20.12.1937
Efri deild: 53. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

126. mál, raforkuveita á Akureyri

*Jónas Jónsson:

Vegna þess að hv. frsm. er ekki viðstaddur, vildi ég segja fáein orð, þar eð staðurinn, sem virkja á, er í mínu kjördæmi.

Það hefir náðst samkomulag milli allra flokka á þinginu um að veita þessa ábyrgð á árinu 1938, í því skyni að hrinda áfram þessu rafveitumáli Akureyrar, enda þótt Alþ. yfirleitt sé mjög varfærið í því að veita ábyrgðir, vegna þess að það er alls ekki hættulaus ráðsmennska, og stundum jafnvel verið gengið nokkuð langt í þeim efnum. En einmitt það, að allir flokkar eru sammála um að láta þessa ábyrgð sitja fyrir öðrum, sýnir mikilvægi málsins. Og þegar þess ennfremur er gætt, að Akureyringar hafa staðið í samningum á Englandi um lántöku og gera má ráði fyrir, að þetta lán fáist með góðum kjörum og að hægt sé að byrja á verkinu á næsta vori, þá má segja, að saman fari hugur manna á Akureyri um að koma þessu máli áfram og hugur Alþ. um að styðja það. Þess vegna býst ég við, að þessu máli verði tekið hér í d. á þann hátt, sem málavextir standa til. Það hefir verið unnið að því af mikilli eindrægni af þeim, sem hafa að því komið, og ég þykist vita, að sú eindrægni muni einnig fylgja málinu hér í þessari hv. d.