14.12.1937
Efri deild: 49. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

Frsm. 1. minni hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Þeir tveir hv. þm., sem hér eiga brtt. á þskj. 365 og 362, hafa báðir lýst þeim, og í þessu sambandi talaði hv. 1. þm. Reykv. allmikið um sögu þessa máls. Ég skal ekki fara langt út í að svara honum, enda hefir hæstv. forsrh. þegar gert það, en þó vil ég ekki láta hjá líða að benda á nokkur atriði, sem hann nefndi og eru eiginlega eins og spegilmynd af allri hans ræðu. Hann var t. d. að tala um, að það væri mikill skattur, sem hefði verið lagður á herðar manna hér á bæjarlandinu með því að skylda þá til þess að gerilsneyða mjólk. Það væru 100 þús. kr. á ári hér í Reykjavík, sem rynnu beint í sjóð vegna stöðvargjaldsins. Það væri ekki svo vel með þetta eins og það fé, sem rennur í verðjöfnunarsjóð, sem það færi að nokkru leyti til annara manna. Allt gjaldið, sem stöðin fær, er 110 þús. kr. Eftir því ætti 'ít af allri mjólk, sem í stöðina fer, að vera framleiddur af öðrum mönnum en þeim, sem búa á bæjarlandinu. Ætti því allt svæðið frá Skarðsheiði til Hellisheiðar, að Reykjavík meðtalinni, að framleiða lít hluta af þeirri mjólk, sem fer í stöðina. Svona var sannleikurinn að því er þetta atriði snertir. Svona var hv. þm. vel inni í málinu að því er þetta snertir, og svipað var það á öðrum stöðum. (MJ: Þetta er tómur misskilningur hjá hv. þm.). Í öðru lagi var hv. þm. að hella sér mikið yfir gerilsneydda mjólk og skylduna til að gerilsneyða hana. Hann gleymdi ákvæðinu um undanþágu í þessu sambandi. Hann hélt því fram í þessu sambandi, að það nægði, ef dýralæknir skoðaði kýrnar einu sinni á ári, og ef þær væru þá heilbrigðar þann eina dag, þá væri svo sem ekki að efa, að þær væru það alla hina 364. Svona var rökstuðningur hv. þm., og á svipaðan hátt voru röksemdir hans að öðru leyti. En það var þó eitt, sem gladdi mig í þessum almennu hugleiðingum hans, og það var það, að hann hellti

sér mikið yfir þann stað í grg. frv., þar sem talað er um, að menn hafi verið hissa á mjólkuraukningunni. Hann vissi það fyrir, þegar mjólkurl. mundu verða sett og verðið þeirra vegna hækkaði á mjólk til bænda, en lækkaði um 2 aura í Rvík, þá mundi koma aukning á mjólkinni. Hv. þm. hefir staðið á móti l., af því að hann hefir ekki viljað þessa aukningu. (MJ: Nei). Hann hefir ekki viljað, að kúafjöldinn ykist eða ræktaða landið, eins og hann upplýsti, að hefði orðið með setningu laganna. Þetta er nýtt „moment“, sem maður heyrir hér lagt fram; þegar ljós sögunnar er farið að skína á hlutina í minni hv. þm., og þetta „moment“ sýnir eina ástæðuna til þess, að hann var á móti þessari aukningu á sínum tíma. Ég hefi hér nefnt dæmi af handahófi, og þau nægja til þess að sýna, að hitt, sem hv. þm. talaði um sögu málsins, var af álíka sterkum rótum runnið og annað í ræðu hans — staðlausir stafir, og annað ekki.

Að því er snertir brtt. þær, sem hér liggja fyrir, þá talaði hæstv. forsrh. allrækilega um brtt. á þskj. 365, svo að ég þarf ekki miklu við það að bæta, en þó get ég ekki stillt mig um að benda á 2. brtt. á því þskj., stafl. b við 3. gr., þar sem lagt er til, að það sé bætt við þau ákvæði, sem fyrir eru í 13. gr. l. um flokkun mjólkurinnar eftir gæðum, en vegalengd og aldur mjólkurinnar hafður sem mælikvarði. Þessi brtt. sýnir það eitt með öðru, hve hv. þm. hefir eiginlega lítið sett sig inn í þessi mál. Það eru yfirleitt tvær aðferðir notaðar í heiminum til þess að rannsaka gæði mjólkurinnar í mjólkurbúum og rjómabúum og báðar eru viðhafðar hér, en undir hvoruga kemur vegalengd eða aldur nema óbeint. En það hefir engum dottið í hug að vera eins frumlegur og hv. 1. þm. Reykv. að láta þessar venjulegu aðferðir liggja á milli hluta, en hafa aftur kílómetrafjöldann, sem búið er að keyra mjólkina, og klukkutímafjöldann síðan hún kom úr kýrspenanum fyrir mælikvarða. Nú er það eins og allir vita, að mjólk, sem er ekki nema á öðrum tímanum, getur verið afleit á einum stað, en hinsvegar 30–40 tíma gömul mjólk góð á öðrum stað, svo að það þarf ekki að standa í neinu sambandi við gæði mjólkurinnar, hvort hún er flutt lengur eða skemur.

Það var aðallega till. frá hv. 6. landsk. á þskj. 362, sem hæstv. ráðh. minntist ekkert á, og ég vil þess vegna minnast lítið eitt á. Það er 1. brtt., a-liður við 1. gr., sem líka var á ferðinni í Nd., en mér skildist hv. 1. þm. Reykjav. vera að mæla á móti. Um þá till. vil ég segja það, að ég skil satt að segja ekki vel, hvernig hugsað er að framkvæma hana. Við ákvörðun gjaldsins á að taka hæfilegt tillit til mismunandi kostnaðar við framleiðsluna á ýmsum stöðum. Við skulum hugsa okkur tvo bændur. Í Múla í Reykjavík er líklega bezta kúabú í bænum. Þar er meðalnytin kringum 3½ þús. l., og með því fóðri, sem kýrnar þurfa, kostar 1/3 minna að framleiða mjólkina hjá þessum manni heldur en hjá þeim manni, sem nefndur var í umr. í kvöld og á miklu verri kýr. Kostnaðurinn við framleiðsluna er misjafn hjá þessum mönnum.

Samkv. till. á Búnaðarfélag Íslands að hafa eitthvert eftirlit með þessu og gefa upplýsingar um, hvað megi leggja mikið verðjöfnunargjald á ódýru mjólkina og hvað mikið á dýru mjólkina, og svo á að bæta upp mismuninn, svo að sá, sem á dýru mjólkina, af því að hann á slæmar kýr, fái sama verð eins og hinn. Þetta er víst til þess að hvetja menn til þess að hafa ódýra framleiðslu og eiga sem bezta gripi. Ég skil ekki þennan hugsunarhátt. Ég held því, að það eigi ekki að samþ. þessa till. — 2. till., sem er við 3. gr., er um mjólkurstjórnina, sem samkv. till. á að koma í staðinn fyrir bráðabirgðaákvæðin, sem eru í núgildandi l. Hún kemur af sjálfu sér, þegar sú reynsla og samvinna næst milli manna á mjólkursvæðinu, að þeir taki stj. í sínar hendur, því að þá falla bráðabirgðal. í burtu, en meðan það ekki er og ekkert liggur fyrir um, að sá grundvöllur sé til staðar, þá er nauðsynlegt að halda bráðabirgðal., og þá er ástæðulaust og rangt að samþ. þessa brtt. Í sambandi við það er 3. brtt., sem ekki á að samþ., ef 2. brtt. er ekki samþ.

Um till. á þskj. 365 þarf ég fátt að segja, því að ég hefi þegar talað um b-lið 2. brtt. og hinar hefir hæstv. forsrh. hrakið sundur lið fyrir lið og sýnt fram á, að sumpart eru þær óþarfar, eins og c-liður 1. brtt., eða að þær eru meira og minna til skemmda og eiga ekki að samþ. Það er aðeins a-liður undir stafl. 2, sem ég finn ástæðu til þess að fara um nokkrum orðum, og það er þessi 3000 lítra kýrnyt, sem ég finn sérstaklega ástæðu til þess að minnast á. Skal ég þá fyrst upplýsa, að af þeim 800–1000 kúm, sem nú eru hér í Rvík, liggja fyrir skýrslur um tæplega 300, sem sýna, að meðalnytin fyrir 1936 var 2980 kg. hjá fullmjólka kúm, en 1 kg. af mjólk er ekki alveg sama og 1 lítri, því að eðlisþyngd mjólkurinnar er 1,016 -l,021. Það hreyfist dálitið, og þessar tölur sýna, að samkv. mjólkurskýrslunum liggur ársnytin aðeins fyrir neðan 3000 lítra, en í sambandi við þessa 3000 lítra er rétt að minnast á það, hvernig þessi tala er komin inn í l. Hún kom í Nd. á sínum tíma á þann hátt, að upprunalega, Þegar verið var að eiga við l. og meðalársnytin var höfð sem grundvöllur undir það, hve mikil mjólk átti að vera undanþegin verðjöfnunarsjóðsgjaldi, þá átti að ganga út frá ákveðinni lítratölu á kú. Þá voru þeir hv. þm. Reykv. Jakob Möller og Pétur Halldórsson, mjög harðir á því, að meðalársnytin í Rvík væri 3500 lítrar, og vildu halda þeirri tölu uppi, en við meðferð málsins í d. breyttist þetta svo, að lítraákvæðið varð ekki grundvöllurinn fyrir því, hve mikið menn sluppu við að borga af, heldur hve mikið menn þurftu að borga af, og þá komu sömu menn með jafnsterka fullyrðingu um það, að nú væri kýrnytin ekki nema 2500 lítrar, sem daginn áður var 3500 lítrar. Það var óþægileg aðstaða að halda fram því þveröfuga við það, sem áður hafði verið fullyrt, og afleiðingin af því var sú, að farið var nálægt því rétta, í kringum 3000 lítra. Þessi tala kom inn með samkomulagi milli allra aðilja, og þess vegna sé ég enga ástæðu til að fara að breyta henni nú, enda þótt till. hv. 1. þm. Reykv. geri hvorki til né frá að því er snertir þetta atriði, því að þetta er nálægt meðaltali, og það verður aldrei sett þarna nein tala, sem ekki verður eitthvað til ágóða fyrir suma og öfugt fyrir aðra, því að það eru vitanlega ekki allir, sem hafa meðalnyt; það eru nokkurn veginn jafnmargir fyrir ofan og neðan. Ég held þess vegna, að hv. d. geri rétt í því að fara ekki að senda þetta frv. milli d. með því að samþ. einhverja smáorðabreyt., og jafnvel þótt það væri einhver efnisbreyt., sem gæti farið betur, heldur eigi að samþ. frv. óbeytt og lofa því að fara þannig í gegnum þingið eins og stendur, og þá eru miklar líkur fyrir því, að þessi bráðabirgðaákvæði, sem litið var á með litlum velvildaraugum af sumum, eins og hv. 1. þm. Reykv., sem var að tala um, að þessar „stundarsakir“, sem ákvæðin áttu að gilda, væru orðnar nokkuð langar. Hann veit, að stundum getur stundin verið nokkuð löng, og ég hygg, að sú stund komi áður en langt um liður, að sú samvinna fáist um mjólkurl. milli framleiðenda, að þeir geti orðið það sammála, að þeir taki málið í sínar hendur. Þetta er sú eðlilega þróun, sem á að verða í þessu máli. Á meðan hún er ekki fyrir hendi, þarf á bráðabirgðaákvæðunum að halda, og það á ekki að setja neitt í staðinn fyrir þau.

Það er orðið svo áliðið kvöldið, að ég sé ekki ástæðu til að ræða um þetta lengra mál, enda voru þau dæmi, sem ég tilfærði, nægileg til þess að benda mönnum á, hvað miklum rökum ræða hv. 1. þm. Reykv. var reist á, en hitt, sem ég fór ekki út í, var svipað eins og það, sem ég hefi tekið.