14.12.1937
Efri deild: 49. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

Magnús Jónsson:

Ég er aðallega sammála hv. 1. þm. N.-M. um eitt, að það sé orðið nokkuð framorðið. Það var það skynsamlegasta, sem hann sagði, og skal ég því fara að hans dæmi og vera ekki alltof langorður. Hann sagði, að till. þær, sem ég hefi borið fram, væru smávægilegar, og ég læt mér það lynda, að þær séu það. Þeim mun viðurhlutaminna er að samþ. þær, því að ég get fullvissað hann um það, að það er engin hætta á því, að ekki sé hægt að afgr. frv., þó að þessar leiðréttingar yrðu samþ., því að frv. hefir nógan tíma til þess að ná samþykki með þeim þingvilja, sem má búast við, að sé bak við það í hv. Nd. Hv. þm. vildi sýna fram á, hversu óheyrilega heimskulega ég hefði talað, þegar ég var að lýsa andstöðunni á móti mjólkurl., þegar þau voru sett. Hann hélt því fram, að ég hefði sagt, að það hafi átt að leggja 100 þús. kr., eða svo tekið sé dýpra í árinni 120 þús. til 150 þús. kr. gjald á menn að óþörfu, með því að neyða þá til þess að láta gerilsneyða alla mjólk. Svo vildi hann sýna fram á, hver heimska þetta væri, með því að segja, að stöðvargjaldið allt væri 110 þús. kr. Allar þessar bollaleggingar eru út í hött hjá hv. þm. Ég var ekki að tala um það ástand, sem er; ég var að lýsa því, hvað það var, sem olli þessari sterku andstöðu. Þá var gert ráð fyrir, að meginhlutann af mjólkinni í Reykjavík væri skylt að gerilsneyða, og það var talið, að það kostaði hér um bil 8–9 aura að gerilsneyða mjólkina, og þar sem um er að ræða 2 millj. lítra, þá þarf ekki mikinn reikningsmann til að sjá, að það var lagður 160 þús. til 170 þús. kr. skattur á menn fyrir að gerilsneyða mjólkina, sem þeir gátu selt eins góða úr fjósunum til neytenda. Nú veit ég vel, að þetta hefir reynzt þannig, að menn hafa ýmist hætt hreinlæti í fjósum sínum eða að það hafi verið dálítið minnkaðar þessar óvinsælu kröfur um, að það þyrfti endilega að gerilsneyða alla mjólk, svo að þessi kostnaður er ekki nú svo mikill. Hv. þm. sagði, að ég væri spámannlegar vaxinn en nokkur annar maður fyrst ég hefði séð fyrir, að það yrði stórkostleg aukning á mjólkurframleiðslunni við að þessi l. væri samþ. Ég skil ekki, hverskonar spádómsgáfu þurfti til þess að spá öðru eins og þessu. Héruðin fyrir austan fjall eru mjög vel fallin til kúaræktunar, og það, sem stendur í vegi fyrir því, að menn breyti búskap sínum í kúabú skap, er að þeir fá ekki nógu hátt verð fyrir mjólkina, svo að það þarf ekki spámann til að sjá, að ef hver litri af mjólk, sem framleiddur er á undirlendinu, er svo og svo mikið bættur upp, að menn halli sér þá frekar að þessum búskap á eftir. Ég veit ekki, hvað mikið það er, sem búið er að borga í verðjöfnunargjald austur yfir fjall, en ég var að reyna að reikna það í huganum, og mér virtist það vera nálægt 3/4 millj. kr., en það hlýtur að vera afarmikið gjald, sem hefir verið borgað fyrir mjólk og rjóma og annað, sem bætt hefir verið upp. Ég skal ekki segja fyrir víst, hve mikið þetta gjald er. En ég tek þakksamlega við upplýsingum frá hv. 1. þm. Rang., ef hann brýtur ekki þing reglur með því að veita þær. En það er, a. m. k. eftir þeim mælikvarða, sem á þetta er hægt að leggja, svo mikið gjald, að enginn maður þarf að undrast, þegar ein búskapargrein fær stórfé sér til styrktar, en aðstaða annara greina landbúnaðarins er ekki bætt að sama skapi, þó að menn breyti sínum búnaðarháttum á þennan hátt. Víða, þar sem svona skipulagi hefir verið komið á, hefir aukning mjólkurframleiðslunnar orðið geysimikil, þó að hún hafi kannske orðið ennþá meiri hér hlutfallslega en í nágrannalöndunum, vegna þess hve miklu fé hefir verið varið til styrktar þessari framleiðslu hér hjá okkur.

Já, þá fellur nú ljós sögunnar yfir allan kúaflotann, eftir því sem hv. þm. sagði. Hann sagði líka, að það væri auðséð hvað mér gengi til; að ég hefði á móti því, að kúafjöldinn væri aukinn. Ja, ég verð nú að segja, að þegar kúafjöldinn er orðinn það mikill, að mjólkurframleiðslan er nokkurn veginn það fyllsta, sem hægt er að selja við viðunandi verði, þá álít ég ekki skynsamlegt að auka kúafjöldann úr því. Offramleiðsla er hættuleg, svo á mjólk sem öðru. Maður sér það á grg. frv., að þeir, sem frv. hafa samið, eru orðnir í standandi vandræðum með kúafjöldann, einmitt vegna þess, hvað menn hafa breytt sínum búskap úr öðrum búskapargreinum yfir á kúabúskap. Því að þó að verðjöfnunargjaldið væri hækkað upp í hæsta gjald, sem l. gera ráð fyrir, þá hefir samt verið langt frá því, að hafi nægt til þess að bæta upp mjólkurverðið eins og þurft hefði. Eftir því sem kúnum fjölgar meira, eftir því verður verðjöfnunargjaldið meira ófullnægjandi. Og þegar framleiðsla mjólkur er orðin svo mikil, að verðjöfnunargjaldið útheimtir meira fé en hægt er með góðu móti að greiða, þá er kúafjöldinn orðinn meiri en heilbrigt er. Það er mikið spursmál, hvort ekki þarf að grípa til annara ráðstafana heldur en þessa gjalds á mjólkinni til þess að geta borið uppi þennan mikla kúafjölda.

Hv. þm. sagði, að et þetta frv. yrði samþ., þá mundi það verða til þess að koma á prýðilegu samkomulagi milli allra aðilja. En ætli þetta frv., ef samt. verður, gæti ekki alveg eins einmitt í sambandi við hinn mikla kúafjölda, orðið til langstærsta árekstursins, sem gæti orðið í þessu sambandi, sem sé, að verðjöfnunargjaldið verði alveg óbærilegt, einmitt vegna kúafjöldans og vegna þess, hve mikill partur af mjólkinni fer í vinnslu, sem aftur geti leitt til þess, að allur almenningur fengi of lítið fyrir sína mjólk eða að mjólkurverðið að öðrum kosti stórhækkaði? Það er því að mínu áliti allt annað en góður friður í þessum málum fram undan, þó að þetta frv. verði samþ.

Þá fannst hv. þm. það goðgá hjá mér, að mér virtist, að ég vildi taka til greina ekki aðeins gerlagróður í mjólkinni, heldur líka hvaða vegalengd væri búið að flytja hana, þegar metin væru gæði hennar. Ég get hugsað mér, að það sé nokkuð óvanalegt, að neyzlumjólk komi jafngömul á markaðinn eins og á sér stað hér á landi. Samgöngur í öðrum löndum eru miklu greiðari, og mjólkina þarf ekki heldur að flytja eins langt, vegna þess að þéttbýlið er miklu meira þar en hér. Mér þykir líklegt, að þar þurfi ekki að leggja ákaflega mikla viðáttu undir eitt verðjöfnunarsvæði. Ég get vel trúað, að þetta spursmál, hvort mjólkin skemmist sem markaðsvara við langa flutninga, hafi bara alls ekki komið þar til greina. Þar að auki þarf enginn að hugsa sér, að flutningur á mjólk á ákaflega þýðum járnbrautarvögnum — og þannig mun mjólkin mest vera flutt víða erlendis — sé neitt á móts við það gutl á mjólkinni, sem verður við það að flytja hana á bílum á vondum vegum, kannske upp undir 100 km.

Þá ætlaði hv. þm. að nudda mér upp úr einhverju, sem Jakob Möller og Pétur Halldórsson hefðu sagt. Ég hefi víst nóg á minni könnu, þó að ég svari ekki fyrir þá.

Ég veit ekki, hvernig stendur á þessum 900–1000 kúm, sem hv. þm. sagði, að væru hér í Rvík. Árið 1935 voru þær held ég 627, og ég grennslaðist eftir því á hagstofunni í dag, hvað þær mundu vera margar. Þeir höfðu þar ekki nýrri skýrslur en frá árinu 1936, og eftir þeim virðist kúaeign hér í Rvík vera nokkuð svipuð þá og árið 1933.

Mjög illa kann ég við það, að í frv. eru tvö lögsagnarumdæmi á landinu tekin út úr og þar er slegið föstu, hvað meðalársnyt skuli talin úr hverri kú, nefnilega 3000 l., en hinsvegar ákveðið, að ef meðalársnyt á öðrum stöðum reynist lægri, skuli hún ekki reiknuð svo út sem í þessum tveimur tilteknu lögsagnarumdæmum. (Forsrh.: Það er af því, að þessi lögsagnarumdæmi standa utan við skipulagið, þannig að mjólkin þaðan fer ekki gegnum samsöluna, en mjólk úr öðrum lögsagnarumdæmum öllum á samlagssvæðinu fer í gegnum samsölur). Ég sé ekki, að það komi neitt þessu við. Það kemur til greina um alla mjólk, sem ekki heyrir undir þetta skipulag, að hún fer ekki í gegnum samsölur. Ef menn t. d. á Akureyri vilja selja sína mjólk beint til neytenda, þá verða þeir að borga verðjöfnunargjald, sem verður aftur miðað við þessa lágu ársnyt úr hverri kú, ef meðalnitin reynist lægri en 3000 lítrar. Það er vitanlega ekki með sanngirni hægt að verja það að hafa ekki alveg eins ákvæði um alla í þessu efni,sem ekki selja gegnum samsölur. Það getur ekki verið annað en rangt að taka Reykjavík og Hafnarfjörð út úr í þessu efni, eins og gert er í frv. Og hvað sem um þetta er annars hægt að segja, ef 1000 kýr eru hér í Rvík og þær mjólka 2 millj. lítra samtals, þá eru það a. m. k. ekki 3000 l., sem hver kýr mjólkar að meðaltali, ef rétt er reiknað. Það getur ekki staðizt. (Raddir af þingbekkjum: Það er rétt athugað hjá hv. þm.).

Ég vík þá að hæstv. forsrh. og hans svari. Hann sagði, að með mjólkurl. væri stefnt að sama skipulagi hér á landi sem nú er hjá Norðmönnum. Ég hefi þegar bent á, að þó að þetta sé á yfirborðinu líkt, þá er þetta tvennt þó ekki eins, vegna þess að í Noregi hafa framleiðendur öll yfirráð þessara mála í eigin höndum. Og það horfir allt öðru visi við hjá þeim, þar sem þeir geta engum um kennt, hvernig um þetta skipulag hjá þeim fer, öðrum en sér sjálfum. Mér er sagt, að um samsölur sé þar ekki að ræða, heldur sé það hvert mjólkurbú eða félag, sem stjórni sölu sinnar mjólkur, en menn séu þar ekki neyddir saman í samsölur. En meginástæðan til allra þeirra árekstra og allrar þeirrar stirðni, sem fram hefir komið í sambandi við mjólkursölumálin hér hjá okkur, er sú, að það fæst ekki, að stjórn þessara mjólkurmála sé í höndum framleiðendanna sjálfra.

En ætli það hafi nú ekki getað blandazt ögn af pólitík inn í þetta? Það er ögn þægilegt fyrir pólitískan ráðh. að geta skipað fyrir og skikkað og skapað mönnum kjör og geta haft hönd í bagga um það, hverjir eigi að hafa betri hlutann af því hagræði, sem þetta skipulag skapar. Þó honum því náttúrlega leiðist að hafa með þessi mjólkurmál að gera, þá hafa þau kannske ekki orðið alveg gagnslaus.

Ég skal hlaupa yfir minni atriði, t. d. hvort hin eðlilega þróun hafi stefnt rétt í mjólkursölumálunum hér í Rvík, hvort hún hafi stefnt eins og á Akureyri, þar sem mjólkurverðið komst niður í 17 aura pr. lítra. Mér þykir ekki ólíklegt, að Thor Jensen og aðrir, sem mikilla hagsmuna höfðu að gæta um, að mjólkurverðið hrapaði ekki niður úr öllu valdi, hefðu kannske getað haft vit á því að skipuleggja mjólkursöluna á eigin spýtur fyrr en verðið var komið niður í 17 aura pr. lítra. Mér hefir aldrei dottið í hug, að rétt væri að sporna við því, að löggjafinn kæmi með hjálpandi hönd, heldur hefir mér þótt það rétt, að slíka hjálparhönd ætti að rétta mjólkurframleiðendum til þess að koma á söluskipulagi, ef þeir ekki eru færir um það aleinir. En þróunin gekk nú bara ekki í þá átt að láta mjólkurverðið hrapa niður úr öllu valdi.

Hæstv. landbnrh. sagði eftirtektarverð orð í sambandi við minar hugleiðingar út af þessari geysiaukningu á mjólkurframleiðslunni, sem ég tel komna langt út fyrir það, sem heppilegt er. Hæstv. ráðh. var að tala um, að það væri vafamál, hversu lengi bændur héldu út að selja þessa vöru sína svo lágu verði, þegar aðrar neyzluvörur hækkuðu í verði, og benti á, að alsstaðar annarsstaðar hefði mjólkin hækkað. Stendur þá mjólkurverðhækkun fyrir dyrum? Er þá frv., sem hér liggur fyrir, einskonar forspil að því, að nú eigi að hækka mjólkurverðið? Ég get vel trúað því, að löggjöf eins og þessi geti stuðlað að því, að ómögulegt verði annað en að hækka mjólkurverðið. Ef á að jafna verðið á allri þessari mjólk, sem nú verður að fara meira og meira hlutfallslega af í vinnslu til þess að framleiða úr henni svo og svo ódýra osta o. þ. h., þá verður meðalverð á henni hvað af hverju svo lágt, að bændur geta ekki framleitt hana lengur fyrir það verð, sem nú er á henni. Þá vil ég segja, að betur hafi verið farið en heima setið, ef bændur eru á yfir 100 km. svæði lokkaðir til þess með fégjöfum að hreyta um búskaparháttu, til þess að framleiða vöru, sem enginn markaður er orðinn fyrir, og það svo verður til þess að varan verður að hækka í verði fyrir 1/3 hluta þjóðarinnar, sem þarf mjög á mjólk að halda og kæmi engin gjöf verr en að hækkað yrði mjólkurverðið. Það ætti heldur að auka kjarabætur bænda með þeirri aukningu á neyzlu á mjólk, sem kæmi fram við það, að aukið hlutfall af henni væri selt sem neyzlumjólk óunnin. Mörg heimili eru ýmist að auka stórum mjólkurneyzlu sína vegna þess hvað aðrar vörur hækka í verði, eða hafa í hyggju að gera það. Þetta væri heilbrigð stefna fyrir mjólkursölumálið, ef tekizt gæti og ef hún yrði til þess, að mjólkurneyzla ykist stórum. Og tvímælalaust ætti að ná verðjöfnunargjaldi, sem nauðsynlegt kann að verða fram yfir það, sem nú er, með öðrum hætti heldur en með því að hækka mjólkurverðið, til þess að forðast þann árekstur, að annaðhvort verði bændur að framleiða mjólkina með tapi eða þurfi að hækka hana í verði.

Þá sagði hæstv. fors.- og landbrh., að mjólkin hefði hækkað í verði til framleiðenda. Ég býst nú við, að þetta sé rétt eða ekki rétt, eftir því við hvaða framleiðendur er átt. Ég efast ekki um, að svo sé um mjólkurverðið til þeirra, sem áður fengu enga uppbót, en nú hafa fengið verðjöfnunargjald. En eftir því, sem ég hefi komizt næst, hefir verð hennar lækkað, en ekki hækkað til þeirra, sem verðjöfnunargjaldið verða að bera. Ég skal ekki segja um þá, sem selja mjólk beint til neytenda, hvaða áhrif þessi löggjöf hefir haft á viðskipti þeirra. Það kann að vera, að þeir nái betur inn sínum skuldum heldur en áður. En ég hefi fyrir satt, að þeir menn, sem senda mjólk sína til gerilsneyðingar í samsöluna, muni fá 1–2 aurum minna fyrir lítrann nú heldur en þeir fengu hjá Mjólkurfélagi Reykjavíkur áður. Það er ekki alveg auðvelt að bera þetta saman með nákvæmum tölum, vegna þess, hvernig útborgun er hagað.

Aðstaða framleiðenda í Reykjavíkurlögsagnarumdæmi hefir batnað, segir hæstv. forsrh. Hvers vegna er þá þessi óánægja? Ég skil ekki. af hverju þessir sömu menn eru óánægðir með þetta skipulag. Það er ekki það venjulega, að menn séu óánægðir með það, sem þeir hafa peninga upp úr. A. m. k. er enginn óánægður út af mjólkursölufyrirkomulaginu af þeim, sem fá verðjöfnunargjaldið. Þeirra aðstaða hefir batnað. Þeir eru ánægðir. Hvers vegna er þá óánægjan? Ég heyri um nýja og nýja menn, sem verða að hætta alveg við kúabú hér í lögsagnarumdæmi Rvíkur, síðan þessi breyt. komst á. Ég hefi verið að reyna að komast að því, hvort kúm hefir fækkað hér í Reykjavík í heild síðan samsalan kom. Skýrslur eru ekki svo nýjar til, að hægt sé að vita um það með vissu. En ég held, að þeim sé hætt að fjölga. Hvers vegna er það, ef löggjöf þessi bætir aðstöðu framleiðenda mjólkur í Rvík til framleiðslunnar, að þessir menn hverfa frá þessum atvinnuvegi og hætta?

Hæstv. forsrh. sagði, að þeir, sem seldu ógerilsneydda mjólk beint til neytenda, fengju 36-37 aura fyrir mjólkina. (Forsrh.: Þetta er lágmarksverð nettó, en þeir selja hana allir fyrir 40 aura lítrann). Ég þrátta ekki við hæstv. forsrh. um tölur. En ef verð mjólkurinnar er 38 aurar og borgaðir eru 3–4 aurar af þeirri sömu mjólk í verðjöfnunargjald, þá skil ég ekki, hvernig þessir sömu framleiðendur fá 36–37 aura nettó fyrir mjólkurlítrann. Jafnvel þó að þessir menn seldu mjólkina á 40 aura, væri það frítt reiknað að ætla þeim að fá þetta nettó, því að alltaf er einhver kostnaður við að senda mjólkina heim til neytendanna. (PZ: Mjólkin er seld á 38 aura í fjósunum, en á 40 aura heimsend). Ég hefi keypt dálitið af mjólk í fjósum, og hún hefir verið seld þar á 38 aura. Get ég ekki ætlað, að þeir, sem selt hafa mér, geti fengið 36–37 aura fyrir hana nettó.

Hæstv. forsrh. taldi erfiðleika á því að reikna út verðjöfnunargjaldið eftir á, vegna þess að þá mundi þurfa að innheimta það á eftir. Mér er nú sagt, að mönnum sé greitt út fyrir mjólkina einu sinni í mánuði, fyrir 21. hvers mán. fyrir hvern liðinn mánuð. Það er ekki hægt að neita því, að verðjöfnunargjaldið er enn þá vissara, ef hægt er að reikna það út eftir á. Ef samsalan vinnur ekki alveg peningalaust. þá væri ekki frágangssök, þó að hún svaraði út einhverju fyrirfram, sem hún gæti tekið inn, þegar hún reiknar verðjöfnunargjaldið á næsta mánuði. En ef ákvörðun verðjöfnunargjaldsins er ekkert annað en bara reikningsdæmi, þar sem reiknað væri út meðalverð allrar mjólkur á verðjöfnunarsvæðinu, sem fer til ýmissa nota, þá er öruggasta leiðin til þess að reikna þetta gjald rétt út, að reikna það út eftir skýrslum. Þannig hafa Norðmenn það. Þeir heimta skýrslur frá mjólkurbúunum og reikna svo út verðjöfnunargjaldið upp á brot úr eyri.

Viðvíkjandi brtt. minni um það, að láta ekki ágóða mjólkursölunnar renna í verðjöfnunarsjóð, verð ég að játa, að ég skildi ekki eitt orð í því, sem hæstv. forsrh. sagði um það. Hann talaði um, að verðjöfnunargjaldið væri hægt að ákveða svo og svo hátt, og ég veit ekki hvað og hvað. En þetta atriði liggur ljóst fyrir og kemur verðjöfnunargjaldinu hreint ekkert við. Það stendur hér í 3. efnismgr. 1. gr. frv., með leyfi hæstv. forseta: „Tekjuafgangur mjólkurbús eða mjólkursamsölu á sölusvæðinu skal renna í verðjöfnunarsjóð“, og síðast í þeirri sömu mgr. sem beint framhald af þessari tilfærðu setningu: „enda hafi það þá áhrif á ákvörðun verðjöfnunargjaldsins“. M. ö. o., þetta, hversu mikill ágóði verður af mjólkursölunni, það skal hafa áhrif á ákvörðun verðjöfnunargjaldsins alveg eðlilega. Því meiri sem ágóðinn verður af mjólkursamsölunni því lægra getur verðjöfnunargjaldið orðið til þess að geta bætt upp alla mjólkina. Og með því að borga mönnum nógu lágt fyrir mjólkina og láta vera nógu mikinn gróða á sölunni gæti komið að því að lokum, virðist mér, að ekkert verðjöfnunargjald þyrfti að borga til samsölunnar, með því að ágóðinn á sölunni gæti nægt til þess að bæta mjólkurverðið upp. Og í raun og veru, ef engar undanþágur væru undan því að greiða verðjöfnunargald, þá væri þetta langeðlilegasta aðferðin til að greiða verðjöfnunargjaldið. En þegar vissir menn hafa undanþágu frá verðjöfnunargjaldi, en taka á hinn bóginn þátt í samsölunni, þá er augljóst, að hægt er að svipta þá algerlega þessari undanþágu með því bara að láta útborgun á mjólk vera svo lága, og þetta hefir meira að segja verið framkvæmt þannig. Ekki man ég betur en ég sæi fyrir nokkru harðorða deilu í blöðum um það, að ágóði, allmikil fúlga, af samsölunni, væri bara notaður til þess að borga það, sem krafa á verðjöfnunargjaldi væri hærri en innkomið verðjöfnunargjald. Og það er svo sem alveg vitanlegt, að þessi gróði er alveg nákvæmlega jafnt tekinn af þeim, sem undanþágu hafa frá verðjöfnunargjaldi, og þeir þar með sviptir þessum hlunnindum. Þetta held ég sé alveg ljóst. Ég vildi, að hæstv. forsrh. tækist að vera dálitið skýrari, þegar hann útskýrir þetta næst. En mér virðist þetta augljóst. Ég get vel trúað því, að mjólkurframleiðendur þeir, sem ekki eru undanþegnir verðjöfnunargjaldi, noti sér sinn meiri hluta einmitt til þess að ákveða útborgun fyrir mjólkina svo lága, að verðjöfnunargjaldið lendi jafnt á öllum, hvort þeir hafa undanþágu eða ekki. Af því að hæstv. forsrh. andmælti þessu nokkuð í sinni ræðu, hefi ég borið það undir glögga menn, og þeir geta ekki komizt í skilning um, að þetta sé öðru vísi en ég álit það vera. Ég tek náttúrlega gilt svar forsrh., því að maður í hans stöðu má ekki gefa nema rétta skýrslu, viðkomandi fregninni um að austanmjólkin hefði ekki verið flokkuð, eða verð misjafnað á henni, — að það væri algerlega kviksaga. Mér fannst hann satt að segja samt kveða dálítið laust að orði meðan hann falaði með sínum eigin orðum. En þegar hann las yfirlýsingu frá hv. 1. þm. Árn., fannst mér allt miklu ákveðnara; yfirlýsingin var mjög ákveðin. En hæstv. forsrh. sagði ekki annað en að mjólkin hefði einatt verið flokkuð í verðflokka, og býst ég líka við, að þetta hafi ekki verið gert að fullkominni reglu, enda hefi ég aldrei heyrt annað en að fyrir þetta hafi komið, að menn hafi fengið fullt verð, þó ekki hafi verið fyrsta flokks vara eða annars flokks vara.

Um þetta „þó“ skulum við ekki deila. Við höfum þar báðir jafn rétt fyrir okkur. Ef frv. verður samþ. óbreytt, á „þó“ að standa þarna. Í minni till. segir, að menn fái jafnt verð fyrir jafngóða mjólk, og þá má vitna í 13. gr. Þessi síðari brtt. mín, um að fella niður „þó“, er ekki annað en afleiðing af fyrri brtt. minni, og mun ég taka hana aftur, ef mín fyrri brtt. verður ekki samþ.

Ég skal lítið ræða um það, sem hæstv. forsrh. talaði um mjólkurstöðina hér og nýja mjólkurstöð, sem ætti að reisa í staðinn. Þetta er, eins og við vitum, ákaflega mikið hitamál, þar sem hæstv. forsrh. tók leigunámi stöð Mjólkursambands Kjalarnesþings. Hinsvegar efast ég nú um, hvort þessi afskaplegi sérfræðingur, sem forsrh. hefir látið rannsaka þetta, sé svo alveg fullgildur maður. að hann dæmi nokkurn hæstaréttardóm um, hvað gera á í þessu máli. Ég man ekki betur en ég heyrði um það þegar þessi maður var á ferð í sumar, að dómur hans færi mjög í aðra átt en dómur annars manns, sem þetta var borið undir, og sem í raun og veru er miklu meira mark tekið á á þessu sviði, sem er mjólkurbúaráðunautur dönsku stj., sem hefir athugað fyrirkomulag á stöðinni eins og hún er nú og telur, að það sé alveg sjálfsagt að una við hana með umbótum. En hinn mun bara vera verkfræðingur frá „prívat“-firma, sem byggir allskonar mjólkurstöðvar hvar sem vera skal, og vill byggja þær og byggja sem allra flestar, rétt eins og góður fatakaupmaður vill fá hvern mann til að fá sér nýja kápu. Mér er sagt, að hann vildi byggja nýtt hús, en taka gömlu vélarnar, sem eru fullgildar, og setja þær þangað. Ég skal ekki fara langt út í rökræður um þetta, ég er ekki nógu kunnugur málinu, en ég hygg, að það standi nokkuð orð á móti orði hjá þessum dönsku sérfræðingum. Og það hygg ég allir séu sammála um, að gera skuli allt, sem mögulegt er, til þess að notast við það, sem til er í landinu af þessum hlutum. Það er ekki svo „flott“ með gjaldeyri og peninga, að vert sé að henda því, sem nothæft er, jafnvel þó að maður geti fengið eitthvað, sem í svipinn er ennþá finna.

Hæstv. forsrh. var í raun og veru ekki mikið á móti því, að bráðabirgðaákvæðið félli niður; hann sagði, að það mundi falla bráðlega niður af sjálfu sér, ef þessi lög yrðu samþ. Það var eiginlega loforð, þegar lögin voru sett fyrir þremur árum og fjórum mánuðum. Ég veit ekki betur en síðan hafi hvað eftir annað komið frétt um það, að nú yrði það alveg á næstunni. En það er eins og alltaf hafi verið tveir tígulkóngar í spilunum, og þannig situr enn allt í þeim sama ófarnaði, að framleiðendur á öllu þessu geypivíða svæði eru sviptir umráðum yfir sinni vöru og þetta falið nefnd, sem að vísu á að geta farið með þessi mál nokkurn veginn, en er þó ekki rétt að láta taka fram fyrir hendurnar á þessum mönnum, sem eiga vöruna. Mér skildist yfirleitt á ýmsum andmælum hæstv. forsrh. viðvíkjandi brtt. mínum, að hann teldi þær ekki í raun og veru mikið á móti hans vilja, heldur öllu heldur, að hann hefði svona tekið það í sig að vilja hafa frv. óbreytt; og kannske er einhver ótti, að málið nái þá ekki fram að ganga á þessu þingi. En ég get ekki séð annað en að nægilegt svigrúm sé á þessu þingi til að afgr. frv., þó að einhver breyting verði á því gerð.