18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

1. mál, fjárlög 1938

*Steingrímur Steinþórsson:

Ég á enga brtt. við þessa umr. frekar en við 2. umr. og þarf því af þeim ástæðum ekki að taka til máls. Ég ætla ekki heldur að tala almennt, hvorki um einstakar till. hv. fjvn. né einstakar till. hv. þm., sem hér liggja fyrir, heldur mun ég sýna með atkv. mínu, hvernig ég snýst við þeim. Þó vil ég geta þess út af því, sem ég sagði við 2. umr. fjárl. um fjárframlög til nokkurra þátta í landbúnaðarstarfseminni, að ég get að sumu leyti verið þakklátur hv. fjvn., að því leyti sem þær bendingar, sem ég gaf, hafa verið teknar til greina, t. d. að því er snertir aukið framlag til búfjárræktarinnar og till. hv. fjvn. um 8000 kr. styrk til Búnaðarfélagsins vegna 100 ára hátíðahalda þess í vor. En ég verð að segja, að mér þykir smátt skammtað, og eins og ég hefi lýst, sé ég ekki, að Búnaðarfélagið geti, eins og fjárhagur þess er nú, haldið sinni starfsemi uppi, en ég sé ekki til neins að koma með sérstaka brtt. í þessu sambandi, því að það er búið að skjalleggja þetta fyrir hv. n.

Það, sem kom mér aðallega til að standa upp, er brtt. á þskj. 444, II., sem þeir flytja hv. þm. N.-Þ. og hv. þm. Ak. Hv. þm. Ak. hefir þegar mælt fyrir þessari till., svo að mér finnst ég geta sagt mitt álit á henni, þó að hv. aðalflm. hafi ekki talað fyrir henni. Þar er farið fram á það, að sá styrkur, sem samvn. samgöngumála leggur til, að veittur sé til Skagafjarðarbátsins frá Siglufirði, sem samvn. leggur til, að sé 3000 kr., sé færður niður í 2000 kr., en hinsvegar er lagt til, að aukið sé framlag til Norðurlandsbátsins, sem á að fara austur um, um 2000 kr. Ég vil í þessu sambandi benda á það fyrst, að ég tel, að hv. frsm. samvn. samgöngumála hafi ekki skýrt rétt frá þessu í sinni framsöguræðu, því að þar kom það þannig fram, að sú aukning á styrk til flóabáta, sem hv. n. leggur til og nemur 4000 kr., gangi næstum því eingöngu til Skagafjarðar, þannig að 3000 kr. af þessu fari til Skagafjarðarbátsins. Þetta er alls ekki rétt, því að Norðurlandsbáturinn, sem annazt hefir flóaferðir allt frá Skagafirði og austur að Skálum, hefir verið styrktur með 13000 kr. Skagafjörður hefir vitanlega átt sinn hluta í þessari upphæð, en sá hluti getur ekki hafa numið minna en ¼, eða rösklega 3000 kr., svo það orkar ekki tvímælis, að þetta, sem ætlazt er til að lagt sé til Skagafjarðar, er ekki meira en sá hluti, sem héraðið átti áður í styrknum til Norðurlandsbátsins, og þar sem hann á að hætta við Skagafjarðarferðirnar, en á aftur á móti að fara til Austfjarða, þá skoða ég það mjög ósvífna till. af þessum hv. þm., að ætlast til þess, að klipið verði af þessum 3000 kr., sem er varla jafnmikill hluti eins og Skagafjörður átti í styrknum til Norðurlandsbátsins.

Vil ég nú færa rök fyrir því, hvers vegna er farið fram á það, að sérstakur bátur verði styrktur til flutninga á Skagafirði. Það stendur í sambandi við það mjólkurbú, sem sett hefir verið upp á Sauðárkróki fyrir 1½ ári síðan. Mjólkursalan byggist vitanlega á því einu, að hægt sé að hafa ferðir við Siglufjörð ekki sjaldnar en tvisvar sinnum í viku, a. m. k. sumarmánuðina, en til þess hefir Norðurlandsbáturinn reynzt alls ónógur. Þess vegna hefir kaupfélag Sauðárkróks orðið að semja við sérstakan bát um þessa mjólkurflutninga, og til þessa báts, sem nú er í förum, hefir gengið allmikill hluti af þeim flutningi, sem póstbáturinn áður hafði til Skagafjarðar, enda tók hv. þm. Ak. það fram áðan, að síðan þessi mjólkurbátur fór að verða í förum, hefðu ferðirnar til Skagafjarðar borgað sig verr en áður. Það er því sannað samkv. umsögn kunnugra manna á þessum stað, að póstbáturinn hefir ekki getað fullnægt þörf Skagfirðinga og er því orðinn óþarfur að miklu leyti. Það þarf annað fyrirkomulag á þessu, og er ætlazt til, að þessi bátur annist flutninga á hafnir í Skagafirði, en féð, sem lagt er til hans, má ekki verða minna en Skagfirðingar áttu áður í þeim styrk, sem gekk til póstbátsins. Það vil ég sérstaklega leggja áherzlu á í þessu sambandi. Ég vil minna á, að það þykja líkur fyrir því, að fjárpestin sé komin í Skagafjörð, og ef það reynist svo, að hún breiðist út vestan Héraðsvatna, þar sem aðalsvæði mjólkurbúsins er, þá er enginn vafi á, að það er mesta nauðsyn á því að auka mjólkurframleiðsluna þar nokkuð, og þá er það óhugsandi á öðrum grundvelli en þeim, að nokkuð af mjólkinni sé hægt að flytja til Siglufjarðar yfir sumarmánuðina, meðan markaðurinn er þar mikill. En mjólkursamlagið getur alls ekki séð um flutninginn öðruvísi en að fastur bátur sé þar í ferðum, en það er óhugsandi, að það haldi áfram nema því aðeins, að báturinn fái nokkurn styrk. Það er eitt, sem kemur hér til greina og stendur í sambandi við fjárpestina, sem sé það, að allmikill hluti af því, sem flutt er frá Skagafirði til Siglufjarðar, er hey. Nú er bannað að flytja hey af svæðinu vestan Héraðsvatna til Siglufjarðar, og ef pestin kemur í Skagafjörð fyrir alvöru, þá verður að banna allan heyflutning þaðan nema með sérstakri undanþágu, og ef heyflutningurinn félli niður, þá væri enn verra að láta bátinn bera sig, nema hann fengi styrk til þess. Ég vil lýsa því yfir, að ef Alþ. ætlar að lækka styrkinn til Skagafjarðarbátsins niður í 2000 kr., þá sé ég ekki annað en að við verðum að afþakka styrk í þennan sérstaka bát, en gera kröfu til þess, að póstbáturinn verði notaður eins og áður, því að ég hefi enga trú á því, að hægt sé að halda uppi bát til þessara ferða með 2000 kr. styrk. Lágmarkið hlýtur að vera 3000 kr., enda hefi ég þegar fært rök að því, að það er ekki meira en sem svaraði þeim hluta, sem Skagfirðingar áður höfðu rétt til af þeim styrk, sem veittur var til póstbátsins.

Sú hækkun, sem ég legg til, að varið verði til flóabátsins, ætti að tryggja, að hann færi til Skagafjarðar, en ekki eins og nú frá Skaga og austur á Seyðisfjörð. Ég held, að ég hafi gert grein fyrir, hvernig þetta horfir við fyrir Skagfirðingum, og fært fyrir því full rök, að það er ómögulegt að reka Skagafjarðarbátinn með tvö þúsund kr. fjárframlagi. Það er hæpið, að það takist með þrem þús., en er þó hóti nær.

Ég vil taka fram aftur, að verði þessi till. lækkuð niður í 2 þús. kr., verðum við að gera þá kröfu, að heldur verði horfið að gamla laginu, að póstbáturinn gangi til Skagafjarðar, svo við getum notað hann.