18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

1. mál, fjárlög 1938

Guðrún Lárusdóttir:

Ég á ekki nema eina brtt. við þetta fjárlfrv. Í sambandi við þá brtt., sem hljóðar um það, að veita hjúkrunar- og elliheimilinu Grund nokkurn styrk, get ég ekki komizt hjá að skýra frá starfssögu þessarar starfsgreinar, sem er tiltölulega ung í landi vorn, sem sé starfið fyrir stofnun heimila handa gamla fólkinu. Ég hygg, að fyrsta sporið til stofnunar elliheimila hafi verið stigið árið 1921 eða þar um kring, og voru þá stofnuð svo að segja samtímis elliheimili hér í Reykjavík og á Ísafirði. Á Ísafirði hefir bærinn rekið þessa starfsemi, fyrstu árin undir umsjá Hjálpræðishersins, en síðar undir eigin forsjá. Heimili þetta hefir 23 gamalmenni, og fer starfsemin fram í gamla sjúkrahúsinu, sem notað var áður en spítalinn var byggður. Á þessu heimili er forstöðukona, ein starfsstúlka og ein hjúkrunarkona, að vísu ekki lærð, en æfð í hjúkrunarstarfi. Elliheimili þetta er einungis fyrir Ísafjarðarkaupstað og rekið á kostnað bæjarins.

Á Seyðisfirði kom kvenfélagið Kvik upp elliheimili fyrir átta árum. Þar dvelja nú 13 gamalmenni; af þeim eru aðeins 4, sem hafa fótavist. Meðgjöf á mánuði er 75 krónur. Kvenfélagið ber kostnaðinn, sem umfram er tekjur heimilisins. Seyðisfjarðarbær styrkir stofnunina ekkert og hefir kvenfélagið, sem rekur þessa líknarstofnun, engan styrk nema þann litla 1000 kr. styrk, sem því er veittur af Alþ. Á þessu elliheimili dvelja gamalmenni annarsstaðar frá en úr Seyðisfirði einum.

Í Hafnarfirði starfar 3. elliheimilið hér á landi. Bærinn rekur það á sinn kostnað. Vistmenn munu vera þar 22. Bærinn leigir húsnæði hjá Hjálpræðishernum. Forstöðukona og 3–4 starfsstúlkur auk hjúkrunarkonu bæjarins, sem veitir aðstoð á heimilinu, ef þurfa þykir, starfa þar. Stofnunin er nú á 3. aldursári.

Fjórða elliheimilið er hér í Reykjavík og nefnist nú hjúkrunar- og elliheimilið Grund. Allra fyrstu upptök þessa heimilis verða rakin til ársins 1921. Nefnd manna, sem hafði starfað hér í bænum að nokkru leyti að tilhlutun umdæmisstúkunnar nr. 1 og staðið fyrir matgjöfum handa fátæku fólki, steig fyrsta sporið að stofnun þessa elliheimilis. Í gegnum starf sitt við „Samverjann“ — en þannig nefndist hjálparstarfsemi nefndarinnar — höfðu nefndarmenn orðið þess mjög áskynja, hvílík þörf var hér í bæ fyrir elliheimili, hvíldarstað gömlu og lúnu fólki, sem fyrst og fremst þarfnaðist næðis og nærgætinnar aðhlynningar.

Starf nefndarinnar var borið uppi af frjálsum gjöfum bæjarbúa, og við kynningu manna af starfsháttum og starfsrekstri forgöngumanna Samverjans áunnu þeir sér traust bæjarbúa og fengu þeir því góðar undirtektir, er þeir hreyfðu elliheimilishugmynd sinni, svo góða, að þeir höfðu ráð á að festa kaup á húseign og dálítilli túnspildu vestan við bæinn. Var þá stigið fyrsta sporið, fleiri komu á eftir, eins og allir vita, sem fylgzt hafa með þróun og rekstri elliheimilisins. Húsið, sem keypt var, Grund, rúmaði um 22 menn auk starfsfólks og kostaði 36 þús. kr. Féð, sem lagt var í húskaupin, var sem fyrr er sagt mestmegnis gjafir, og nokkuð safnaðist þó við skemmtanir, sem bæjarbúar kannast við undir nafninu gamalmennaskemmtanir. Allra fyrsta gamalmennaskemmtunin, sem haldin var hér í bæ, fór fram í ágúst 1921. Það var útiskemmtun, haldin á túnunum í kringum Ás og Hof í Vesturbænum, í blíðskaparveðri á sunnudegi. Safnaðist þarna saman mannfjöldi mikill, en ekki voru allir sérlega fráir á fæti, sem þar komu; haltir og hrumir gestir stauluðust áfram, en bros var á hverju andliti, því að þarna var gamla fólkið heiðursgestir og viðburður dagsins. Næsta sumar var aftur haldin svipuð skemmtun. Að kvöldi voru þá 400 kr. lagðar í sjóð. Það voru gjafir frá góðum mönnum, sem skildu málefnið og vildu styrkja það, og svo ágóði af kaffi, sem selt var á staðnum, öllum nema sextugu fólki; það fékk þá og fær enn ókeypis kaffi á gamalmennaskemmtunum. Það má segja, að þessar 400 kr. hafi verið stofnfé elliheimilisins, því við þær bættust svo gjafir og áheit mjög margra. Um haustið í október var hælið vígt að viðstöddu margmenni. Þótti mörgum þetta ærið dirfskufullt fyrirtæki af fáeinum efnalausum mönnum, sem þar að auki höfðu engan tíma afgangs frá störfum sínum til að sinna slíku heimili, og ómótmælanlega er slíkt framtak þess virði, að í minnum sé haft. Fyrir því ætla ég að nefna hér nöfn forgöngumannanna, svo að þau geymist í þingtíðindum íslenzku þjóðarinnar. Vera má, að eitt sinn verði skráð sú saga, er geymist um afrek einstaklinga, er þeir sjálfir eru brautu gengnir og niðjar njóta starfs þeirra. Nöfnin eru þessi: Flosi Sigurðsson trésmíðameistari, Haraldur Sigurðsson verzlunarmaður, Júlíus Árnason verzlunarmaður, Páll Jónsson, sem var ritari nefndarinnar, og Sigurbjörn Gíslason cand. theol., sem var formaður þessarar nefndar. Fyrsta ráðskonan á elliheimilinu varð María Pétursdóttir, sem vel og lengi hafði starfað að matgjöfum Samverjans. Þótti það vel við eiga, að hún tæki að sér forstöðu elliheimilisins, enda var hún hin ágætasta kona í hvívetna.

Brátt kom þar, að húsrúm brast að Grund fyrir þau hin mörgu gamalmenni, sem þangað sóttu, og var nú farið að svipast um eftir stærra húsrúmi, og var þá ráðizt í það þrekvirki að koma upp stórhýsinu við Hringbraut 150. Bærinn lagði til lóðina, og þess ber vissulega að geta, að Reykjavíkurbær hefir frá öndverðu veitt fyrirtæki þessu hinn bezta stuðning. Upphaflega var ekki ætlað að byggja allt húsið í einu, heldur bæta við bygginguna eftir hendi og efnum. En þá var væntanlegur í heimsókn frá Vesturheimi fjöldi íslenzkra gesta til þess að vera við þjóðhátíðina hér 1930, og sökum þess, að útlit var fyrir þrengsli í bænum, bauð ríkisstjórnin stjórn elliheimilisins 50 þús. kr. lán til þess að fullgera húsið og geta svo hýst VesturÍslendingana. Lánstilboðið varð til þess, að húsið fullgerðist, en það batt stjórn elliheimilisins vitanlega jafnframt allþunga fjárhagslega ábyrgð, sem hún ella hefði komizt hjá. Þess skal getið hér, að þær 50 þús. kr., sem ríkisstjórnin lánaði, voru greiddar að fullu á sama ári. Óneitanlega hefði stjórn elliheimilisins verið það fyrirhafnarminna að leita eftirgjafar á láni þessu, eins og margur gerir nú á dögum. Það, að húsið fullgerðist í einu, en ekki smátt og smátt,eins og áætlað var, dró þann dilk á eftir sér, að óhemju kostnaður hlóðst á fyrirtækið og allt varð í helmingi stærra stíl en ella hefði orðið. Rentur af lánum eru árlega um og yfir 30 þús. kr. Segir það sig sjálft, að erfitt er að róa jafnþungum bát, og er þar við bætast vanhöld á meðgjöfum frá ýmsum illa stæðum hreppum og sveitarfélögum, er auðsætt, að hér er um erfiðismuni að ræða, sem of lítill gaumur hefir verið gefinn hér af háttv. Alþingi, þar sem heimilið var svipt styrk, er það þó hlaut um 3 ára bil, fyrst 5 þús. og síðan 4 þús. kr.

Hér er þó fyrst og fremst um þjóðnýtt starf að ræða, starf, sem sjá má m. a. af styrk þeim, sem Alþ. veitir 3 öðrum elliheimilum, að fjárveitingavald þingsins telur styrkhæft og verðugt viðurkenningar. Ef einhver skyldi láta sér detta í hug, að forgöngumenn elliheimilisins eigi heimilið eða taki laun fyrir störf sín við stjórn þess nú um 15 ára skeið, þá er það hvorttveggja fjarri öllum sanni. Elliheimilið Grund er sjálfseignarstofnun og forstöðunefndin hefir aldrei tekið eina krónu í þóknun, og er það meira en sagt verður um allflestar stofnanir hér á landi. Eins og þegar er sagt, er elliheimilið bæði hjúkrunar- og elliheimili, en þrátt fyrir nafnið nýtur það ekki sjúkrahússréttinda, þrátt fyrir góðar sjúkrastofur, 3 lærðar hjúkrunarkonur og sérstakan heimilislækni. Það hefir verið sótt um þessi réttindi, en ekki fengizt, hvað sem því veldur.

Húsrúm er á elliheimilinu fyrir 150 vistmenn, en flestir hafa dvalið þar í einu 142.

Ég hefi dvalið alllengi við umtalsefni mitt í sambandi við brtt. mína, og reynt til að sýna, að öll sanngirni mælir með henni. Fjarri væri það mér að amast við styrk til elliheimilanna utan Reykjavíkur, enda þótt ég telji styrkinn, sem ánafnaður er 2 þeirra, fremur styrk til bæjarfélaga en stofnananna sjálfra, en misrétti tel ég það og illa sæmandi löggjafarþingi hverrar þjóðar sem er, að mismuna þannig stofnunum, sem allar inna samskonar starf af hendi í þágu og þarfir alþjóðar, og harla einkennilegt, ef sú stofnunin, sem stærst er og fullkomnust að öllum útbúnaði, sé beinlínis látin gjalda þess hjá þeim, sem með fjárveitingu fara. Ég held það auki ekki hróður þjóðarinnar, og það er ekki beinlínis hvatning fyrir duglega, framtakssama. menn, sem vilja ráðast í framkvæmdir slíkar sem þessar eða aðrar henni líkar, þegar einu launin, sem þeir fá frá þeim, sem með völdin fara, er mótspyrna gegn sanngjörnum styrkbeiðnum, fullkomin lítilsvirðing á fyrirhöfn og striti í þjóðarþarfir. Ég leyfi mér að óska og vænta, að þótt hv. fjvn. hafi ekki tekið þessa till. upp — ég álasa henni ekkert fyrir það — að hv. Alþ. greiði atkv. með till. eða varatill.

Ef gera ætti samanburð á elliheimilinu Grund og þeim fjórum elliheimilum, sem fá sínar þúsund kr. hvert, og veita því styrk hlutfallslega miðað við tekjur þess og hinna heimilanna, þá ætti það að fá eitthvað í kringum 7 þúsund kr.

Ég læt svo lokið orðum mínum um þetta mál; ég hefi áður staðið í sömu sporum á sama stað og mælt fyrir till. um þetta efni, sem þá var felld. Hvað hv. Alþ. gerir nú, veit ég ekki, en ég veit, að það er fullkomin þörf fyrir þessa stofnun að fá styrk. Ég sé ekki betur en að margar aðrar stofnanir hafi fengið slíka viðurkenningu, sem síður hafa átt hana skilið.

Ég ætla þá að snúa mér ofurlitið að öðru máli í sambandi við fjárhagsáætlun þessa árs. Ég varð þess áskynja, að hv. fjvn. hafði enga fjárveitingu ætlað til að koma á fót einhverskonar hjálparstöð fyrir drykkjumenn. Fyrir hv. Ed. lá frv., sem ég hefi flutt þing eftir þing um hæli handa drykkjumönnum, enda virðist full þörf á því hér í þessu landi, þar sem viðurkennt er, að mjög mikið er drukkið, og ég veit, að fjöldi manna staðfestir, að frv. sé réttmætt. Þetta frv. var afgr. frá hv. Ed. með rökstuddri dagskrá, með þeim tilmælum, að hv. fjvn. veitti styrk að upphæð 15–25 þús. kr. í þessu skyni. Lengi vonaði ég, að þetta mundi komast í kring á einhvern hátt, en nú sé ég, að þær vonir mínar hafa brugðizt. Ég sé hvergi styrk til þessa í brtt. fjvn. eða í fjárlagafrv. eins og það kom frá n. Ég tel þetta illa farið. Ástandið hjá oss nú er þannig, að ekki er hægt að komast hjá því að hafa einhvern samastað handa þeim vesalings mönnum, sem illa eru farnir af nautn áfengra drykkja. Þar við bætist, að rúm er svo takmarkað á Kleppi, að þar er allt yfirfullt, svo að þótt menn vilji bjarga sér með því að fá rúm fyrir einn og einn mann skamman tíma í senn, þá er útilokað, að það fáist. Vegna alls þessa vonaði ég, að hv. fjvn. mundi sjá sér fært að veita einhverja fjárhæð í þessu skyni, til að bæta úr mestu þörfinni fyrir þessa menn, sem hvergi eiga höfði sínu að að halla, og engu siður aðstandendum þeirra til hjálpar, sem venjulega eru í mjög miklum vandræðum með þá.

Í ræðu hæstv. fjmrh. í gærkvöldi kom hann inn á það, sem dæmi þess, hvað við sjálfstæðismenn bærum fram miklar hækkunartill. við fjárl., að frv. um drykkjumannahæli, sem fram hefði verið borið af sjálfstæðismönnum, myndi ekki kosta minna en 100 þús. kr. Mér hnykkti við þegar ég heyrði hæstv. fjmrh. nefna þessa upphæð. Ég hélt, að hann væri það hygginn maður í peningamálum, að hann skildi, að slíka upphæð hafði ég aldrei hugsað mér og að vel má bæta úr brýnustu þörfinni um að koma þessari stofnun upp fyrir miklu minna fé. En það vill verða svo, að þegar komið er í eldhúsið og búið að taka skörunginn og farið að skara í eldinn, að þá er margt sagt, sem ekki er gott að standa við siðar meir. Ef hv. þm. vissu um öll þau voðalegu vandræði, sem hvíla á einstöku heimilum og einstöku mönnum vegna drykkjuskapar, mundu þeir hugsa sig tvisvar um áður en þeir réttu upp hendina til að greiða atkv. á móti þessu máli.

Ég skal ekki taka upp meiri tíma. En ég vil taka það fram, hvort hv. fjvn. sér sér ekki fært að taka upp fjárveitingu til þessarar starfsemi.

Formaður fjvn. er sjálfur mikill bindindismaður og hefir oft talað fagurlega um það hér í hv. Alþ., hvað gera ætti til að létta áfengisbölinu af þjóðinni. Vænti ég þess því, að hann neyti aðstöðu sinnar til þess að styðja málefnið einnig í verki.