20.12.1937
Efri deild: 53. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (841)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Bjarni Snæbjörnsson:

Ég hefi ekki áður tekið þátt í þessum umr., meðfram af því, að ég álit, að vel hafi verið haldið á málstað Hafnarfjarðarkaupstaðar af hv. 1. þm. Reykv., svo og af því, að ég álít, að það sé til einskis að vera að berjast á móti þessum l. eða reyna að fá lagfæringar á þeim, vegna þess, að það sé fyrirfram ákveðið, að svona eigi það að vera og öðruvísi ekki, eins og vant er að vera með ýms frv., sem knúin eru áfram með hálfgerðum einræðismáta.

Ég vil skýra ofurlítið frá því, hvernig þessi mjólkurlög hafa komið við mitt byggðarlag. Áður en þessi mjólkurl. komu, þá var talsvert af fátækum mönnum í Hafnarfirði, sem höfðu eignast 2–3 kýr. Það voru mest fátækir barnamenn, sem höfðu reynt að eignast kýr af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi til þess að fá ódýra mjólk fyrir heimili sín og börn sín, og svo í öðru lagi til þess að bæta afkomu sína, sem hefir verið sérstaklega slæm upp á síðkastið. Þeir gátu hirt kýrnar að vetrinum með aðstoð kvenna sinna og barna, en að sumrinu gátu þeir, sem erfitt áttu með að fara frá heimilum sínum í síld eða annað þess háttar, farið í sveit og heyjað handa skepnum sínum og haft konur sínar og börn með sér.

En þegar mjólkurl. voru sett, þá var þeim gert að greiða svo háan skatt fyrir hverja kú, ef þeir höfðu ekki túnblett, að það var ógerningur að halda þessu áfram.

Í öðru lagi var það svo, að þegar þessi l. komu, þá var það álitið, að gerilsneyða ætti alla mjólk. Í bæjunum stóð töluverður styr um það, hvort gerilsneyða ætti mjólkina, en ég ætla ekki að fara út í það almennt. Ég vil samt lýsa því yfir, að ég álit. að það þurfi ekki að vera til óhollnustu í bæjunum, þó mjólkin sé ekki gerilsneydd, vegna þess, að lækniseftirlit og heilbrigðiseftirlit er það gott í bæjunum, að slíkt á ekki að koma að sök. Það er annað mál í sveitunum, þar sem erfitt er fyrir læknana að hafa umsjón með sjúklingum og heimilum. En í bæjunum kemur þetta ekki svo mikið að sök. Það er líka alveg sama, hvernig farið er með mjólkina, að ef hún er gerilsneydd, þá er hún aldrei eins góð vara og ef hún er ógerilsneydd.

Það var sem sagt álitið, að gerilsneyða ætti mjólkina, og ráðh. mundi ekki nota þá heimild, sem var til undanþágu. Hafnarfjörður vildi þess vegna reyna að koma upp búi þar, til þess að losna við að flytja mjólkina inn í Rvík. Frumkvöðlar í þessu verki voru Garðhverfingar, sem vildu mjög svo gera þetta. Þegar búið er svo komið upp, þá kemur heimild um það, að ýmsir kaupstaðir þurfi ekki að gerilsneyða mjólk og geti selt sína mjólk fyrir betra verð heldur en gat fengizt í búinu. En þá er þegar búið að stofna þetta þú, og vitanlegt er, að það muní ekki bera sig og fara um koll, svo framarlega, sem allir skipti ekki við það. Þá er bundizt samtökum af þeim, sem eru við búið, að eyðileggja það, að þeir, sem minni máttar voru gætu komizt undir undanþáguna í l. Afleiðingin af þessu öllu er svo sú, að þeir menn, sem áður höfðu hagnað af því að hafa 1–3 kýr, urðu nú að hætta þessum atvinnurekstri sínum, bæði af því að skattur var lagður á þessa framleiðslu þeirra með verðjöfnunargjaldinu, og í öðru lagi fengu þeir minna fyrir framleiðslu sína en áður, eftir að þeir urðu að setja hana í búið. Þetta hefir því komið mjög tilfinnanlega niður á bæjarfélagi, sem yfirleitt hefir ekki nema fátæklinga innan sinna takmarka og þar að auki hefir við atvinnuleysi að stríða. Nú virðist stefnan vera sú, og manni finnst það dálítið einkennileg stefna að létta hlut þeirra manna, sem geta haft gróðavænlega atvinnu af þessu eins og sýnir sig á því, hvað kúabúum fjölgar austanfjalls, með því að niðast á fátæklingum í bæjunum. Þetta er ekki rétt stefna, enda getur þessi stefna ekki orðið til frambúðar. Það hlýtur að reka að því, að óánægjan risi það hátt á móti þessu fyrirkomulagi, að því verði breytt í betra horf. Menn ættu að hafa það hugfast, að kapp er bezt með forsjá, og það getur aldrei góðri lukku stýrt að auðga einn með því að beita annan ranglæti.

Það hefir líka sýnt sig í þessum umr., að það verður ekki hrakið, að ef þetta frv. verður samþ., þá hlýtur mjólkin að hækka í verði. Þegar hæstv. forsrh. tók til máls hér í d. um þetta mál, þá skein það í gegn hjá honum, að það væri engin furða, þó það yrði svo, þegar hann sagði hvað eftir annað, að það væri í sjálfu sér einkennilegt, að mjólkin stæði í stað, þegar annað vöruverð hefði hækkað. Ég vil álita, að einmitt af því að þetta frv. hefir ekki orðið að l., þá hafi verið hægt að halda verðinu í þeim skorðum, sem það hefir verið í. Nú mun það verða auðsótt mál hjá þeim, sem það vilja, að fá hækkun á mjólkinni. En það mega þeir vita, sem standa að þessari löggjöf, að ef slíkt verður, þá mun verða mikil óánægja út af því í kaupstöðum landsins. Mér er ekki grunlaust um, að þeir, sem eiga hagsmuna að gæta í kaupstöðunum og eiga að bera fyrir brjósti hag fátækra manna í bæjunum, séu farnir að fyrirverða sig fyrir þessa löggjöf, því þeir hafa ekki setið hér í d. upp á síðkastið, þegar rætt hefir verið um þetta frv.

Ég ætla svo ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég mun greiða atkv. á móti þessu frv., af því ég álít, að það stefni hreint og beint að því að koma af stað rangindum í garð fátæklinga í bæjunum og hleypa ofvexti í þennan atvinnuveg austanfjalls, sem mun hefna sín í framtíðinni, ekki aðeins á landbúnaðinum, heldur og á þjóðinni í heild sinni.