14.12.1937
Efri deild: 49. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

Frsm. 2. minni hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Ég get verið mjög svo fáorður, enda er kominn dagur að kvöldi. Ég vildi aðeins svara hv. 1. þm. N.-M. örfáum orðum, en hann er nú ekki við. Hann kvaðst ekki vita, hvernig ætti að framkvæma þá ákvörðun, sem talað er um í 1. brtt. minni, að taka hæfilegt tillit til mismunandi kostnaðar á mjólkurframleiðslunni. Og hann tók það dæmi, að á einum bæ mjólkuðu kýrnar betur en á öðrum, og þá yrði að fara eftir því. Þetta er misskilningur hjá hv. þm. Það, sem ég á við, er það að á svæðum innan verðjöfnunarsvæðisins verði að athuga — t. d. í hrepp — hvað meðaltalsframleiðslukostnaður er fyrir kúna, og samkvæmt þeim mismun, sem reynist, ætti að mismuna með verðjöfnunargjald. Og það er einmitt tekið fram, hvernig á að framkvæma þetta. Það er Búnaðarfélag Íslands, sem á að gera till. um, hver mismunur sé á framleiðslukostnaði. Mér virðist það ágætt t. d. að fá hv. 1. þm. N.-M. til þessarar skýrslugerðar; ég geri ráð fyrir að hann verði duglegur að því, en svo verður auðvitað allt athugað og endurskoðað áður en það er tekið gott og gilt.

Um hina brtt. sagði hann, að hún mundi koma af sjálfu sér og væri sjálfsögð. En því þá ekki að láta hana koma strax? Brtt. mínar eru hóflegar og geta ekki hneykslað neinn. Og ég er sannfærður um, að þær mundu ná fram að ganga, ef málið væri ekki þegar orðið samningsbundið eða þm. fastir á þeirri skoðun að láta ekki breyta frv. Annars sést við atkvgr., hversu þeim hnútum er háttað.