði mikið stríð, eins og oft vill verða. Þessi brtt. er í sjálfu sér engin breyt. á l.; og þar sem þetta er ákveðið áður, er ég frekar á móti henni, eins og brtt. í b-lið, af þeirri ástæðu, að ég vil ekki, ef hjá verður komizt, láta málið ganga til Nd. aftur.

Þá er það, að fyrsti málsl. 4. gr. falli niður. Það er ekki heldur efnisbreyting. Ég get fallizt á, að þetta er betra mál. En hér ber að sama brunni eins og ég var að benda á viðvíkjandi c-lið; en það er ákveðið, að menn skuli fá sama verð fyrir mjólk sína komna á sölustað, en svo stendur „sbr. þó 13. gr.“, þ. e. í sambandi við það, að mjólkin er flokkuð í gæðaflokka og verðflokka. Það á þó að flokka mjólkina, og þetta „þó“ á að undirstrika þá reglu. Ég viðurkenni, að það er nóg að segja „sbr. 13. gr: “, en þetta hefir þótt gefa meiri áherzlu.

Viðvíkjandi atriðinu um þessa 3 þús. lítra og þeim ákvæðum, sem hv. 1. þm. Reykv. minntist á, vil ég segja, að þessir 3 þús. lítrar eru ákveðnir eftir skýrslum um meðalnyt undanfarin ár, og þær skýrslur eru fengnar frá framleiðendum í Rvík. Það má segja, að það ætti að safna skýrslum stöðugt á hverju ári og gera tíðari mælingar á mánaðarnyt. En það er ákaflega mikil fyrirhöfn því samfara og vitað mál, að með því ástandi, sem nú er orðið í nautgriparæktinni, er þetta talin meðalnyt, nema eitthvað alveg sérstakt komi fyrir, meðalnyt á þessu öllu svæði hér sunnanlands. En óþurrkarnir um allt Suðurlandsundirlendið munu nú hafa í sumar gengið nokkurn veginn jafnt yfir austanfjalls og vestan þannig að meðalnytin lækkar yfirleitt. Og þó að ég vefengi ekki, að menn vildu gefa rétt upp, hver er meðalnyt á þessu svæði, þá kostar það nokkra fyrirhöfn að fá sannanlega réttar skýrslur um það atriði. Virðist mér því eðlilegast að miða við þessa meðalnyt, sem miðað er við í l. eins og þau eru nú, sem fengin er eftir þessum upplýsingum frá framleiðendum. Og ég held það sé óhætt að staðhæfa, að þó að einhver vandkvæði séu á því nú að framleiða þessa meðalnyt, vegna þess hve ákaflega illa gekk með heyskap í sumar, þá muni það vera venjulega hægt.

Viðvíkjandi seinasta atriðinu, að ákvæðið til bráðabirgða falli niður, geri ég mér satt að segja von um, að náist samkomulag um framkvæmd l. eftir að þeim er breytt í þetta horf. Og mér finnst nú af viðtölum, sem ég hefi átt við framleiðendur, að ýms tákn bendi til þess, að svo megi verða, og fremur hefir þokað í þá átt. En hinsvegar treysti ég mér ekki til að mæla með því, að ákvæðið til bráðabirgða verði látið falla niður í þetta skipti. Raunar er það rétt hjá hv. 1. þm. Reykv., að eftir að þessi ákvæði eru orðin að l., er ekki neitt sérstakt um að deila milli framleiðenda, vegna þess að þeir hafa sameiginlega hagsmuni. Má þess vegna búast við, að þetta samkomulag náist; þó að það sé náttúrlega ekki útilokað af reynslunni hér — og alstaðar annarsstaðar —, að eitthvað dragist samkomulagið, og sé þess vegna betra að hafa bráðabirgðaákvæðið fyrst, meðan verið er að koma framkvæmdum af stað. Ég hefi nýlega verið að kynna mér fyrirkomulag á mjólkursölumálum í Englandi. Og þó að samkomulagið hafi verið slæmt hér stundum um mjólkurskipulagið, þá er óhætt að fullyrða, eftir því, sem dagblöðin skýra frá, að samkomulagið þar hefir stundum verið ennþá lakara, og hefir þar orðið að leysa upp fundi hvað eftir annað. En þrátt fyrir þetta hafa Englendingar haldið fast við sitt skipulag. Það er í þessum efnum svo afarerfitt að komast hjá óánægju, vegna þess að hver aðili telur sinn hlut eiga að vera stærri en hann er. En ég geri mér sem sagt von um samkomulag. Og þar gerir hv. 1. þm. Reykv. mér alveg rangt til, að ég óski eftir því fyrir mig að hafa þetta skipulag í mínum höndum. Ég vil miklu fremur vera laus við það og láta bændur sjálfa hafa stjórnina þegar ég sé að þeir geta það án þess að skipulagið biði hnekki. Það held ég að flestir geti skilið. Það er svo um þetta mál, að það á ýmsan hátt veldur miklu annríki og kostar mikið erfiði að halda skipulaginu uppi, þó að þetta sé nokkuð breytt í seinni tíð.

Ég get minnzt á það hér, að mikið hefir verið um það rætt, að mjólkurstöðin í Rvík sé ekki eins og hún þyrfti að vera til þess að hægt sé að senda þaðan alveg fyrsta flokks vörur að öllu leyti og ég hefi leitað samkomulags við alla framleiðendur um það, að þeir yrðu samtaka um að byggja nýja mjólkurstöð og fullkomnari, sem gæti sent frá sér hinar fullkomnustu neyzluvörur fyrir bæinn. Þeir hafa tekið því miklu betur en því hefir verið tekið nokkurn tíma áður. Það hefir verið minnzt á, að það þyrfti að leggja niður gömlu stöðina með miklu tjóni fyrir bændur vestanfjalls. Ég tók það til ráðs að fá mann frá útlöndum, sem ekki er um deilt, að er einn af færustu mönnum í þessari grein á Norðurlöndum, byggingu slíkra stöðva, og hefi látið hann í samráði við eigendur mjólkurstöðvarinnar hér rannsaka möguleika fyrir endurbótum á þessari stöð, eða að koma mjólkurvinnslunni þannig fyrir, að hún verði sem hagkvæmust og eyðileggi sem minnst verðmæti fyrir bændum vestanfjalls. Og jafnframt að málinu verði komið í það horf, að stöðin verði fyrsta flokks. Ég hygg, að náist samkomulag milli bænda um það, að búin standi öll að þessari stöð. Og það er spor í áttina til þess, að þeir geti tekið við stjórn þessara mála. Þetta þokast í áttina. En eins og ég sagði, hygg ég hentugra að hafa báðabirgðaákvæðið enn, meðan verið er að koma framkvæmdum af stað.